"Kuldi, þögn, myrkur og ósnortin náttúra."

"Hátt í þrjá áratugi tók að koma Snæfellsþjóðgarði á fót. Þjóðgarður á nyrsta hluta Vestfjarða verður ekki að veruleika í náinni framtíð. Svæðið er auk þess veðurfarslega eritt og aðeins aðgengilegt lítinn hluta af ári og því yrði starfsemi þar takmörkuð og tekjur sömuleiðis." 

Þessi vísdómsorð framkvæmdastjóra Vesturverks má lesa í grein í Morgunblaðinu s.l. föstudag þar sem þess er krafist af mér "dylgja ekki um verkefni,sem ég hafi ekki kynnt mér nægilega vel."

Og fyrirsögn greinarinnar er: "Hafa skal það sem sannara reynist." Með öðrum orðum að fara ekki með ósannindi byggð á þekkingarleysi eins og ég hafi gert. 

Þó þarf ekki lengi að skoða tilurð Snæfellsjökulsþjóðgarðs til að sjá að það tók sjö ár en ekki þrjátíu frá því að umhverfisráðherra stofnaði starfshóp 1994 um málið þar til þjóðgarðurinn var stofnaður 2001. Og önnur undurbúningsnefnd, sem stofnuð var snemma árs 2001 þurfti aðeins hálft ár til að klára verkið. 

Ummæli greinarhöfundar um hamlandi áhrif íslensks veðurfars eru lýsandi fyrir landlæga fordóma okkar um það hvað dragi erlent ferðafólk til landsins og hvað fæli þá mest frá því.

Að sögn finnsks blaðamanns, sem hafði alla sína tíð kynnt sér náttúru og ferðaþjónustu sérlega vel, og kom hingað til lands upp úr síðustu aldamótum, komu fleiri ferðamenn þá til Lapplands yfir vetrarmánuðina en komu til Íslands allt árið. Hann sagði að fjögur atriði, sem boðið væri upp á, væru lykillinn að þessu: 

"Kuldi, þögn, myrkur og ósnortin náttúra."

Ég, sem vændur er um að kynna mér málin ekki nægilega vel, fór í vettvangsferðalag um Lappland í febrúar 2005 og sannreyndi að þetta var rétt hjá hinum finnska blaðamanni. 

En hér á landi höfðu landlægir fordómar okkar slegið því föstu, að kuldi, þögn, myrkur og ósnortin náttúra væri einmitt það sem fældi útlendinga helst frá því að heimsækja land okkar. 

Orðin "veðurfarslega erfitt og aðeins aðgengilegt hluta af ári" í spánnýrri Morgunblaðsgrein framkvæmdastjóra virkjanafyrirtækisins lýsa þessum fordómum vel. Skyldi greinarhöfundur hafa farið í vettvangsferðir til samkeppnislanda til að "kynna sér málið nægilega vel"?

Það efast ég um. En hann vílar ekki fyrir sér að saka mig um að hafa ekki kynnt sér málin. 

Fordómarnir um fráhrindandi veður eiga reyndar ekki aðeins við norðanverða Vestfirði heldur allt Ísland, ekki síst hið víðlenda víðerni miðhálendisins. 

Eins og sést á tengdri frétt á mbl.is eru það fyrirbæri eins og þögn, myrkur og einstæð ósnortin náttúra einmitt það sem heillar ferðafólk frá fjarlægum suðrænum löndum, þar sem það hefur fengið nóg af sól og steikjandi hita og þráir nýja og eftirminnilega upplifun í öflugustu tegund ferðamennsku, upplifunarferðamennsku.   

 

 


mbl.is Ískaldir ferðamenn elska Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Ómar er oftast vígfimur og rökvís. Bestur þegar pólitík er ekki í spilunum.

Þjóðgarðar eru eitt besta mál síðari tíma. Eftir því sem velmegun eykst geta fleiri notið. Sérstaða Íslands er eldfjallaeyjan í stormasömu Atlandshafi. Vetur í þjóðgörðum Finna norðan við heimskautabaug er kaldur en ekki sama rokið og hér. Ferðamenn sem ætla um Snæfellsþjóðgarð þurfa að kynna sér vel vetrafærð og veður til að lenda ekki í ógöngum. Að ætla sér í febrúar og mars einnig að aka kringum landið á einni viku er ekki á færi allra. Oft vantar meiri kynningu. Er það ekki eitthvað sem hin mörgu ráð þjóðgarða og ferðaþjónustu ættu að ráða fram úr?

Jeppar og björgunarsveitir eru að verða partur af vetraævintýrum á Íslandi. Á meðan engin stórslys henda eru menn í þokkalegum málum. Fjárfesta þarf í innviðum. Að dreifa kröftunum er annað mál. Vestfjarðaþjóðgarður kemur, en hvenær hann verður annað en sumargaman er annað mál. Hoover stíflan er nú notuð sem vatnsáveita og fyrir ferðamenn en var stórvirki á sínum tíma. Eflaust búin að borga sig upp fyrir löngu. Þar eru þjóðgarðsverðir sjáanlegir þjónar almennings og prýði staðarins.

Sigurður Antonsson, 18.2.2018 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband