Einsdæmi hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir borgarstjórnarkosningar.

Saga Sjálfstæðisflokksins við stjórn Reykjavíkurborgar skiptist í meginatriðum í tvennt: Fyrir 1994 og eftir 1994. 

Frá því um 1920 til 1994, eða í næstum þrjá fjórðu úr öld, höfðu hægri menn fyrstu árin en síðan Sjálfstæðisflokkur verið samfellt í meirihluta ef undan er skilið eitt kjörtímabil, 1978 til 1982 þegar vinstri flokkarnir náðu meirihluta með minnsta mun, sem þekkst hafði. 

Þegar öflugur foringi, Davíð Oddsson, kom til sögunnar 1982 og vann hvern sigurinn öðrum frækilegri 1982, 1986 og 1990, mátti halda að meirihluti Sjallanna í borginni væri eins konar pólitískt náttúrulögmál. 

Þó hafði flokkurinn hvað eftir annað fengið meirihluta borgarfulltrúa út á minnihluta atkvæða vegna þess að sundrung vinstri flokkanna varð til þess að nógu mörg atkvæði þeirra nýttust ekki. 

Merkilegt má heita að það skyldi ekki vera fyrr en 1994 að vinstri gerðu loksins eitthvað í því að nýta sér það að bera fram eitt sameiginlegt framboð. 

Davíð Oddsson skildi eftir sig tómarúm þegar hann hætti 1991, og svipað gerðist eftir að annar öflugur leiðtogi, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hætti sem borgarstjóri 2003. 

R-listinn splundraðist og síðan þá hefur ekkert eitt framboð fengið meirihluta og veldi Sjálfstæðisflokksins í borginni hefur síðustu árin verið svipur hjá sjón. 

Margir gamlir Sjálfstæðismenn sakna hinna "sterku" leiðtoga í borginni sem leiddu samhenta fylkingu.  

Nú virðast vonir hafa vaknað um endurvakningu þessa með tilkomu Eyþórs Arnalds, og engu er líkara en að nú eigi að fylkja samhentri fylkingu að baki honum með meiri uppstokkun á framboðslista flokksins en dæmi eru um áður í langri sögu hans. 

Fylgi flokksins hefur verið það slappt í síðustu átta ár, að menn virðast tilbúnir til að taka þá áhættu, sem fylgir því að skipta nær öllum út, kannski með því að hugsa sem svo, að það sé hvort eð er ekki úr svo háum söðli að detta. 

Alger útskipti geta virkað í báðar áttir, hvort sem um er að ræða stjórnmál eða íþróttir. 

Dæmi um vel heppnuð umskipti í íþróttum var þegar helstu máttarstoðir íslenska landsliðsins i handbolta,sem gert höfðu garðinn frægan á sjöunda áratugnum, voru ekki settir í liðið í byrjun áttunda áratugarins, heldur var skipt inn á ungum og efnilegum leikmönnum, sem höfðu litla eða enga reynslu í landsliði. 

Þett bragð heppnaðist, ungu mennirnir reyndust menn framtíðarinnar, Íslendingar unnu Dani 15-10 og nýja landsliðinu var skotið á fulla ferð. 

Jafnoft eða oftar misheppnast hin vegar svona djarft bragð, til dæmis ef það lyktar af örvæntingu. 

 

 


mbl.is Listi X-D sagður tilbúinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband