"Það er alltaf sama sagan..."

Ofangreind orð voru oft lögð í munn Ragnari Reykási hjá Spaugstofunni í gamla daga. 

Virkuðu að vísu oft hallærisleg, en samt var oft broddur í þeim. 

"Sama sagan" hefur nefnilega ráðið ríkjum hjá háum og lágum í að minnsta kosti tvö ár. 

Hún felst í því að helstu valdamenn þjóðarinnar og hálaunafólk brunar fram úr öðrum í sérhygli í krafti aðstöðu sinnar á meðan allt kerfið vinnur af makalausri smásmygli að því að naga niður kjör þeirra sem minna mega sín. 

Um daginn tók það kunnáttumann um kjör lífeyrisþega og öryrkja langan tíma að telja upp allar þær nánasarlegu og smásmyglilegu aðgerðir sem valdafólkið hefur notað undanfarin misseri til þess að hafa af smælingjunum í smáu og stóru hvaðeina, sem hægt er til þess að rýra kjör þeirra. 

Aðgerðir, sem þekkjast hvergi í okkar heimshluta nema hér. 

Enda sást í yfirliti um framlög til velferðarmála fyrir nokkrum dögum, að Íslendingar eru ekki einu sinni hálfdrættingar á við margar nágrannaþjóðirnar og þarf að fara til Mexíkó til að finna verra ástand. 

Beittar og rökfastar blaðagreinar Björgvins Guðmundssonar hafa líka varpað ljósi á þetta. 

Á sama tíma hefur valdastéttin látið viðgangast kerfisbundnar hækkanir eigin launa, fyrst með dómum Kjararáðs, sem látið var eins og að væri eitthvert utanaðkomandi náttúruafl, en var í raun sköpunarverk Alþingis og stjórnvalda. 

Þegar loks var gert eitthvað í þeim málum var það allt í skötulíki, og það er táknrænt, að aðeins einn þjónn fólksins, forseti Íslands, sagði sig frá þessum ósóma og afsalaði sér hluta af launum sínum.

Þegar láglaunafólkið berst um við að losa fjötra sína, söngla stjórnmálamenn hástöfum um að ekki megi "raska heildinni" á sama tíma sem þeir sjálfir gera það hvar, sem þeir koma því við. 

Rétt er að benda á hvasst blogg Styrmis Gunnarssonar í dag, sem orðar þetta vel. 

 


mbl.is Þjónustufulltrúar í Hörpu segja upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband