Kerfin eru kröfuhörð. Millinafninu getur verið ofaukið!

Einu sinni var orðið "kerfið" notað nær eingöngu um það kerfi sem rekstur ríkisins er. 

Nú hefur þetta hugtak í fjölbreyttum myndum mikla þýðingu í flestu stóru og smáu, jafnt í einkamálum og fyrirtækjum og gagnvart ríkinu. 

Svokölluð stýrikerfi leynast á bakvið stórt og smátt í daglegu lífi okkar, allt frá smá tölvukubbum í litlum tækjum upp í heilu stofnanirnar og stærðar fyrirtæki, mannvirki og samgöngutæki, og það verður að hafa varann á að ekkert fari úrskeiðis eða misskiljist. 

Pínulítið dæmi: Ég hef um árabil verið félagi í litlum áhugamannahópi, sem kemur reglulega saman á hálfs mánaðar fresti yfir veturinn, en þó geta fundardagar breyst ef svo ber undir.

Til þess að allir geti fylgst sem best með því, hefur verið ákveðið áminningar- og boðunarkerfi í tölvupósthópi, sem hefur sent tilkynningu út fyrir hvern fund og einnig tilkynnt um breytingar eða flutt fréttir innan hópsins. 

Nú brá svo við fyrir síðustu jól að sá, sem hefur frá upphafi séð um boðunarkerfið, hefur verið langdvölum erlendis, og tók þá annar þátttakandi í hópnum að sér boðunina út frá sinu netpóstfangi. 

Þessi útskipting fór fram hjá mér, þannig að ég var alveg grunlaus þegar það fór að dragast að senda út tilkynningu um næsta fund. 

Gátu ýmsar skýringar verið á því, og því beðið átekta. 

Þegar liðið hafði á annan mánuð sendi ég tölvupóst á einn í hópnum, sem ekki var svarað, en á því gátu líka verið skýringar. 

Um síðir, eftir lengsta hlé í starfsemi klúbbsins í 23 ár hvað mig varðaði, kom síðan í ljós að búið var að halda tvo fundi án minnar vitneskju og ég sá því fram á alls tæplega fjögurra mánaða hlé sem byrjaði á hléinu yfir hátíðirnar og áramótin og endaði á raunverulegu hléi fram til 12. apríl. 

Ástæðan var hlægilega lítil og einföld: Við yfirfærslu á listanum yfir þátttakendur hafði tölva nýs póstfangs fyrir tilkynningarnar hent nafni mínu út, af því að kerfið í henni réði ekki við stafinn Þ. sem er millinafn mitt! 

Hér höfum við sem sagt öfugt dæmi miðað við það sem gerðist hjá Wow air, að ég hefði ekki sett þetta millinafn mitt (Þ=Þorfinnur) inn á listann, hefði allt verið í stakasta lagi.

Já, það getur verið erfitt og varasamt að lifa á tímum hinna lúmskustu kerfa. 

 


mbl.is Misstu af flugi vegna millinafns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Var þetta beltadrifin tölva sem maðurinn notaðist við¿!

Og var hann sizt skárri sem aðrir voru verri
að geta ekki látið þig vita.

Legg til að þú kaghýðir þennan mann og semjir brag
hvar vísur eru 30 talsins og þá fer þetta saman í
allsherjarharmoníum, flengingin og vísurnar í 30 mínútur(!)

Húsari. (IP-tala skráð) 9.4.2018 kl. 16:30

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er talsvert stór hópur og viðkomandi tók ekki eftir því að nafn mitt hafði fallið út neðarlega í hrúgunni. Hópurinn hefur starfað í 24 ár, svo að það eru ekki himinn og jörð að farast þótt tveir hittingar falli út af 240. 

Ómar Ragnarsson, 10.4.2018 kl. 00:07

3 Smámynd: Hallgrímur Hrafn Gíslason

Sæll Ómar.

Þú þarft að panta flugmiða  með sama nafni og Vegabréfið hljóðar uppá, það er nú ekki flóknara en það.

Hallgrímur Hrafn Gíslason, 10.4.2018 kl. 13:48

4 identicon

Sæll Ómar!

Aldrei var það sagt um Þorgeir Hávarsson
að hann drýgði þá höfuðsynd að fara með friði, -
en hefði þó sennilega farið sömu leið og
þú í þessu skrapatóli sem notað var!!

Húsari. (IP-tala skráð) 10.4.2018 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband