Smámunir miðað við drekkingu Hjalladals.

Ríflega 10 milljón rúmmetrar, sem fóru í berghlaupi eða skriðu hálfa leið yfir Hítardal á dögunum, er gríðarlegt magn. Fagraskógarfjskriða.

Þó verður að telja það smámuni miðað við mannanna verk á Norðausturhálendinu.Leirfok, Kárahnjúkar

Hér er átt við það magn jökulaurs sem árnar Jökla og Kringilsá hafa verið á fullu við að fylla upp 25 kílómetra langan og allt að 180 metra djúpan dal á norðausturhálendinu, þar sem áður voru 37 ferkílómetrar af gróðurlendi og góðu beitilandi fyrir fé, auk einstæðra jarðmyndana í formi stórfenglegasta hjallalandslags hér á landi og litfagurra gljúfra í botni dalsins. 

Samkvæmt mati á umhverfisáhrifum var áætla að 5 milljónir rúmmetra af jökulaur bærust í lónið á hverju sumri. 

Það þýðir 60 milljón rúmmetra síðan byrjað var að sökkva dalnum, eða 120 milljón tonn. 

Við það er siðan að bæta, að vegna mjög hlýnandi veðurlags og aukins graftrar hins minnkandi Brúarjökuls má ætla að þetta magn geti verið tvöfalt meira og sé þegar orðið meira 200 milljón tonn. Hálslón, Kárahn.stífla 17.8.18

Hálslón var sýnt sem blátært og gagnsætt vatn fyrir virkjun en er í raun risavaxinn drullupollur, þar sem skyggni í vatninu er innan við 10 sentimetrar. 

Þegar ísa leysir af vatninu í júníbyrjun eru um 35 ferkílómetrar lónstæðisins á þurru, þaktir fíngerðum leir og sandi, sem myndar leirstorma einmitt bestu veðurdagana, þegar hlýr hnjúkaþeyr stendur úr suðri í heiðskíru veðri. 

Sér þá stundum varla handaskil við lónið.  Þetta ástand getur komið alveg fram yfir miðjan júlí, en þá fer auða svæðið minnkandi jafnframt því sem hækkar í lóninu. Hálslón,landgr. 17.8.18Kringilsá. Vor 2010.

Loftmyndin var tekin viku af júlí þegar lónið hafði hækkað talsvert, en samt sjást stíflurnar ekki og rétt grillir í Sandfell og Fremri-Kárahnjúk. 

18. júlí síðastliðinn, þegar neðri myndirnar voru teknar, var vatnsstaðan fimm metrum hærri en venjulega á þeim tíma, eða svipuð og hún er venjulega í lok júlí eða byrjun ágúst. 

Daginn eftir að þessar myndir voru teknar dró Völundur Jóhannesson, "nágranni" minn á Brúaröræfum, fánann í hálfa stöng til að minnst undirritunar viljayfirlýsingar við Alcoa 19. júlí 2002 sem innsiglaði örlög Hjalladals. 

Næstneðsta myndin er tekin skömmmu eftir að ísa leysti 2010 og sést þar, að gljúfur Kringilsár, sem hlaut heitið Stuðlagátt vegna stórfenglegra stuðlabergshamra skömmu fyrir drekkingu, er þegar orðið hálffullt á aðeins þremur árum. 

Neðsta myndin er tekin júlíbyrjun uppi á bakkanum fyrir neðan Töfrafoss, sem þá var sokkinn. 

Á öllu svæðinu sem þarna er sandi orpið, var gróið land fyrir drekkingu.  

Fólk í sandi v.Kringilsá


mbl.is Svæðið á hreyfingu fyrir skriðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband