1975, árið sem Mói varð til.

Sumarið 1975 slógust Halli og Laddi með í för með Sumargleðinni og framundan var mikið gleðisumar á um 30 skemmtunum um allt land. 

Árin áður höfðu þeir slegið í gegn í sjónvarpinu og lögðu landið enn frekar að fótum sér með þessari ferð sinni. 

Þegar verið var að spá í efni til flutnings lögðu menn í púkkið. Bræðurnir áttu frábærar lagasyrpur til að flytja á sinn einstaka hátt, og Laddi flutti meðal annars skemmtilega smáskrýtlu sem ég man enn. 

Ég lagði fram sitthvað úr vetrarprógramminu mínu, en minntist einnig á, að veturinn áður hefði verið óvenju mikið um sjónvarpsviðtöl við háaldrað fólk, sem við uppi á fréttastofu sjónvarpsins skemmtum okkur jafnvel yfir að skoða mislukkuð viðtöl við eftir að þau voru tekin en ekki flutt, því að það var oft svo mikið misræmi í því sem aðstandendurnir sögðu fyrirfram um þessa hrumu viðmælendur og því hvernig þeir brugðust síðan við í viðtölunum. 

"Hann er svo ern" eða "hún er svo minnug og fróð" var oft sagt við okkur, en þegar á hólminn kom var blessað fólkið oft alls óvant svona löguðu og ýmist mundi lítið sem ekkert eða fór í baklás og varð jafnvel afundið og fúlt. 

Ég lagði fram handritsbeinagrind að skopstælingu á svona viðtali við 110 ára gamlan mann, sem héti Ebeneser Ebenesarson, og léki ég sjónvarpsmanninn, en Laddi léki gamla manninn. 

Handritið var ekki langt til að byrja með, en þegar við fórum að æfa okkur, datt okkur ýmislegt nýtt í hug og var ekki ónýtt að fá nokkrar frábærar hugmyndir Ladda í púkkið. 

 

En það sem gerði útslagið var auðvitað hin óborganlega týpa, sem Laddi skapaði þarna og hefur orðið að klassík. 

Nokkrum árum síðar skipti hann um nafn á þeim gamla og nefndi hann Mófreð Ísaksson, eða Móa og stimplaði hann endanlega inn í lagi sínu "Austurstræti".  

Og lengi lifi Mói! 


mbl.is Mói gamli og sessunautarnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband