Minnir á örlög frægasta ísingarsérfræðings Bandaríkjanna.

Nálægð við hættuleg fyrirbæri felur ævinlega í sér svonefnda "útreiknaða áhættu", (calculated risk).

Fyrir um það bil rúmum 30 árum mátti lesa ítarlega umfjöllun í bandaríska flugblaðinu "Flying" um flugmann, sem hafði sérhæft sig í flugi í því sem á flugmáli kallast "þekkt ísingarskilyrði" (known icing conditions). 

Hann stundaði þessar rannsóknir persónulega með flugi við varasöm ísingarskilyrði og skrifaði líka um það og varð þekktur í ameríska flugheiminum fyrir vikið. 

Eitt sinn komu ísingarskilyrði á Klettafjallasvæðinu sem voru þannig, að þegar ófært var fyrir aðra vegna óvenjulega hættulegrar ísingar, fann hann loftrými á milli tveggja ísingarlaga, sem hann komst í gegnum á sama tíma og engum öðrum var það fært. 

En á endanum biðu hans sjálfs svipuð örlög og "Lóðrétta læknisins", sem lést í snjóflóði í Ölpunum í gær. 

"Lárétti ísingarflugmaðurinn" tók að sér að fljúga með tvo þekkta bandaríska stjórnmálamenn í krefjandi ísingarskilyrðum og lenti sjálfur í þvílíkum vandræðum að einnig hann, sá allra færasti á þessu sviði, fórst ásamt farþegum sínum.  

Nú er orðið svo langt um liðið, síðan þetta gerðist, að ég man ekki lengur nafn þessa flugmanns, sem gerði vandasama glímu við ísingarskilyrði í flugi að sérgrein sinni. 

Þessi saga og sagan af "Lóðrétta lækninum" eru lærdómsríkar fyrir mörg fyrirbæri, þar sem "útreiknuð áhætta" er með í spilinu. 

Ein tegund af þessari áhættu, mjög grimmt reikningsdæmi, blasir við á fyrstu ævistund hverrar manneskju:

Við fæðingu er aðeins tvennt, sem er öruggt: Að vera á lífi - og vera dauðvona.

Lengi vel geymdi ég þau eintök bandaríska flugblaðsins Flying sem ég keypti en gafst á endanum upp á því, enda magnið orðið óviðráðanlega mikið eftir 60 ára lestur. 

 

 


mbl.is Frægur fjallalæknir lést í snjóflóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hafir þú áhuga á að fletta gömlum blöðum:  https://books.google.is/books?id=8BVI6sNpT4wC&source=gbs_all_issues_r&atm_aiy=1950&redir_esc=y#all_issues_anchor

Hábeinn (IP-tala skráð) 3.4.2018 kl. 15:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband