Í anda ummæla hér um árið? Reynslusaga af nálastungum. P.S.

Þáverandi landlæknir fór í ferð til Kína fyrir nokkrum árum. Þar var meðal annars kynnt fyrir honum lækningaaðferðin nálastungur, sem er ekki "óhefðbundnari" en það að hún á sér langan aðdraganda en aldar gamla þróunarsögu sem sérstakar nálastungur. 

Það er lengri tími en hefur tekið að þróa margar "hefðbundnar" aðferðir eftir vísindalegum vestrænum hætti, sjá nánar athugasemdir við pistilinn.

Hann sagði, þegar hann kom heim, að þær hefðu verið áhugaverðar og að kannski mætti senda einhverja íslenska lækna á námskeið þar.   

Það sem nú er að gerast, virðist vera, að eftir helgarnámskeið telja sumir sér allir vegir færir í þessum efnum, en það er bara dálítið í anda þess yfirlætis, sem ofangreind ummæli báru með sér hér um árið. 

Ég gæti lýst eigin reynslu af því, þegar ég hafði gefist upp á "hefðbundnum" sjúkraþjálfaraaðferðum og fór til manns með margra ára háskólanám að baki í Bandaríkjunum í nálastungum. 

Það var síðasta þrautaráðið. Samfallið í hryggjarliðunum var þess eðlis, að "hefðbundnar" íslenskar aðferðir dugðu ekki, hvorki skurðaðgerðir né önnur venjuleg ráð. 

Bubbi Morthens benti mér á þennan möguleika og byggði þá ráðleggingu á eigin reynslu. 

Það var í kringum aldamótin og eftir sex ára vandræði vegna baksins fékk ég mikla bót í þau skipti sem ég leitaði til nálastungulæknisins. 

En haustin 2006 lenti ég í verulegum vandræðum. Þá dvaldi ég meira og minna marga daga í senn á svæðinu í kringum Kárahnjúkavirkjun, svaf úti eða í jeppatítlu minni við misjafnar aðstæður og stórversnaði í bakinu. 

Eftir meira en viku útivist í rykk á Brúaröræfum innan við Kárahnjúka, var ég orðin bæði svo þjáður og máttlítill og með mikinn náladofa í vinstri fæti, að ég varð að hafa snæri með snöru á endanum eins og Óli Ket, til að toga vinstri löppina upp á kúplingspedalann! 

Meðferðir sjúkraþjálfara fyrir austan og fyrir sunnan báru engan árangur. 

Í sem allra skemmstu máli tók það mig tvær heimsóknir með þriggja daga millibili til nálastungulæknis að losa mig við þjáningarnar og fá aftur mátt í kvalinn og náladofinn vinstri fót minn.  

Í seinni heimsókninni lét hann mig liggja eftir meðferðina í um það bil 25 mínútur og leit fjórum sinnum inn til mín á því tímabili til að vita hvernig mér liði. 

Í fyrsta skiptið greindi ég honum frá því að óbærilegur verkurinn í bakinu væri horfinn, - en, - nú væri ég alveg viðþolslaus í vinstri mjöðminni, verkurinn væri kominn þangað! 

Í annað skiptið, sem hann kom, hafði verkurinn horfið úr vinstri mjöðminni, en hins vegar mikill verkur bæst við dofaseyðinginn í vinstra hnénu. Verkurinn virtist hafa hlaupið þangað niður.  

Í þriðja skiptið kom hann, og þá verkjaði mig mjög í vinstri ökklann og tærnar en var í fyrsta skipti í tvær vikur orðin verkjalaus upp eftir líkamanum. 

Í fjórða skiptið var verkurinn í ökkla og tám farinn, líkt og hann hefði verið leiddur úr bakinu um vinstri mjöðmina, hnéð og loks ökklann út af bekknum. 

Þetta var næstum því fyndið, því að við bekkinn var tjald, og hinum megin við tjaldið lá annar sjúklingur á bekk. 

Ég spurði nálastungusérfræðinginn hvort það væri ekki vissara fyrir hann að athuga, hvort verkurinn hefði ekki farið yfir í sjúklinginn við hliðina. 

Svo reyndist ekki vera. Kannski hafði hans verkur líka farið út um löppina á honum á sama tíma og minn, og verkirnrir tveir eytt hvor öðrum?!

Samfallið í neðsta hluta baks míns lagði mig fyrst í rúmið 1994. Ég hef aðeins einu sinni síðan 2006 þurft að fara á bekkinn þar sem bakverkurinn var leiddur úr mér fyrir 12 árum. 

Ég fer að sjálfsögðu eftir helstu ráðum nálastungumannsins varðandi það að koma í veg fyrir að allt hlaupi í hnút við hryggjarliðina þrjá, sem eru fallnir of mikið saman. 

Ég hef sem betur fer losnað við brjósklos (kannski lítið af brjóski eftir) en í 24 ár hefur afstaða hryggjarliðanna verið hin sama, of þröng, og engar skurðaðgerðir hægt að gera. 

 

P.S. Í athugasemd númer 10 hér að neðan dreg ég betur saman yfirlit yfir 24 ára gamalt tilfelli mitt. 


mbl.is Fara á helgarnámskeið í nálastungum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Ekki ætla ég að efast um ágæti nálastungna. Það er hinsvegar með þær, eins og allt annað.: Þær þurfa að vera rétt framkvæmdar. Vandamálið hér á landi er það, að hvað lúða sem er, leyfist að auglýsa sig og taka fólk í nálastungumeðferð. 

 Það sama á við, er kemur að allskyns fæðubótarefnum og "allsherjarlausnum" ef einhvert glundur eða pillur eru innbyrt.

 Eiginlega fáránlegt að nánast ekkert eftirlit eða reglugerðir nái yfir þann falsiðnað.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 30.3.2018 kl. 01:14

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sammála. En með alhæfingum um gagnsleysi og skaðsemi hinna "óhefðbundnu" nálastungna í stað þess að viðurkenna háskólapróf í þeim, er opnað á hvers kyns fúsk. 

Í eitt skipti notaði nálastungulæknirinn svo langa nál, að ég fölnaði. 

Hann sagði mér frá því að hann myndi nota hana í þetta eina skipti og að hann myndi segja mér frá því þegar hann væri búinn að því. 

Ég spurði hann hvers vegna hann myndi segja mér frá því þegar hann væri búinn. 

"Af því að þú finnur hvorki þegar ég sting þig né þegar ég tek nálina út" var svarið. 

"Það er betra að þú vitir það samt svo að þú gleymir þér ekki og farir að velta þér eða eitthvað slíkt." 

Ómar Ragnarsson, 30.3.2018 kl. 01:25

3 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Ef tekið er mið af því hvenær "lækningar" hófust í hinum vestræna heimi og sá tímapunktur borinn saman við upphaf nálastunguaðferðarinnar, á vestrænn lækningamáttur í fullu fangi með að efast um ágæti nálastungunnar. Hvernig komust menn að því hvar átti að stinga t.d. og hvenær var það uppgötvað? 

 Kínverjar hófu rannsóknir á mannslíkamanum árhundruðum á undan hinum vestræna heimi. Nútíma vestrænir læknar alhæfa fullmikið, miðað við hve stutt þeirra saga er í lækningavísindum. Vísindum, sem að mestu eru fjármögnuð af lyfjarisum, sem hverra hagnaður felst aðallega í því, að selja lyf.

 Er nema von að maður efist um fullyrðingaflauminn?

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 30.3.2018 kl. 02:27

4 identicon

Handayfirlagningarnar, dans galdramannsins, smáskammtalækningarnar, nálastungurnar, árunuddið, sogbjöllurnar, andalækningarnar, blessanir og bænir, iljanudd og stólpípur virka. Þó vísindin hafi ekki fundið neinar sannanir fyrir virkni þá hefur þetta verið stundað í þúsundir ára og hlýtur því að virka og getur því ekki kallast óhefðbundið. Ótal reynslusögur sanna það. Þeir sem kenna þetta kalla sig jafnvel háskóla og útskrifaðir kalla sig doktora. Allt hljómar þetta svo flott og virðulegt, með skammstöfunum og öllu, að það hlýtur að vera alvöru. Er það ekki?

Sjálfur hef ég réttindi til að kalla mig doktor í austrænum lækningum og sérfræðing í nálarstungumeðferðum, litþerapista, smáskammtalækni, sérfræðing í iljanuddi og wangoo særingamann. Eftir helgina verð ég búinn að bæta við næringaþerapistanum, meistaranámi í kristallalækningum og prófessors nafnbót í númerologíu og andalækningum. Háskólaskírteinin fæ ég svo í pósti um miðjan mánuðinn tilbúin til innrömmunar. Ekki slæmt fyrir fallista úr gaggó. Verst hvað stjórnvöld eru treg til að viðurkenna þessi flottu háskólapróf. Og það er ekki eins og þau hafi verið auðveld eða ókeypis. Gátu jafnvel kostað nærri klukkutíma leit og einhverja dollara.

Hábeinn (IP-tala skráð) 30.3.2018 kl. 02:29

5 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Ætlar Hábeinn að starfa við öll helgarverkefnin, sem kostuðu aðeins nokkra dollara og smá snudd á netinu?

Halldór Egill Guðnason, 30.3.2018 kl. 03:06

6 identicon

Það er ekkert sem bannar mér það. Vantar þig árunudd, særingar eða nálarstungu? Ég get einnig boðið upp á óhefðbundnar meðhöndlanir eins og óperusöng við tannpínu og ofnæmi þó ég sé ekki með háskólaprófgráðu í því, margir hafa góðar reynslusögur af þeirri meðferð. En hún kemur frá virtum læknum og sérfræðingum í Papey og er enn í þróun.

Hábeinn (IP-tala skráð) 30.3.2018 kl. 03:37

7 identicon

Sæll Ómar!

Ef ekki væri fyrir búlgörsku gervitennurnar myndi
ég láta reyna á þetta með óperusönginn!!

En frásaga þín er eftirtektarverð og trúverðug;
vitað að lækningar við öng og þrengingar sem þú nefnir
í pistlinum eru illframkvæmanlegar og oftast alls ekki.

Kannski duga þvagsápur, hjólhestapumpur eða þrýstiloft við þessu!

Húsari. (IP-tala skráð) 30.3.2018 kl. 06:58

8 Smámynd: Ragnar Kristján Gestsson

Áhugaverð saga Ómar.  Eins tók ég eftir því að í eina skiptið sem Mbl fjallar um nálastungur þá er það á neikvæðan máta, eins og til að vara við.  Síðan kemur grátkór vantrúaraðila í kjölfarið.  Vil taka það fram að sjálfur hef ég aldrei prófað nálastungu, reyni þó að halda mér opnum og áhugasömum fyrir hlutum sem ég veit ekkert um. 

Segi eins og í auglýsingunni hjá Silla og Valda hér um árið: af ávöxtunum skulið þið þekkja þá.  Sennilega fengu þeir þó jákvæðari umfjöllun en óhefðbundnar læknisaðferðir almennt.

Ragnar Kristján Gestsson, 30.3.2018 kl. 07:37

9 Smámynd: Björn Geir Leifsson

Lestu ekki athugasemdirnar Ómar? Ég gaf þér smá innsýn í raunverulega sögu nálastungunnar við síðustu frásögn þína af þessari reynslusögu.

Björn Geir Leifsson, 30.3.2018 kl. 08:36

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég ætti kannski að skrifa pistil með fyrstu reynslusögunni af bakverkjunum, en í raun eru þessar reynslusögur orðnar ansi margar á 24 árum. 

Ég var það slæmur, þegar ég fékk fyrsta kastið, að ég varð að aflýsa því að koma fram á skemmtun. 

Fór síðan til sérfræðings, sem lét taka myndir og kallaði mig síðan til sín og sagði mér frá því sem myndirnar hefðu sýnt: Neðstu hryggjarliðirnir komnir of nálægt hverjir öðrum vegna "samfalls", þ. e. brjóskið á milli þeirra hafði rýrnað og var orðið of lítið. 

Hann sagði að við þessu væri ekkert hægt að gera og að ég yrði bara að vera rólegur í nokkrar vikur, þá myndi þetta sennilega skána og að ég skyldi ekkert vera að þakka honum fyrir það! Skemmtilegur húmor. 

Viku síðar hringir maður, sem segist hafa frétt um bakveikindin mín og spyr mig frétta. 

Ég segi honum, sem er, að ég sé enn með bakkvalirnar. 

Hann segist þá vera í félagi í hópi áhugamanna um andalækningar og að þeir ætli að halda fund um málið, - spyr hvernig mér lítist á það. 

Ég segi að það sé allt í lagi mín vegna, ég sé þakklátur fyrir samhuginn og verði bara jákvæður gagnvart öllum ráðum, sem ekki hafi of mikla áhættu í för með sér. 

Nokkrum vikum síðar rættist spá læknisins, að mér skánaði nógu mikið til þess að vera vinnufær. 

Enn líða nokkrar vikur, og þá hringir áhugamaðurinn um lækningar að handan og spyr um líðan mína. 

Ég greini honum frá því. 

"Æ, hvað það var gott", segir hann, "þetta hefur þá virkað hjá okkur." 

Ég gat ekkert annað en þakkað honum fyrir samúðina þótt ég heyrði fyrir mér það sem læknirinn hafði sagt: "Þér mun að öllum líkindum skána á næstu vikum og vertu ekkert að þakka MÉR fyrir það." 

Niðurstaða mín þá var þessi: Langlíklegast hafði læknirinn rétt fyrir sér og líklegast var að enda þótt framtak andatrúarmannanna væri þakkarvert, hefði ekki verið hægt að þakka ÞEIM fyrir að mér skánaði í bakinu. 

Eftir sat þó ein staðreynd: Hvorugur aðilinn gat sannað sitt mál 100 prósent. 

Síðar, eftir endurtekin vandræði með bakið í mörg ár, ákveð ég síðan að prófa nálastungurnar eftir að hafa kynnt mér farsælan feril viðkomandi sérfræðings með háskólapróf. 

Hann lýsti því fyrir mér hvernig afltaugarnar út í fæturna, sem liggja í báðar áttir út úr mænunni, þola illa mikið álag vegna þess að þær eru klemmdar. 

Þær byrja að verða aumar og bólgna, og þegar það gerist, byrja aðliggjandi flóknir vefir sina, tauga og vöðva aðgerðir til þess að létt undir með afltaugunum og hjálpa til. 

Þetta gengur upp að vissu marki, en ef álaginu á afltaugarnar sé samt of mikið, endi þetta með því að allt svæðið hlaupi í hnút vegna ofreynslu og spennu í taugakerfinu. 

Rétt framkvæmdar nálastungur geti losað um þessa spennu samtímis sérhæfðu sjúkranuddi á sama tíma. 

Stungurnar sjálfar eru alveg sársaukalausar, en sjúkranuddið hins vegar ekki. 

En ég lét mig hafa það, og eftir nokkrar svona meðferðir var ávinningurinn, skárra bak, meiri en fórnin, tímabundinn mikill sársauki. 

Eitt af ráðum nálastungumannsins var að sofa ekki með beina fætur, heldur leggja eitthvað undir hnén svo að þau séu bogin. 

Einnig að hafa þrýsting undir mjóhryggnum. 

Áður en ég versnaði í bakinu, svaf ég ekki almennilega í framsæti í bíl og forðaðist það á ferðalögum. 

En síðan sá ég, að einmitt sú stelling, með bogin hné og þrýsting við mjóhrygginn, var sú skásta. 

Með árunum hefur það orðið þannig, að sækjast frekar eftir því á ferðum um hálendið að sofa í framsæti bíls og hjálpa þannig líka til með bakflæðið, sem ég hef, heldur en að liggja flötum beinum á misgóðum rúmdýnum. 

Ég komst að því að of miklar hjólreiðar sköpuðu of mikið og of langvarandi álag á afltaugarnar út í fæturna og er því afar ánægður með það að hafa fyrir tilviljun komist yfir rafreiðhjól, sem er með handgjöf, þannig að ég get fundið hæfilega mikið álag. 

Allt frá byrjun hef ég efast, eins og ég sagði frá, en upplifunin þegar óbærilegur bakverkur seytlaði út í gegnum hálfónýta löpp á hálftíma eftir að nálastungum og sjúkranuddi hafði verið beitt, auk útskýringa á því, af hverju það hafi gerst, segja mér, að það sé hafið yfir skynsamlegan vafa að nálastungur, framkvæmdar af háskólamenntuðum manni í þessum fræðum, geti gert gagn. 

"Skynsamlegur vafi" er þó ætíð nauðsynlegur. Á því byggjast framfarir í vestrænum læknavísindum, þar sem leita þarf sannana með tilraunum áður en einhverju er slegið föstu. 

Árangur vestrænna læknavísinda tala sínu máli í hækkandi meðaaldri og fyrir það ber að þakka. Og varla fara vestrænir háskólar að setja upp margra ára nám í nálastungum nema vegna þess að dæmi eins og mitt dæmi, hafi verið ígildi tilrauna eftir vestrænum kröfum. 

Kínverjarnir höfðu margar aldir og árþúsund til að fikra sig áfram með nálastungur og enda þótt það væri hugsanlega ekki gert eins skipulega og markvisst og krafist er á vesturlöndum, sýnist mér vera hægt að hefja það yfir skynsamlegan vafa að þær geti gert gagn, og að skapa þurfi þeim annað umhverfi en alhæfða útskúfun. 

Ómar Ragnarsson, 30.3.2018 kl. 08:40

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þakka þér fyrir ábendinguna, Björn Geir. Ég les yfirleitt athugasemdirnar af áhuga og er þakklátur fyrir þær, svo framarlega sem þær eru í hófi og málefnalegar án meiðyrða. 

Ég var önnum kafinn 20. mars og við að leita þessa athugasemd þína uppi hef ég séð að ég má alveg umorða það sem ég segi, svo að það skiljist betur. 

Ætla að gera það. 

Athugasemd þín var hins vegar fimm sinnum lengri en bloggpistillinn, hefði kannski mátt vera styttri, en var þó ekki lengri en önnur umræða samanlagt. 

Þetta tek ég fram, því að ég er að reyna að hafa heildarsvip bloggsíðunnar sem skástan. 

Ómar Ragnarsson, 30.3.2018 kl. 09:19

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Góð og upplýsandi athugasemd hjá Birni Geir við fyrri pistilinn um málefnið.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.3.2018 kl. 11:13

13 identicon

Sæll Ómar.

"Síðar, eftir endurtekin vandræði með bakið í mörg ár, ákveð ég síðan að prófa nálastungurnar eftir að hafa kynnt mér farsælan feril viðkomandi sérfræðings með háskólapróf."

Hver er þessi maður?

Húsari. (IP-tala skráð) 30.3.2018 kl. 11:54

14 Smámynd: Björn Geir Leifsson

Þótt sagnfræðingar læri um blóðtökuseremóníur fyrri tíma í háskóla þá þýðir það ekki að þær virki til lækninga. Nálastungur nútímans eru, eins og ég útskýrði, afleiddar af blóðtökuritúali sem Kínakeisari bannaði 1822 þar sem honum ofbauð hættulegt kuklið. Þetta var svo endurvakið, mikið til af vesturlandabúum og kom til Kína á fyrri hluta 20. aldar og notaðar þunnar, minna meiðandi stálnálar sem ekki var hægt að búa til fyrr.  

Ég veit líka um fólk sem hefur lært hómeópatíu í háskóla. það þýðir ekki að hrist vatn og sykurpillur dugi til lækninga.

Ég skal reyna að klára grein á næstunni um hvers vegna óvirkar aðferðir blekkja fólk til að halda að þær virki. Þangað til, Ómar getur þú lesið klassíska ritgerð Barry heitins Beyerstein um efnið. þú spyrð Google um "why bogus therapies seem to work" og bætir kannski Beyerstein við ef Google finnur þetta ekki strax.

Gleðilega Páska!

Björn Geir Leifsson, 30.3.2018 kl. 15:47

15 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Maðurinn heitir Ríkarður Jósafatsson og fyrirtæki hans hét Nálastungur Íslands þegar ég átti mín viðskipti við hann á árunum ca 2000-2011. 

Hann beitir sjúkranuddi samhliða nálastungunum og auðvitað hefur maður velt fyrir sér hvort vegi þyngra í þeim árangri, sem hann hefur náð við að losa um þá spennu sem hefur skapað bakverki neðst í mjóbakinu sem hefur leitt verk, náladofa og máttleysi út í fæturna, aðallega og mest í vinstri fót. 

Ég fór til annarra sjúkraþjálfara líka á árunum 1994 til 2006 en fékk ekki þá lausn sem Ríkarður náði. 

Ómar Ragnarsson, 31.3.2018 kl. 00:09

16 identicon

Ríkarður Jósafatsson sem útskrifaðist úr skóla, ekki háskóla, sem búið er að loka vegna þess að hann uppfyllti ekki kröfur einhverra samtaka Bandarískra nálarstingara og austurlanda læknisfræða. Skilst að hann hafi setið þar námskeið nærri 3 mánuði áður en hann fékk skýrteini. Trúin flytur fjöll.

Davið12 (IP-tala skráð) 31.3.2018 kl. 06:07

17 identicon

Sæll Ómar.

Bestu þökk fyrir að skýra frá nafni þessa manns sem
hjálpaði þér meir en aðrir reyndust megnugir til
á þeim 12 árum sem þú tilgreinir.

Ég á ekkert vopnabúr af steinum gert; ég veit að frásögn
þín er sönn og þeir einir vita hvað við er að eiga sem í komast.

Hafðu sæll sýnt djörfung og þor í máli þessu og jafnframt
haldið uppi viðvörun þar sem sýnir sig að hennar var þörf.

Það er ekki annað en rétt sem Hallgrímur í Saurbæ orti:

Oft má af máli þekkja
manninn hver helst hann er.
Sig mun fyrst sjálfan blekkja
sá með lastmælgi fer.
Góður af geði hreinu
góðorður reynist víst.
Fullur af illu einu
illyrðin sparar síst.

Húsari. (IP-tala skráð) 31.3.2018 kl. 09:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband