Kafli, sem skar sig úr í 2000 km tvöföldum hringakstri.

Allir landshlutar eru með malbikaða flugvelli, sem geta verið alþjóðaflugvellir og opnir allan sólarhringinn, - nema Vestfirðir. Léttir, Hrafnseyrar heiði

Þegar litið er snöggt á kort af Íslandi, blasir við að landið er nokkurn veginn tvær eyjar, þar sem aðeins munar 7,5 kílómetra breiðu hafti milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar, að þessir tveir hlutar landsins séu aðskildir. 

Um háveturinn er aðeins hægt að fljúga til Ísafjarðar í örfáar klukkustundir um hádegisbil. 

Þótt prýðis veðurskilyrði séu hinar 20 stundirnar, hamlar myrkur því að flugfært sé.

Þetta er ömurlegt og í raun ótrúlegt þegar komið er bráðum 20 ár fram á 21. öldina.  Léttir við Barðaströnd

Þetta er ekki það eina ótrúlega varðandi stöðu landshlutans í samgöngum, heldur er hringvegurinn um þennan hluta landsins lokaður mánuðum saman á veturna. 

Myndin hér að ofan er tekin á Hrafnseyrarheiði. 

Í ferð í fyrrasumar á léttu vespuvélhjóli (Honda PCX) með hljómflutningstæki í tónleika- kynningar- og söluferð á safndiskinum "Hjarta landsins" kom hörmulegt ástandið i landssamgönum óþyrmilega í ljós. 

Í þessari ferð (sjá meðfylgjandi kort) var fyrst var farinn stóri hringurinn, Reykjavík-Egilsstaðir-Akureyri-Borgarfjörður og síðan í beinu framhaldi Vestfjarðahringurinn, Borgarfjörður-Hólmavík-Ísafjörður-Flókalundur-Borgarfjörður-Reykjavík, alls rúmlega 2000 kílómetrar á tæpum fjórum sólarhringum, skar einn vegarkafli sig algerlega úr, já vakti forundran.Á hjóli. Leiðarkort 

Þetta var kaflinn frá Þingeyri til Flókalundar, sem tæki 50 mínútur að fara ef hann líktist öðrum hlutum vegakerfisins, en tók meira en tvær klukkustundir að komast, - vil illan leik.

Þetta voru ekki bara hola við holu, heldur var á hverri einbreiðu brúnni eftir aðra hvassar bríkur við djúpar holur þar sem brúargólfin mættu malarveginum. 

Hvergi var að sjá aðvörunarskilti um þetta og bílar og tengivagnar skemmdust við að skrönglast yfir þessi ósköp.  Léttir, holur á vegi nr.60

Sú afsökun er ekki gild, að vegna þess að ekki hafi verið komin Dýrafjarðargöng, hafi ekki verið hægt að gera almennilegan veg milli Mjólkárvirkjunar og Flókalundar. 

Vel hefði verið hægt að gera nýjan og boðlegan veg á þessari leið fyrir löngu síðan í stað þess að bjóða upp á þá viðundurs hörmung sem hún hefur verið. 

Einnig hefði fyrir löngu verið hægt að fara með nýjan veg yfir Þorskafjörð við Kinnarstaði og stytta leiðina þar um 10 kílómetra, burtséð frá því hver lausnin yrði milli Þorskafjarðar og Melaness. 

Í raun hafa Vestfirðir í ofangreindum meginatriðum, - skorti á heilsárs hringleið og lokun fyrir flug mestallan sólarhringinn að vetrarlagi,- verið á svipuðu stigi og var fyrir rúmlega hálfri öld.    


mbl.is „Lokahnykkur“ vegna heilsárshringvegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

það er kanski rétt að minna á það að fyrir hálfri öld voru vestfirðingar að sumuleiti betur settir því þá höfðu þeir strandsiglingar sem sjaldan klikkuðu....

Ásgeir Jónsson (IP-tala skráð) 30.5.2018 kl. 18:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband