"Jeppar" án fjórhjóladrifs. Búið að stúta hugtakinu.

Á örfáum árum hafa bílaumboðin á Íslandi stútað hugtakinu "jeppi" eins og það hefur verið notað síðan Willys jeppinn hélt innreið sína á Íslandi 1945.  

Raunar áttu bílaframleiðendur heims upptökin með því að búa til flokk bíla, sem hefur reynst þeim ábatasamastur síðustu ár, svonefndan SUV flokk, eða "Sport utility vehicle", sem höfðar mjög til þeirrar lúmsku hneigðar að bíll sé stöðutákn. 

Með íslenska heitinu jeppi var bandaríska heitið Jeep íslenskað - eða öllu heldur birt í íslenskt/danskri útgáfu, samanber danska leikritið Jeppi á fjalli.   

Einkenni jeppans voru þessi í réttri mikilvægisröð: 

1. Hann var með drif á öllum hjólum. Aðalatriði jeppans. 

2. Hann var með að minnsta kosti 18 sentimetra veghæð fullhlaðinn, og veghæðin varð ekki minni en þetta þótt bíllinn fjaðraði, af því að lægstu punktar voru hinir stífu lokuðu driföxlar eða hásingar. 

3. Jeppinn var með hátt og lágt drif og frekar háa yfirbyggingu.  

Þegar Subaru setti fjórhjóladrif í Leone fólksbíla sína 1976 og jók veghæð þeirra um 3 sentimetra datt engum í hug að kalla þá bíla "jeppa." Samt voru þeir með hátt og lágt drif.

Heldur ekki bandarísku AMC Eagle fjórhjóladrifsbílana, sem komu fram 1980 og voru hækkaðir álíka mikið. 

Ástæðan var einföld: Þegar þessir bílar voru fullhlaðnir, sigu þeir niður og þá fór veghæðin niður í 15-16 sentimetra - svipaða veghæð og var á Volkswagen bjöllunni hlaðinni, sem engum manni hafði nokkurn tíma dottið í hug að kalla jeppa. Subaruinn og AMC Eagle stóðust aðeins aðalatriðið í gerð jeppans, voru með fjórhjóladrif. 

Síðar varð til hugtakið "crossover" um bíla, sem voru til orðnir á þennan hátt. 

En á tiunda áratugnum fór ruglingur að sækja á með tilkomu fjórhjóladrifsbíla, sem voru af crossover gerð og voru með hærri yfirbyggingu en fólksbílar þess tíma, svo sem Toyota RAV 4 og Honda CRV. 

En veghæð þessara bíla fullhlaðinna var enn minni en á Volkswagen bjöllunni og við tók tími þar sem mönnum dagt í hug að kalla þessa fjórhjóladrifnu bíla "jepplinga." 

Hin allra síðustu ár hefur því miður orðið hröð þróun í þá átt að stúta hugtakinu "jeppi", einkum með því að sleppa því að bjóða þá fjórhjóladrif. 

Ástæðan fyrir fjölgun slíkra "jeppa" er sú, að við markaðskönnun kom í ljós, að þeir jepplingar, sem hægt var að fá án fjórhjóladrifs, seldust miklu betur en aldrifsbílarnir. 

Ástæðan var einföld, þeir voru ódýrari og vegna þess að útlitið var það sama gerðu þeir sama gagn sem stöðutákn. Ekki ónýtt fyrir bíleigandanna að vera heilsað svona:  "Komdu sæll. Þú ert heldur betur kominn á þennan fína jeppa." 

Nýjustu dæmin eru til dæmis Renault Captur og Citroen C3 Aircross, sem ekki er hægt að fá með fjórhjóladrifi. 

Í auglýsingum um hin annars vel heppnaða bíl C3 Aircross er réttilega gumað af 410 lítra farangursrými, - sem jafnvel sé hægt að stækka, - hinu stærsta í þessum flokki bíla. 

En hvers vegna er farangursrýmið svona stórt?

Það er af því að það rými sem afturdrif hefði tekið, er hægt að nota fyrir farangursrými. 

Rýmið er svona stórt af því að C3 Aircross "jeppinn" er ekki jeppi. 

Skoðum aftur atriðin þrjú og þá sjáum við að það er eiginlega ekkert eftir af frumatriðum jeppans nema að yfirbyggingin sé aðeins hærri en á fólksbíl: 

1. Þessir svonefndu "jeppar" eru ekki með fjórhjóladrif. 

2. Þeir eru ekki með 18 sentimetra veghæð fullhlaðnir, heldur síga niður í ca 13 sentimetra. 

3. Þeir eru ekki með hátt og lágt drif. En þeir eru með aðeins hærri yfirbyggingu en almennt gerist um fólksbíla. Það er allt og sumt, - en þessi yfirbygging hefur hins vegar því miður engin áhrif á "jeppa"eiginleika þessara svonefndu jeppa. 

Ég hef hitt nokkra eigendur svona bíla og þeir virðast hafa staðið í þeirri trú að þeir hafi keypt jeppa með drifi á öllum hjólum. Segja að minnsta kosti öllum sem heyra vilja, að þeir séu á jeppum og hafa þrætt við um það atriði að jepparnir þeirra séu ekki framleiddir með aldrifi. 

Og í reynsluakstri á vegum DV eru einstakir drifeiginleikar eins af þessum nýjustu "jeppum" dásamaðir á þann hátt, að hér sé nánast um yfirburða jeppaeiginleika að ræða. 

Þessi tilfinning í reynsluakstrinu fæst fram með því að hafa góða spólvörn á þessum framhjóladrifna bíl.  En ef hann væri fjórhjóladrifinn, myndi góð spólvörn á öllum hjólum auðvitað gefa honum miklu betri drifeiginleika. 

Eitt af nýjustu dæmunum um það hve mikið rugl er í gangi er, að í umsögn um einn af nýjustu "jeppunum" á markaðnum, var það sérstaklega tekið fram hve jeppalegur hann væri og uppfyllti vel jeppahugtakið, - að framendinn væri einstaklega "verklegur" vegna þess hve hann skagaði langt fram og væri hár og myndarlegur. 

Hvorugt gefur minnstu jeppaeiginleika, heldur þveröfugt, þetta eru ókostir fyrir bíl á jeppaslóðum.

Mikil og lág skögun neðsta hluta framenda er ávísun á vandræði á ójöfnu landi eða þegar ekið er yfir læki og árfarvegi og bíllinn rekst niður að framan, - og afar hátt húdd skerðir útsýnið fram á við eins mikið og mögulegt er, sem kemur sér afar illa í akstri á frumstæðum slóðum, þar sem útsýni er mikilvægt. 

Niðurstaða: Búið er að stúta hugtakinu "jeppi" og heilaþvo fjölda fólks eða rugla í ríminu. 

 

 


mbl.is Tveir bílar frumsýndir hjá Brimborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ég get þá kannski kallað Golfinn minn jeppa? Hann uppfyllir flest skilyrði sem prýða C3 Aircross bílinn. Stenst reyndar engar skilgreiningar um jeppa, en hefur spólvörn og er í laginu líkari jeppa en fólksbíl, reyndar mun líkari jeppa en C3 Aircross.  

Kannski Hekla geti farið að skreyta sig enn fleiri skrautfjöðrum jeppabíla og reyndar fleiri umboð!

Gunnar Heiðarsson, 16.2.2018 kl. 10:25

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Greinilega flókið að útskýra hugtakið jeppi, sem er hvergi til nema á Íslandi, eins og svo margt annað, til dæmis Lada Sport.

Þorsteinn Briem, 16.2.2018 kl. 13:03

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Lada Sport er enn framleiddur og seldur, meðal annars í Þýskalandi, nokkurn veginn óbreyttur í 42 ár. Hann hefur heitið Lada Niva alla tíð, líka í upphafi, en Íslendingar fengu því komið í kring, einir þjóða, að kalla bílinn Lada Sport hér á landi. 

Það er svipað fyrirbæri og hjá Dönum varðandi bílinn Ssangjong Tivoli, sem fær ekki að vera seldur þar í landi með því nafni, heldur heitir hann Luvi í Danmörku.  

Ómar Ragnarsson, 16.2.2018 kl. 15:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband