Grunaði landsbyggðarþingmenn þetta 1999?

Íslensk kjördæmaskipan hefur frá upphafi byggst á þeirri skoðun, að pólitísk hagsmunamál væru það ólík eftir byggðum og landsvæðum, að til þess að sem nánast og best samband næðist milli kjósenda og fulltrúa þeirra í fulltrúalýðræði, ætti að skipta kjósendum eftir búsetusvæðum. 

Í C-nefnd stjórnlagaráðs voru uppi ólík sjónarmið í þessu. Þrjú dæmi. 

1. Landið ætti allt að vera eitt kjördæmi. 

2. Landið ætti að verða mörg kjördæmi eftir búsetusvæðum.

3. Skipta mætti kjósendum eftir menntun, störfum, menningarhópum og áhugamálum eins og að skipta þeim eftir landsvæðum og landsháttum. 

Þegar kjördæmum var fækkað 1999 úr átta niður í tólf var reynt að hafa þau sem jafn fjölmennust. 

Ein undantekning var þó á, fjölgun á einum stað:

Reykjavík, sem er eitt sveitarfélag, var skipt niður í tvö kjördæmi, alveg á skjön við fækkun kjördæma. 

Rökin voru meðal annars þau, að borgin bæri slíkan ægishjálm yfir önnur kjördæmi varðandi mannfjölda og miðlæga stöðu, að það þyrfti að sporna við því. 

Enn skrýtnari var þó skipting Reykjavíkur. Í stað þess að virða sjónarmiðið varðandi ólíka hagsmuni og viðhorf eftir landsvæðum og skipta Reykjavík um Elliðaár, - í vesturborgina annars vegar og úthverfin hins vegar, - var ákveðið að skipta henni eftir endilöngu, til þess að koma í veg fyrir að "kjördæmahagsmunir og kjördæmapot" væru stunduð í höfuðborginni! 

Sagt var að landsbyggðarþingmenn svokallaðir vildu þetta, en fékkst aldrei staðfest, enda hefði með staðfestingu á þeim orðrómi fengist upplýst að myndun kjördæma hefði í för með sér kjördæmapot í ljósi kjördæmahagsmuna. 

Skoðanakönnunin, sem sagt er frá í tengdri frétt á mbl.is, staðfestir hins vegar að kjósendur skynja ólíka hagsmuni eftir því hvort þeir eiga heima í vesturhluta borgarinnar eða í úthverfunum. 

Einmitt það! Það skyldi þó ekki vera að landsbyggðarþingmenn hafi grunað þetta í lok síðustu aldar? 


mbl.is Ólík viðhorf eftir búsetu í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband