Vestfirðir áratugum á eftir í samgöngum.

Meðal flugvalla úti á landi, þar sem er búnaður til að stunda áætlunarflug með blindaðflugi og nætursjónflugi allan sólarhringinn árið um kring, ef veður leyfir má nefna: Sauðárkrók, Akureyri, Húsavík, Egilsstaði, Hornafjörð og Vestmannaeyjar. 

Þannig hefur það verið í áratugi, en á hinn bóginn er enginn slíkur flugvöllur á Vestfjörðum. 

Eini flugvöllurinn, sem hefði verið hægt að bjóða upp á slíka aðstöðu á með því að veita til þess fé, var flugvöllurinn við Patreksfjörð sem var lagður niður fyrir áratug og meira að segja gert í því að stytta hugsanlega nothæfa flugbraut. 

Vestfirðir skera sig alveg úr að þessu leyti. Aðal flugvöllur landsfjórðungsins á Ísafirði er lokaður vegna myrkurs meira en 20 klukkustundir á hverjum degi á þessum árstíma, sama hvað veðrið er gott. 

Hingað til hefur leiðin Vestfjarðavegur nr. 60 verið lokuð vegna snjóa á Hrafnseyrarheiði yfir veturinn. 

Ekkert svipað fornaldarfyrirbæri hefur verið að finna í öðrum landshlutum. 

Í meginatriðum ríkir svipað ástand á landi og í lofti á Vestfjörðum og var fyrir hálfri öld. 

Með gerð nætursjónflugsflugvallar á Barðaströnd eða með því að gera upp Patreksfjarðarflugvöll, væri hægt að opna fyrir flug allan sólarhringinn til Vestfjarða, sem gæti fengið landtengingu í gegnum komandi Dýrafjarðargöng allt árið. 

Landleiðin milli  Patreksfjarðar og Ísafjarðar verður um 160 kílómetrar með tilkomu Dýrafjarðarganga, og á milli flugbrautar við Haga eða Brjánslæk aðeins um 100 til 120 kílómetrar.   


mbl.is Vestfirðir áratugum á eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband