Landnemaþjóð, sem tók land af "frumbyggjum"?

Smám saman er sagan um landmám Íslands að breytast úr því að vera afrekasaga um norskar hetjur, sem fundu landið fyrstir manna í það að hér hafi aðrir verið á undan. 

Þar með fer sagan að líkjast meira hliðstæðri hetjusögu evrópsku "landafundamannanna" sem fundu Ameríku. 

Og hetjusögunni um þá sem endurfundu "Landið helga" og reisa þar landnámsbyggðir af kappi. 

Ekki skal lítið gert úr siglingaafrekum víkinganna fyrir meira en þúsund árum né hliðstæðumm afrekum Spánverja, Portúgala og Englendinga fyrir hálfu árþúsundi. 

Allir þessir "landemar" færðu með sér mikla tækni- og verkkunnáttu á ýmsum sviðum á þeirra tíma mælikvarða. 

En þeir brutu löndin undir sig með valdi og litu í raun niður á þá sem fyrir voru með því að upphefja sjálfa sig, sitt ætterni og sinn arf.

Og einnig var stærstur hluti norrænu landnemanna vafalaust bændur, þótt mikið sé gert úr ættgöfgi og atgerfi "göfugustu" landsnámsmannanna. 

Ótrúleg umsvif, sem meðal annars sjást í rústum bygginga og svonefndum þjóðveldisgörðum sem reistir voru um þverar og endilangar þingeyskar heiðar bera ekki aðeins merki um auð, heldur líka um það þrælahald, sem þurfti til að standa undir öllu þessu "efnahagsundri."  

Nýjustu erfðarannsóknir sýna, að meirihluti íslenskra kvenna er skyldari þjóðum á Bretlandseyjum en Skandinövum. 

Um tíma var norrænt landnám á Írlandi, og þegar það fór halloka, er líklegt að fjöldi kvenna og þræla hafi verið flutt til Íslands. 

Án kvenna og þræla hefðu hinir stórlátu, stoltu og fyrirferðamiklu landnámshöfðingjar Íslands varla borist svo mjög á og staðið í átökum, orrustum og mannvígum eins og sögurnar greina frá. 

Um hluta af þessum veruleika landnámsins reynir síðuhöfundur að fjalla í ljóðinu "Íslenska konan" með eftirfarandi línum, sem túlka þá skoðun, að hlutur kvenna í landnáminu og uppbyggingu þjóðveldis á Íslandi hafi ekki verið gefinn sá gaumur, sem verðugur er: 

 

"Með landnemum sigldi´hún um svarrandi haf. 

Hún sefaði harma; hún vakti´er hún svaf. 

Hún þerraði tárin, hún þerraði blóð. 

Hún var íslenska konan, sem allt á að þakka vor þjóð. 

 

Ó, hún var ambáttin hljóð, 

hún var ástkonan rjóð, 

hún var amma, svo fróð! 

 

Ó, athvarf umrenningsins, 

inntak hjálpræðisins; 

líkn frá kyni til kyns.." 


mbl.is Íslensk bein fundust sem talin eru vera frá 9. öld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kvæðið þitt á vel við  Melkortu sem víkingar rændu frá Írlandi og var selt til Íslands sem ambátt og átti soninn Ólaf Pá  en hún var dóttir Mýrkjartans sem var kóngur á Írlandi.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 14.8.2018 kl. 07:07

2 identicon

Sæll Ómar.

Undir hvaða bragarhætti er þetta kvæði ort?
(hef þegar séð það í heild sinni)

Húsari. (IP-tala skráð) 14.8.2018 kl. 09:06

3 identicon

Væri ekki nær að tala um keltnesku papana sem fyrstu landnema, frekar en frumbyggja?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 14.8.2018 kl. 11:19

4 Smámynd: Helgi Viðar Hilmarsson

Fornleifarannsóknir staðfesta tímasetningar landnámsins eins og greint er frá því í Landnámu. Það hófst um 870 og stóð yfir í um 60 ár. Eldri mannvistarleifar eru hverfandi og benda ekki til fastrar búsetu. Ketill flatnefur talaði um Ísland sem veiðistöð þegar hann neitaði að flytja til landsins með sonum sínum. Flest bendir til að þetta sé í aðalatriðum rétt. Írskir munkar hafi hafst hér við og norrænir menn hafi haft hér bækistöðvar meðan þeir stunduðu veiðar við strendur landsins.

Helgi Viðar Hilmarsson, 14.8.2018 kl. 13:01

5 Smámynd: Helgi Viðar Hilmarsson

Landnámið var undirbúið og skipulagt. Menn hafa byrjað á því að flytja búfé hingað og látið það fjöga sér áður en fólk gat hafið búsetu. Flutningsgeta skipanna var of takmörkuð til að hægt væri að flytja fólk og bústofn á sama tíma. Kona nokkur sem tjáði sig um íslenskt forystufé í sjónvarpi fyrir nokkru síðan sagði að landnemarnir hafi alveg vitað hvað þeir voru að gera þegar þeir tóku að nema land. Færeyjar öðru nafi Fjáreyjar byggðust með sama hætti. Fyrst kom féð og svo fólkið.

Helgi Viðar Hilmarsson, 14.8.2018 kl. 13:27

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kvæðið er ort við lag Billy Joel sem ber heitið "She´s a woman to me" og fylgir laglínu og hljómfalli þess lags með þeirri notkun ljóðstafa og ríms sem möguleg er. 

Í a-kafla lagsins, sem er í hægum valstakti, eru ellefu atkvæði í hverri línu, en í b-kaflanum 6-7 atkvæði (nótur). 

Ómar Ragnarsson, 14.8.2018 kl. 13:30

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Staða keltnesku papanna þegar norrænir menn komu og lögðu allt landið undir sig, var tæknilega lík stöðu indíánanna í Ameríku, sem höfðu komið til þeirrar heimsálfu á undan hvítum mönnum, - að vísu löngu fyrr. 

Ómar Ragnarsson, 14.8.2018 kl. 13:33

8 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ómar, hvað hefurðu fyrir þér í því, að því hafi alltaf verið haldið fram að þegar víkingarnir fundu landið, hafi ekki verið ein sála á landinu? Ég man ekki betur en að ég hafi lært það í Íslandssögu, að hér hafi verið kristnir Papar, þegar víkingarnir komu. Þá yfirgáfu þeir (papar) landið, því þeir vildu ekki búa við heiðna menn.

Svona man ég mína sögukennslu frá því í tíu ára bekk u.þ.b. og það eru meira en fjörutíu ár síðan. Þessi fornleifafundur svarar því að vísu ekki hve mikil byggð var, hvort hér hafi verið fáeinar hræður eða fjölmennt samfélag, þá væntanlega keltneskra Papa.

Theódór Norðkvist, 14.8.2018 kl. 14:09

9 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Fékk sömu söguskýringu og Theódór hér að ofan.  Papar voru hér fyrir, aðallega á austfjörðum, en þetta voru bara einsetukarlar sem fjölguðu sér ekki - eðli máls samkvæmt.  Söguskýringunni fylgdi líka að þeir fóru sjálfviljugir við innrás norskra en voru hvorki myrtir né neyddir til.  Ef einhver hefur aðrar upplýsingar væri fróðlegt að frétta af þeim.

Kolbrún Hilmars, 14.8.2018 kl. 16:18

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Einmitt, Kolbrún. Um þetta deilir enginn, heldur hitt, að "landnámið fyrir landnám" hafi verið mun umfangsmeira en hinir norrænu landnámsmenn vildu vera láta.  

Ómar Ragnarsson, 14.8.2018 kl. 16:38

11 Smámynd: Örn Einar Hansen

Íslendingar hafa sama útlit og Írar, og sama blóð.

Hér er tilvitnun í The Irish Times, og ætli þetta sé ekki hin raunverulega skýring á málinu. Af hverju við höfum Írskt blóð í æðunum.

"This supports the model, put forward by some historians, that the majority of females in the Icelandic founding population had Gaelic ancestry, whereas the majority of males had Scandinavian ancestry,"

Örn Einar Hansen, 14.8.2018 kl. 16:44

12 identicon

Sæll Ómar.

Kærar þakkir fyrir upplýsingarnar;
þetta skýrir 4. vísuorðið eins og það birtist hér.

Húsari. (IP-tala skráð) 14.8.2018 kl. 17:04

13 Smámynd: Egill Vondi

Staða keltnesku papanna þegar norrænir menn komu og lögðu allt landið undir sig, var tæknilega lík stöðu indíánanna í Ameríku, sem höfðu komið til þeirrar heimsálfu á undan hvítum mönnum, - að vísu löngu fyrr. 

Það er engann veginn hægt að bera saman einsetumunka í einhverju útibúi annars vegar og hins vegar heilt samfélag, sérstaklega þegar allt heimaland margra Indíánaþjóða var tekið. Það eina sem væri sambærilegt væri ef að við hefðum lagt undir okkur allt Írland í staðinn, svo að þeir hefðu hröklast burt frá nánast öllu landinu, nema e.t.v. í einhverjum afkimum. Þess í stað fengu mun fleiri Írar að koma til Íslands en fjöldi þeirra Papa sem fóru sjálfviljugir burt.

Egill Vondi, 14.8.2018 kl. 19:51

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Það hafa aldrei fundist neinar sannanir fyrir veru írskra munka (Papa) á Íslandi. Engar fornleifar styðja þá tilgátu. Einu heimildirnar fyrir því eru úr Landnámu og þær heimildir eru litlar og stuttar.

Gunnar Th. Gunnarsson, 15.8.2018 kl. 14:29

15 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Meginpunkturinn er sá sem Kolbrún nefnir hér: Paparnir voru munkar og gátu því eðli málsins samkvæmt ekki myndað sjálfbært samfélag sem hafði möguleika á að vaxa og dafna - hafi þeir þá yfirleitt verið til. Frumbyggjar Norður-Ameríku lifðu í raunverulegum samfélögum.

Þorsteinn Siglaugsson, 16.8.2018 kl. 08:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband