"Hreint land - fagurt land!

Á Degi jarðar með fyrirbærið Plokk á Íslandi í hávegum haft er það skemmtileg tilviljun að einmitt þessa daga þegar ég er að vinna í textabók fyrir safndiskana "Hjarta landsins" er ég að skrifa upp texta við lag, sem var í tónlistarmyndbandi í einum þáttanna "Út il ek" laust fyrir síðustu aldamót. 

Lagið heitir "Hreint land - fagurt land! 

Lagið og viðlag textans var upphaflega gert í tengslum við 52 þætti um umhverfismál, sem við Sigurveig Jónsdóttir gerðum með vösku samstarfsfólki á Stöð 2, og voru þessir þættir sýndir vikulega árið 1993. 

Landvernd var samstarfsaðili og aðal kjörorð samtakanna þá voru "Hreint land - fagurt land!" 

En það dróst í rúm fimm ár að ljúka þessu verki og fyrst í fyrra kom lagið út á hljómdiski, á diski númer 2 í fjögurra diska albúminu Hjarta landsins. 

 

HREINT LAND - FAGURT LAND!

 

Líttu á blómin, sem brosa á grund

og bjóða þér yl sinn á unaðarstund. 

Líttu til fjallanna, ljúft er að sjá

hvernig logandi´er kvöldsólin tindunum á. 

 

Fylltu´í þér lungun,  því loftið er tært

og litaspil hlíðanna sindrandi skært. 

Hlustaðu´á fuglanna fjölradda söng,

sem að fyllir loftið um vordægrin löng: 

 

Hreint land, fagurt land, 

þar sem hafaldan blá kyssir ljósan sand!

Bjart land, blessað land, 

þar sem blágresið umvefur bjarg og stand! 

 

Ísland, óskaland! 

Þú ert unaður tær, - ekkert veiti þér grand! 

Hreint land, fagurt land

þar sem hafaldan blá kyssir ljósan sand! 

Hreint og ómengað land, ekkert veiti þér grand! 

 

Leggðu í ferð upp á töfrandi tind. 

Teygaðu vatnið úr blátærri lind. 

Aktu upp á bjarg þar sem fuglanna fjöld 

fyllir loftið af vængjaþyt, öld fram af öld. 

 

Finndu þig sjálfan í fjallanna sal - 

á fannbreiðum jökla, - í skjólsælum dal. 

Ljúkist þér upp hve margt annað er hjóm, - 

að þú átt þér í landinu helgidóm. 

 

Hreint land - fagurt land, 

þar sem hafaldan blá kyssir ljósan sand!  

Bjart land, - blessað land, 

þar sem blágresið umvefur bjarg og stand! 

 

Ísland, óskaland, - 

þú ert unaður tær, - ekkert veiti þér grand!

Hreint land, - fagurt land, 

þar sem hafaldan blá kyssir ljósan sand, - 

hreint og ómengað land, - ekkert veiti þér grand! 

 

 


mbl.is Plokka 4.000 kílómetra á degi jarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband