"Hún var amma, svo fróð."

Þessi setning í ljóðinu "Íslenska konan" átti við ömmu höfundar þegar það var samið.

Misrétti kynjanna var að vísu byrjað að láta undan á hennar tíma, en var þó býsna mikið. 

Kvenna beið yfirleitt að verða vinnukonur eða húsmæður en karla að menntast. Þegar þær fengu kosningarétt fengu þær ekki að kjósa fyrr en þær voru orðnar fertugar. 

 

Þegar amma útskrifaðist úr skyldunámi sem ung stúlka vestur í Dölum með langhæstu einkunn nemenda, var sagt að það væri hneisa fyrir Dalamenn, að það hefði ekki verið einhver af strákunum sem hampaði slíkum árangri. 

Hún hét Sigurlaug Guðnadóttir og var systir prestanna séra Einars, prófasts í Reykholti og séra Jóns ættfræðifræðímanns að Prestbakka í Hrútafirði. 

Bræður Sigurlaugar urðu stúdentar og tóku háskólapróf, en eftir nám í Kvennaskólanum beið hennnar að verða húsmóðir og frekara nám var yfirleitt ekki á dagskrá hjá konum á þessum árum. 

Hún var því sjálfmenntuð, réði krossgátur á nokkrum tungumálum og veitti barnabörnum sínum gleði með því að lesa fyrir þau og þýða erlend myndablöð og sögur, svo sem Knold og Tot, sem amma nefndi Óla og Pétur. 

Þetta var á tímum dönsku blaðanna og tímaritanna, og þegar hún fór til Kaupmannahafnar á eldri árum rataði hún um borgina eins og hún væri innfædd.

Já, "hún var amma, svo fróð."  

Móðuramman, Ólöf Runólfsdóttir, var á sinn hátt ekki síðri amma en föðuramman, jafnvel enn nánari. 

Ég veiktist svo hastarlega í heimsókn hjá henni sex ára gamall, að rétt var talið að hafa mig þar áfram, og vikurnar, sem hún hjúkraði mér heima hjá henni þar til sóttin rénaði verða ógleymanlegar og ómetanlegar.   

Amma Ólöf ólst upp í stórum systkinahópi og þegar faðir hennar neyddist til að fara með hana sjö ára gamla að heiman frá Hólmi í Landbroti austur yfir Skeiðarársand í fóstur að Svínafelli í Öræfum, leiddi hann kú til baka yfir sandinn. 

Já, svona var Ísland í gær, þegar amma var ung.  


mbl.is Lækkuðu einkunnir kvenkyns nema
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Fróðlegt þetta þögula eintal sálarinnar.

Ætli þeir sem sinna þeim störfum, - og aðrir að skaðlausu, -
gerðu ekki gott í því áður en tekið er við starfi 
að "gera þögult samkomulag" við sig sjálfa að geta staðið upp frá 
því í lokin að hafa unnið það starf af heiðarleika og réttsýni 
og að því sem út af stóð hafi fyrir guðlega handleiðslu verið
ráðstafað svo sem best mátti verða? Geri ráð fyrir því
þrátt fyrir allar takmarkanir.

Húsari. (IP-tala skráð) 2.8.2018 kl. 23:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband