Þegar "viðbjóðurinn" breyttist í hrifningu.

Ein eftirminnilegasta íþróttakeppni, sem ég hef séð, var Íslandsmót í vaxtarrækt, sem Jón Páll Sigmarsson tók þátt í. 

Fram að þessari keppni hafði ég aldrei horft á slíka keppni, og langaði ekki til þess, vegna þess að mér fannst hún komin út í miklar öfgar hvað varðaði það útlit, sem keppt var að. 

Gamli Atlas í Atlasæfingunum sínum fannst mér flottastur, hæfilega "massaður" og "skorinn" og með æfingar, sem voru hófstilltar og allir gátu tileinkað sér. 

Svo hófst Íslandsmótið og í fyrstu fannst mér sumt sem ég sá næstum því verðskulda lýsingarorðið "viðbjóður", að því er virtist afkáralegt og fráhrindandi útlit. 

En svo fór smám saman að renna upp fyrir manni í hverju keppnin var fólgin, og munurinn á keppendum fór að renna upp fyrir manni. 

Eftir því sem fleiri komu á svið og "pósuðu", því meiri varð hrifningin yfir þeim árangri sem þau bestu höfðu náð, og maður lét fljótlega berast með straumi fjöldans og hrífast æ meir.  

En síðan kom hið óvænta: Jón Páll Sigmarsson, sterkasti maður heims. Seint mun gleymast sú hrifningarbylgja sem fór um húsið þegar hann steig á svið, með þvílíkt sjálfstraust, útgeislun og gleði að áhorfendur gátu ekki annað en hrifist með honum með því að virða fyrir sér árangurinn, sem var svo margfalt betri en hjá keppinautunum, að það þurfti ekki að spyrja að leikslokum, - hann sigraði með yfirburðum.

Það eru að sjálfsögðu stundum skuggahliðar á því sem liggur að baki miklum árangri í íþróttum en það er mikilsvert að kynna sér allar hliðar þeirra og það besta, sem þær hafa fram að færa áður en dómar eru felldir.   

 


mbl.is „Algjör viðbjóður í lokin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband