"Búið að klippa af manni nafnnúmerin".

Fyrir allmörgum áratugum kom einn vinur minn til mín og sagði sínar farir ekki sléttar. 

Kannski hef ég sagt þessa sögu einhverntíma áður hér á blogginu eða facebook, en það gerir lítið til.

Þessi vinur minn hafði tapað öllum skilríkjum sínum í bruna á Grænlandi og sagði að hann fengi ekkert af þeim aftur. Stæði hann nú í stappi við yfirvöld og það væri ekkert grín að hafa ekki lengur nein skilríki, til dæmis hvorki ökuskírteini né vegabréf.

"Það er fjandi hart að það skuli vera búið að klippa af manni nafnnúmerin" sagði hann, en á þessum árum var fyrirbærið kennitala ekki komin til sögu, heldur var hver maður með fjóra tölustafi í svonefndu nafnnúmeri.  

Á því tímabili sem svona stóð á fyrir manninum,  stöðvaði lögregla hann eitt sinn eftir að hann hafði ekið yfir gatnamót á umferðarljósum, og töldu lögreglumennirnar hann hafa ekið á rauðu ljósi. 

Vinur minn harðneitaði sök og neitaði líka að gefa upp nafn, enda þyrfti hann þess ekki og gæti það hvort eð er ekki, því að það "væri búið klippa af honum nafnnúmerin." 

Stóð hann fast á sínu, og var því handtekinn og færður í fangaklefa. 

Þar dúsaði hann í heila viku og er viðlíka uppákoma líkast til einstæð á Íslandi. 

Loks fór þó svo, að þegar vinur hans, sem vann á Reykjavíkurflugvelli eins og hinn horfni, frétti af því að hans væri saknað úr vinnu, leitaði hann til lögreglunnar, fór niður á stöð og bar kennsl á hann. 

Fékk hann nafnnúmerslausa þverhausinn leystan úr haldi án frekari málalenginga, enda málið ekki síður orðið pínlegt fyrir lögregluna en fangann. 

 


mbl.is Var „ekki til“ í norsku þjóðskránni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Aztec

Rússneskur brandari:

"Í Moskvu réðust þrír óþekktir menn á annan mann, rændu af honum öllum skilríkjum og brenndu þau. Nú eru fjórir menn óþekktir".

Aztec, 22.7.2018 kl. 00:27

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Annar, frá Sovéttímanum: Sovétríkin eru eina ríkið í heiminum, þar sem er hægt að brjótast inn stjórnarráðið og kvöldið fyrir kosningar og stela úrslitunum. 

Ómar Ragnarsson, 22.7.2018 kl. 08:29

3 identicon

Einn frá Íslandi: Ísland er eina ríkið í heiminum sem heldur upp á fullveldisafmæli með viðurstyggilegan mannhatara og rasista sem heiðursgest.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 22.7.2018 kl. 11:14

4 identicon

Nafnnúmerið var 8 tölustafir en ekki 4 - xxxx-xxxx.

Ég man mitt enþã.

Bjarni (IP-tala skráð) 22.7.2018 kl. 11:26

5 Smámynd: Aztec

Ég man ekki nema tvær tölur úr mínu gamla nafnnúmeri, enda notaði ég það næstum því ekkert. Það góða við það var að þú varst sá eini sem þekktir það, fyrir utan yfirvöld.

Í dag getur hver og einn komizt að því hver kennitalan þín er. Það grefur undan persónulegu öryggi.

Aztec, 22.7.2018 kl. 19:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband