Neyðarleg brunaæfing hérna um árið.

Ein neyðarlegasta frétt í sambandi við slökkvilið gerðist fyrir um 40 árum. Það var nefnilega svo gaman að skrifa hana og láta lesa hana í sjónvarpinu.  

Þannig var að slökkvilið Reykjavíkurflugvallar stóð fyrir brunaæfingu á auðu svæði fyrir sunnan austurenda brautar, sem þá var stafina 14/32, og er venjulega kölluð austur-vestur brautin. 

Það var fagur sumardagur og búið var að hafa mikið fyrir því að ná í flugvélarflak og fleiri tegundir af eldsmat til að búa til myndarlegan bálköst.  

Auk þess var búið að bera mikið af bensíni að kestinum og væta hann allan í bensíni. Þrír bílar slökkviliðsins voru notaðir.  

Þegar síðasti bensínbrúsinn var fluttur á slökkvibíl að kestinum kom í ljós, að brúsinn lak og að mestallt bensínið hafið lekið af honum á leiðinni. Var honum því hent nær tómum í köstinn.

Tvennum sögum fer af því hvað gerðist næst.

Önnur útgáfan var sú að þegar klukkan var um 15:00 og allt var klárt, leit einhver á klukku sína og kallaði: "Kaffi!"

Fóru þá allir inn í hús skammt frá til að njóta kaffitímans. 

Þegar þeir höfðu verið þar nokkra stund hringdi síminn.  Flugturninn tilkynnti að mikið bál logaði við brautarenda 14-32 í samræmi við veitt leyfi til brunaæfingar, en einkennilegt væri að þar sæist enn enginn slökkviliðsmaður en hins vegar væri kominn eldur í afturenda bíls slökkviliðsins skammt frá. 

Slökkviliðsmönnunum brá í brún þegar þeir fóru á vettvang og komu að flakinu brunnu til mest, en sáu einnig að eldur logaði í aftanverðum slökkvibílnum, sem hafði verið notaður til flutninganna vegna brunaæfingarinnar. 

Í ljós kom, að þegar slökkviliðsmenn höfðu borið leka bensínbrúsann að flakinu, skildu þeir eftir bensínslóð milli bílsins góða og flaksins. 

Einhverjir pörupiltar höfðu fylgst með brambolti slökkviliðsmanna, og þegar þeir þeir síðarnefndu fóru í kaffi, höfðu þessir piltar hlaupið inn á æfingasvæðið, kveikt í pappírsgöndli og kastað honum að flakinu, sem fuðraði upp á augabragði.  

En jafnframt læsti eldurinn sig eftir bensínslóðinni og komst í afturenda slökkvibílsins. 

Fór nú öll orka slökkviliðsmanna í að slökkva í slökkviliðsbílnum og ekkert færi gafst til að æfa að slökkva í flakinu.  

Hin útgáfan var sú, að leka bensínbrúsanum var ekið að flakinu og honum hent á það, en þegar kveikt var í flakinu í beinu framhaldi af þessu, barst eldurinn strax eftir bensínslóðinni að slökkviliðsbílnum, svo að öll orka viðstaddra fór í að slökkva í honum. 

Er sú útgáfa öllu líklegri, en þó minnir mig jafnvel að báðar útgáfurnar séu réttar og að um tvö neyðarleg atvik hafi verið að ræða. 

Það skiptir ekki öllu máli, því að það er staðreynd að ég skrifaði frétt um neyðarlega uppákomu hjá slökkviliðinu á Reykjavíkurflugvelli undir yndislegri fyrirsögn:  

"Brunaæfing eyðileggst í eldi." 


mbl.is Tóku forskot á þrettándagleðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Fyrirsagnir gerast ekki betri.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 7.1.2018 kl. 04:06

2 identicon

Minnir á þetta :)
https://www.youtube.com/watch?v=hA5V78NC1mM

DoctorE (IP-tala skráð) 7.1.2018 kl. 15:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband