Játning Jóa útherja.

Ég leit inn í verslunina Jóa útherja á þriðjudaginn til þess að kaupa flautu fyrir atriðið "Sigtryggur vann" sem ég verð helst að vera með tilbúið til flutnings, þegar óskir koma um það. 

Verslunarstjórinn sagði mér að hann fengi furðu oft fyrirspurnir um það hver Jói útherji hefði verið á sínum tíma og ættu þeir erfitt með að svara. 

Beindi hann spurningunni til mín. Mér var ljúft að svara að fyrirmyndin hefði verið ég sjálfur og nefndi nokkrar ástæður.  

Ég var alla tíð "aðdáandi Hermanns" og alltaf leikið stöðu hægri útherja á ferli mínum, í rúma tvo áratugi í árlegum leikjum Sjónvarpsins við KEA, í eitt ár með meistaraflokki Ármanns og í 30 ár í Stjörnuliði mínu. 

Ég hef ævinlega verið með lélega boltameðferð en lengst af með mikið þol og spretthörku. Afleiðingarnar hafa verið ansi skrautlegar oft á tíðum, en þó hef ég aldrei skotið niður önd.

Til var fyrirmynd að skotinu sem sleikti ráðherra sem var meðal áhorfenda. 

Og eitt sinn sendi ég mjög langa sendingu utan af kanti sem átti að vera glæsileg fyrirgjöf. 

Enginn var til að taka við þessari ógnarlöngu og háu sendingu nema hvass austanstrekkingur sem bar boltann upp í bláhornið fjær. Með glæsilegustu mörkum sem sjást, en var þó ekki ætlunin að skora.  

Þegar Laddi hvarf úr Stjörnuliðinu vegna meiðsla þurfti einhver að taka einstæða vítaspyrnu hans í vítaspyrnukeppni, sem var fastur liður hjá Stjörnuliðinu. 

Þessi vítaspyrna Ladda fólst í því að hlaupa eins og fjandinn sjálfur eftir endilöngum vellinum í átt að boltanum, en vera svo örmagna þegar komið var að vítapunktinum, að falli sem örendur væri út á hlið vinstra megin við boltann, en í sömu mund og misst var meðvitund, kom það sem Bandaríkjamenn kalla "to cick the bucket" (taka andvörpin / dauðateygjurnar á íslensku) þ.e. að hinn deyjandi maður sparkar í fötu eða kopp á hinsta augnabliki. 

Og þetta spark setti boltann í markið í bláhornið hægra megin. Ég hef skorað glæsileg sjálfsmörk og tókst fyrir tóman grís að leika dauðateygju Ladda eftir. 

Einnig hef ég alla tíð átt það til að fá eins konar martraðir og ýta hressilega við konu minni í miklum hamagangi. 

Það þurfti því ekki að fara langt til að finna fyrirmyndina að Jóa útherja. 


mbl.is Búningurinn fer vel af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Lagið "Jói útherji" er án efa skemmtilegasta lag, sem sungið hefur verið til hérlendrar knattspyrnu. Oft velt því fyrir mér hver hann væri, þessi Jói útherji og nú er svarið komið. Kærar þakkir fyrir það, Ómar.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 16.3.2018 kl. 21:56

2 identicon

Ekki ætlarðu að játa að hafa spilað með KR?

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 17.3.2018 kl. 08:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband