Einlægasta gleði sem til er.

Tvær heimsóknir, 2003 og 2006, til fátæka fjallaþorpsins El-Kere í Eþíópíu, verða ógleymanlegar, einkum vegna þess hve einlæg og ósvikin gleði skein út úr andlitum barnanna þar, þegar ég tók af þeim myndir og sýndi þeim þær, en slíkt höfðu þau aldrei upplifað áður.

Þessi einlæga gleði sást líka þegar þau léku sér við frumstæð kjör, þótt sjúkdómar, barnadauði og skortur á vatni og fæðu séu mikið böl þarna. 

Í síðara skiptið fór ég að leiðum barna, sem höfðu dáið á þeim þremur árum, sem liðin voru síðan ég kom þangað síðast. 

Í seinni ferðinni var farið með litla kornmyllu í afskekkt strákofaþorp í héraðinu, og gleði fólksins var mikil, því að þetta einfalda litla tæki gerbylti kjörum þorpsbúa við að gera sér mat úr korninu, sem það ræktaði. 

Þetta var gjöf frá Akureyrarbæ. 

Fjallaþorpið Gurra var að mörgu leyti eftirminnilegasti staðurinn, algerlega einangrað af hringlaga fjallgarði, og tók hinn íslenska trúboða þriggja daga göngu að komast þangað í fyrsta sinn. 

Nú var hann búinn að fá sér flugvél, sem áður hafði verið TF-FRÚ á Íslandi, og ferðin tók 25 mínútur. 

Honum hafði tekist að fá íbúana til að aflétta trúnaði á illa djöfla, sem þrúgaði líf fólks fram að því, og litlum skóla var komið á fót. 

Þegar lent var við Gurra, komu sem vettlingi gátu valdið, að flugvélinni, sem við vorum á, en í stað þess að þyrpast að hinum íslenska velgjörðarmanni eins og það var vant, þyrptist fólkið í kringum Helgu, konuna mína, því að aldrei fyrr hafði sést hvít kona á þessum slóðum. 

Á leiðinni í burtu í gegnum þorpið dróst ég aðeins aftur úr við kvikmyndatöku, en þar sem ég stóð og myndaði, kom gömul kona út úr strákofa, féll að fótum mínum og kyssti þá, líkt og maður hefur ímyndað sér að gert hafi verið við Jesú Krist. 

Viðmót hins frumstæða og fátæka fólks í garð hvítra velgjörðarmanna var ógleymanlegt. 


mbl.is Heiðra minningu Bjarna í Suður-Afríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband