Grunsamlegir menn að mæla brú.

Það er gömul saga og ný að "grunsamlegir menn" verði að fréttaefni, en niðurstaðan verði síðan að ekkert grunsamlegt hefði verið á seyði. 

Á dögum Kóreustriðsins 1950-53 færðist Kalda stríðið svo mjög í aukana, að mikill ótti og tortryggni breiddust út um allan heim. 

Í Bandaríkjunum skullu á miklar nornaveiðar þingnefndar undir forystu Joseph McCarthy öldungardeildarþingmanns þar sem hundruð og jafnvel þúsundir manna urðu fyrir miklum ofsóknum vegna grunsemda um að þeir væru með svo mikla "óameríska starfsemi" fólgna í samúð með kommúnistum, að það teldist til landráða. 

Á endanum kollsigldi McCarthy sig í látunum, og var látinn hætta. 

Hér heima birtist skondin frétt í dagblaðinu Tímanum sumar eitt eftir að bandaríska varnarliðið hafði verið sent til Keflavíkurflugvallar vegna stríðshættu af völdum Kóreustríðsins og rúmlega hálfrar aldar herseta hófst þar. 

Í fréttinni var greint frá því að "grunsamlegir menn" hefðu sést vera að mæla brú í Leirársveit, en með tilliti til þess að Bandaríkjamenn voru með starfsemi í Hvalfirði, þar sem bílar urðu að aka í gegnum öryggishlið á aðalleiðinni milli Akureyrar og Reykjavíkur, væru mælingar á brúm á þessari mikilvægu flutningaleið í hæsta máta grunsamlegar. 

Þar gætu verið útsendarar Rússa og kommúnista á Íslandi á ferð í þágu hugsanlegrar innrásar Rússa í landið og herflutninga þeirra. 

Rannsókn málsins leiddi hins vegar í ljós, að ætlunin var að flytja lítinn sumarbústað yfir brúna, brúin var mæld til að tryggja að það væri mögulegt og gengi vel og örugglega fyrir sig, og að ekkert var "grunsamlegt" við þetta athæfi.  


mbl.is Grunsamlegir menn með höfuðljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband