Myndbirtingar og uppstillingar eru vandasamar.

Í fámenninu hér á landi og hraða blaðamennskunnar er alltaf hætta á því að vinnubrögð verði umdeilanleg.  

Þegar harkan var sem mest í Kalda stríðinu freistuðust blaðamenn stundum til þess að birta sem verstar myndir af pólitískum andstæðingum. 

Sem dæmi má nefna að eftir óeirðirnar á Austurvelli og inngönguna í NATO 1949 brá svo við Þjóðviljinn fór að birta ömurlega mynd, sem einhver hafði náð á hlið og ofan fra af Bjarna Benediktssyni, þar sem hann stóð hokinn og að því er virtist fýldur, blautur og skjálfandi einhvers staðar á víðavangi, og var greinilegt af þessari mynd, að myndin var tekin án vitundar Bjarna og síðann birt til að sýna hann í sem allra verstu ljósi. 

Eysteinn Jónsson var tileygður, og vissi vel, að ekki var sama frá hvaða sjónarhorni voru teknar af honum myndir. 

Við mig sagði hann og brosti: "Ég vil helst að myndavélinni sé beint vinstra/hægra megin að mér (ég man ekki hvort var) því að þannig sýnist ég réttsýnni."

Það er ekki sanngjarnt og því síður málefnalegt að beiting myndavélar og ljóss sé þannig að það geri þann, sem myndaður er, ófríðari eða svipverri en hann raunverulega er. 

Erlendar rannsóknir hafa sýnt, að slíkt hefur ósjálfráð áhrif á áhorfendur. 

Sömuleiðis er ekki sanngjarnt að uppstillingar séu þannig, að stærð fólks verði mest áberandi af öllu á myndinni. 

Stjórnmálamaður, sem þarf að horfa upp á við til þess, sem tekur við hann viðtal, virkar veikari í augum áhorfandans en sá, sem þarf að horfa ofan frá á viðmælandann og fær með því einu á sig yfirbragð myndugleika. 

Þetta gleymist allt of oft. Hægt er að koma í veg fyrir þetta þegar hávaxinn fréttamaður á í hlut með því að fréttamaðurinn standi aðeins neðar en viðmælandinn.

Bílstjóri einn, sem í gamla daga var nokkuð gjarn á að kitla pinnann, sagði við mig að þegar lögreglan stððvaði hann, hefði hann alltaf flýtt sér að stíga út úr bílnum og koma sér þannig fyrir að horfa ofan á lögreglumanninn frekar en að gefa lögreglumanninum færi á að standa yfir sér og horfa niður á sig í bílstjórasætinu. 

Sagði hann, að þetta hefði ooft greinilega virkað og dregið úr sjálfsöryggi löggunnar. 

Forðast ber að birta myndir af fólki þar sem ljósið fellur þannig á andlit þess að allir drættir og hrukkur ýkist og bjagi svipinn. 

Það getur átt við að hluta til um mynd af Degi B. Eggertssyni, sem býsna oft birtist, en á henni sýnist hann gretta sig hálf asnalega í augum sumra áhorfenda.

Þetta hefur hugsanlega ekki áhrif á meiri hluta áhorfenda, en það er nóg þegar um tvísýnar aðstæður er að ræða ef hluti áhorfenda lætur þetta hafa áhrif á sig.

Myndir af fólki eiga helst að vera sem hlutlausastar svo að þær trufli ekki innihald frétta og blaðagreina. 

Nixon virtist gugginn og grár, fölur og þvalur í frægri sjónvarpskappræðu við Kennedy, sem var sólbrúnn og hraustlegur, ímynd nýrrar og öflugrar kynslóðar. 

Geir Hallgrímsson stóð fölur í sjónvarpsviðtali 1980 í hörkufrosti og kvöldmyrkri utan dyra  uppi við þakrennu með sultardropa úr stóru, fjolubláu nefi, og kunni ekki við að fara frá fundarmönnum innan dyra upp í sjónvarp, þar sem Gunnar Thoroddsen lét viðtal í sjónvarpinu hafa forgang, sat þar afslappaður inni í hlýjunni við bestu hugsanlegu birtuskilyrði og geislaði af sjálfstrausti og öryggi. 

Svona atriði hafa sitt að segja, samanber það þegar að ríkisstjórn í Noregi hér um árið, sem stóð afar tæpt, féll í kjölfar sjónvarpskappræðna, þar sem formaður eins stjórnarflokksins hafði komið til leiks með afkáralega skræpótt og æpandi hálsbindi. 

Hann varaði sig ekki á því að meirihluti áhorfenda sátu saman á heimilum sínum og fóru strax að tala saman um þetta asnalega hálsbindi, þannig að það kaffærði alveg það sem maðurinn sagði og hafði fram að færa. 


mbl.is Dagur ósáttur við fréttina og myndina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Ætli Dagur sé sáttari við myndina sem fylgdi
fréttinni af fréttinni um myndina?

Húsari. (IP-tala skráð) 11.4.2018 kl. 15:57

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér fyndist það undarlegt ef svo væri. Ég er einmitt að tala um þá mynd þegar ég tala um grettur, en mér finnst hins vegar ekki jarðarfararsvipur á honum á hinni myndinni heldur bara alvörusvipur sem hæfir því að vera í vandasömu og ábyrgðarfullu embætti. 

Ómar Ragnarsson, 11.4.2018 kl. 19:11

3 identicon

Hann er ekki svipur hjá Sjón- Dagsatt!foot-in-mouth

Þjóðólfur í Frekjuskarði (IP-tala skráð) 11.4.2018 kl. 20:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband