Dýrmætar minningar um fjölskyldu Margrétar.

Mynd og viðtal við Margréti Tómasdóttur í Morgunblaðinu vekur góðar minningar hjá mér.

Haustið 1960 var úr vöndu að ráða hjá mér varðandi undirleik fyrir mig í skemmtibransanum. 

Fyrsti undirleikarinn, Pálmar Ólason, lék aðeins tvisvar undir hjá mér þegar ég var í 4. bekk í M.R. í en fór síðan til Ítalíu til náms. 

Frá mars 1958 til maí 1959 var Markús Einarsson undirleikari, en fór síðan til náms í Noregi. 

Sumrin 1959 og 1960 var Hafliði Jónsson við píanóið en Einar Logi Einarsson veturinn 1959-1960. 

Pálmar Ólason, eða Púlli eins og hann var alltaf nefndur, sem kom heim í skólafríi sumarið 1960 og fór með mér aldeilis óborganlega ferð til undirleiks í Hallormssataðaskógi áður en hann fór aftur til Ítalíu, benti mér á bróður sinn, Tómas Grétar Ólason, og er skemmst frá því að segja að Tómas Grétar, sem notaði á þessum árum mest síðara nafnið, reyndist mér svo vel næstu fimm árin, að það verður mér ógleymanlegt. 

Grétar var þvílíkur víkingur til vinnu og svaðilfara um landið, að með eindæmum var. Hann var tæpir 2 metrar á hæð og 120 kíló og það sópaði að honum, hvar sem hann fór. 

Við ferðuðumst mikið á minnsta bíl landsins, og Grétar nánast bar hann stundum í gegnum skafla og ófærur í erfiðum og ógleymanlegum vetrarferðum. 

"Margrét ryður brautina" er viðeigandi fyrirsögn í viðtalinu við hana í dag. Í mörgum ferðum, þeirra á meðal frægri ferð á örbílnum norður á Sæluvikuna 1961, ruddi faðir hennar brautina fyrir bílinn yfir Holtavörðuheiði í bókstaflegri merkingu. 

Á "jólavertíðinni" var gat vart að líta myndarlegri og aðsópsmeiri jólasvein en Giljagaur með harmonikkuna sína. 

Eftir að Haukur Heiðar Ingólfsson tók við keflinu hélst vinátta okkar Grétars og samband áfram í gegnum sameign á flugvélinni TF-FRÚ og Lionsklúbbinn Ægi og starfið að Sólheimum í Grímsnesi alla ævidaga Grétars. 

Ég hef aldrei kynnst manni sem var jafn mikið tryggðatröll í öllum skilningi og kynnin við Grétar, Gullu og fjölskyldu þeirra voru alla tíð gefandi og náin. 

Engum þarf að koma á óvart dugnaður og ósérhlífni dætranna, að ekki sé nú talað um einlæga og smitandi gleði, sem einkennir fjölskyldu og ættfólk.  


mbl.is Margrét ryður brautina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband