Úr öskunni´í eldinn, tjörudrullan tekur við.

Eins og kunnugt er, er svifrykið sem gerir höfuðborgarsvæði umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs að heilsuspillandi mengunarbæli marga daga á hverjum vetri, að mestu samsett úr sundurtættu slitlagi gatnanna eftir neglda hjólbarða sem berja stundum á slitlaginu svo vikum skiptir án þess að nokkur þörf sé á því af völdum hálku.

En vegna hinna einstæðu umhleypinga að vetrarlagi, sem búast má við á Íslandi telja tugþúsundir ökumanna nauðsynlegt að negla hjólbarða bíla sinna, einkum þeirra sem notaðir eru reglulega til ferða yfir fjallvegi, sem liggja út frá höfuðborgarsvæðinu.  

Þannig hefur ástandið verið að undanförnu og ástæða þess að naglarnir eru notaðir er sú, að vissulega koma stundum dagar þar sem flughált verður á götunum í umhleypingum sem eru svo örir og ófyrirsjáanlegir, að erfitt er að láta saltaustur vinna á því hverja einustu stund. 

Þegar sagt er með feginsandvarpi að nú sé að koma rigning, sem bindi svifrykið, er það sýnd veiði en ekki gefin að þá séum við laus við þennan fjanda, því að rykið hverfur ekki, heldur breytist í tjörublandinn aur á götunum, sem sest á hjólbarðana og gerir þá sleipa og sest líka á framanverða bílana og er hvimleitt á framrúðum þar sem það skerðir útsýnið. 

Ef það snjóar í einhverjar klukkustundir á meðan úrkoman er í hita um frostmark, verður að ausa salti á göturnar sem gerir drulluna framan á ökutækjunum enn hvimleiðari. 

Sé farartækið vélhjól, verður ökurmaður vélhjólsins sjálfur útataður í tjörudrullunni. 

Ef hún er þar að auki slabbkennd er hjólið úr leik. 

Þessu hef ég kynnst af eigin raun undanfarin tvö ár, sem ég hef getað gripið í þann kostagrip, sem létt "vespu"vélhjól getur verið í þungri og silalegri bílaumferðinni, auk þess sem notkun hjóls gefur rými fyrir einn bíl í staðinn fyrir bíl hjólamannsins, sem ekki er notaður. 

Þetta er skárra viðfangsefni á rafreiðhjóli, sem ekið er á hjólastígum þar sem tjöruausturinn framan í vegfarendur ríkir ekki, en fyrir mann, sem þarf að fara að meðaltali meira en 20 kílómetra til og frá í erindagjörðum hverju sinni, getur rafreiðhjól verið heldur seinlegur fararmáti. 

Það blasir við að auka þarf hreinsun gatna og koma því atriði gatnaþjónustu í svipað horf hér og er víða erlendis. 

Það kostar að vísu peninga, en það kostar líka peninga að þrífa skítug föt hjólafólks eða framenda bíla, eða að mæta útgjöldum vegna slysa af völdum dekkja, hálla af tjörudrullu, því að þessu aurfilma á dekkjunum dregur úr hemlunargetu. 

Það þekkja jöklajeppamenn vel, sem stöðva jeppa sína í upphafi hvers leiðangurs þegar komið er af tjöruþöktum vegum til þess að þvo drulluna af dekkjunum. 


mbl.is Rigning bindur svifrykið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það hlýtur að vera skelfilegt að búa á höfuðborgarsvæðinu.

Nú í morgun var til að mynda verið að hreinsa Snorrabrautina í Reykjavík.

Þorsteinn Briem, 14.3.2018 kl. 09:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband