Að sýna mörk, skoruð á sjálfu HM, án þess að boltinn sjáist.

Upprifjun á HM í knattspyrnu frá fyrri tímum á mánudögum í Sjónvarpinu er góð hugmynd svo langt sem hún nær. 

Það er gaman að rifja upp minningar frá þessum mótum en þó einkum þeim þeim, sem voru áður en beinar útsendingar fengust frá þeim. 

Að maður nú ekki tali um þau heimsmeistarmót sem voru haldin áður en sjónvarp kom til sögunnar á Íslandi með Puskas, Pele, Garrincha, Eusebio og Maradona. Skoða nánar snilli þessra manna og umdeild atvik, fræðast um bakgrunn einstakra liða og manna og fylgjast með hugarástandi þeirra og persónuleikum í meðbyr og mótlæti. 

Þetta er það jákvæða, en það verður ekki komist hjá því að minnast á gallana. 

Það vekur undrun hvert kvikmyndagerðarmaðurinn er að fara. Oft er hreinlega eins og einhver áhugamaður hafi laumast að hliðarlínunni og reynt að taka myndir út frá svo flötu sjónarhorni og þröngu, að á myndinni er stundum engin leið að sjá hvar á vellinum boltinn er, hvað þá að gera sér grein fyrir leikskipulagi og yfirliti yfir völlinn eða gangi leiksins. 

Hins vegar eru endalausar þröngar myndir af mönnum eða líkamshlutum að kútveltast hver um annan. 

Í kvöld var þó sett nýtt met þegar sýnd voru ein fimm eða sex mörk skoruð í röð án þess að boltinn sæist nokkurn tíma í mynd! Einn og einn leikmaður sást hlaupa áfram, þannig að aðeins sást efri partur hans, og síðan heyrðust hljóð í áhorfendum. 

Þetta var vítaspyrnukeppni og ef það hefði ekki verið sagt áður í þulartexta að þetta væri vítaspyrnukeppni hefðu flestir áhorfendur myndarinnar verið engu nær. 

Þetta minnti mig á mynd, sem áhugamaður tók á leik í Neskaupstað í upphafi Sjónvarpsins, þar sem annað liðið skoraði 13 mörk. 

Af því að þetta var frægt, voru gerð þau mistök að kynna fyrirfram að við yrðum með mynd af leiknum og náðst hefði mynd af öllum mörkunum. 

En þegar til kom hafði myndin verið tekin á tvær fastar linsur, aðra mjög þrönga og hina mjög víða. 

Á víðu myndinni stóð kvikmyndatökumaðurinn uppi í brekku það langt frá vellinum, að hann var eins og krækiber í helvíti, bara smá blettur með einhverju á iði sem líktist tilsýndar eins og pöddur í moldarreit. 

Ef einhver mörk voru skoruð á þessu tímabili, var engin leið að sjá það. 

Síðan var setið uppi með mynd, þar sem tökumaðurinn áhugasami hafði farið alveg niður að hliðarlínu og allan tímann notað svo þrönga linsu, að það var bara boltinn, sem sást fara í milli fóta á mönnum, en þó hverfa langtímum saman meðan kvikmyndatökumaðurinn var að leita að honum fram og til baka með myndavélinni! 

Þegar mörkin voru skoruð sáust að vísu fætur spyrna boltanum út úr mynd og síðan tók við leit að boltanjum með þröngu linsunni, þar til hann kom loks inn í myndrammann, en þá á leið út úr markinu!  

Mikið var um háloftaknattspyrnu í þessum leik og elti myndavélin þrönga þá boltann af fótum manna hátt í loft upp og niður aftur, boing, boing, boing, svo að fjöllin við Norðfjörð gengu upp og niður úr myndfletinum! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband