Spennan vex. Viðreisn í oddaaðstöðu? Hafa veðrið og fjöldi framboða áhrif?

Í hverri skoðanakönnuninni af annarri undanfarna mánuði hefur ekki þurft að rýna lengi í niðurstöður til að sjá, að ekki mætti mikið út af bregða til að núverandi meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur félli. 

Hrun Bjartrar framtíðar, sem hefur verið einn af meirihlutaflokkunum, hefur skilið eftir sig ákveðið tómarúm, sem fjöldi nýrra framboða sækir inn í.

Þessi mikli fjöldi framboða getur haft þau áhrif, að stór hluti atkvæða, sem annars hefði gagnast meginfylkingunum eins og þær hafa verið, fellur dauður niður og þá er spurningin hvaðan þessi framboð hefðu sótt fylgi sitt. 

Í nýrri skoðanakönnun virðist Viðreisn geta orðið í eins konar oddaaðtöðu í borgarstjórn 

Sjá má að mál eins og loftgæði hafa verið mikið nefnd í umræðunni, og á facebook hefur mátt sjá hvernig veðrið getur magnað upp miklar umræður um þau. 

Undanfarna daga hefur vindur staðið úr austri og loftið í Reykjavík hefur orðið þannig, að þeir sem búa við öndunarfærasjúkdóma eða viðkvæm öndunarfæri hafa kvartað sáran og tjáð þau vandræði sín á netmiðlum. 

Flestir nefna svifryksmökkinn sem orsök, og þar er á að líta, að spá um hret um daginn varð til þess að seinka því að margir tækju neglda hjólbarða undan bílum sínum. 

Á meðan heldur svifryk áfram að safnast upp, og göturnar eru ekki hreinsaðar nógu oft, heldur safnast rykið út í kanta, og þegar stórir flutningabílar fara um, þyrla þeir þessu ryki upp. 

Annað getur líka komið til; vaxandi mengun af völdum brennisteinsvetnis frá gufuaflsvirkjunum á Hellisheiði. 

Á dögunum var opnuð ný og kröftug borhola við Hverahlíð, "sem lofar góðu" eins og sagði í frétt þar um. Það þýðir að þessi nýja hola spýr brennisteinsvetnismenguðu lofti af miklum krafti út í loftið. 

Fyrir hefur verið minnkandi mengun, þökk sé viðleitni til að binda útblásturinn með athyglisverðri aðferð, en í frétt af nýju holunni segir, að því miður verði bið á því að hægt verði að binda óæskileg efni frá henni niður því að hún er fyrir utan það svæði, þar sem það hefur verið sæmilega handhægt. 

En hvers vegna er verið að opna nýjar holur?  Jú, fyrir ári lá fyrir að orka virkjunarinnar, sem byggist á rányrkju frá upphafi, hafi minnkað úr 300 megavöttum í 225. 

Það er ekkert smáræðis orkuminnkun og stefnir allt of glannalegum orkusölusamningum í voða. 

Þess vegna er svipað uppi á teningnum þarna og við Eldvörp hjá HS Orku. Í örvæntingarfullri eftirsókn eftir nýjum borholum, er verið að reyna að seinka óhjákvæmilegu orkufalli, sem að vísu dregst í bili, en verður síðar til þess að orkugeymirinn tæmist hraðar og hastarlega í lokin. 

Núverandi borgarmeirihluti geldur þess ef aðstæður í jafn einföldu máli og loftgæðum verða jafn slæmar og oft í vetur.

Gildir þá einu hvort minnihlutaflokkarnir myndu breyta miklu um þessi djúpstæðu vandamál.  

Vika er hins vegar langur tími í stjórnmálum og í hagstæðum vindum sem bera hreint loft yfir borgarbúa gleymast dagarnir yfir heilsuvernarmörkum kannski að einhverju leyti. 

Spennan mun vaxa um úrslit kosninganna og tilkoma nýrra framboða setur hugsanlega strik í reikninginn. 

 


mbl.is Meirihlutinn fallinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Furðuleg fyrirsögn. Síðan hvenær hefur meirihluti fallið í skoðanakönnun? Er búið að kjosa? Eru ekki niðurstöðurnar komnar þegar að búið er að telja upp úr kjörkössum ?Meira segja Moggableðill dettur í þennan hallærisleg pytt í fyrirsögn.

Ragna Birgisdóttir, 10.4.2018 kl. 09:00

2 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Hvernig væri að kjósendur fengju að vera í friði, fyrir þessum déskotans skoðanakönnunum, svona eins og fyrir einar kosningar?. Þessi óværa dynur á landsmönnum daginn út og daginn inn, nánast látlaust, vikum saman fram að kosningum. Arfaslakt fjölmiðlafólk á enn verri fjölmiðlum hafa þarna eitthvað til að hamra á, út í hið óendanlega. Á meðan geta þeir haldið áfram að "klasaklastra" (copy-paste) fréttum og slúðri, sem aðrir hafa samið, ásamt því að birta fréttatilkynningar frá fyrirtækjum og félagasamtökum, sem gerðar eru að "fréttum" á forsíðum. Aulahátturinn alger.

 Góð fréttamennska heyrir sögunni til, því miður. Vonandi áttar almenningur sig á því. 

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 11.4.2018 kl. 00:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband