Herdansari með Bin-Laden mynd fyrir framan íslenska utanríkisráðherrann.

Haustið 2003 höfðu Íslendingar skipað sér í hóp "viljugra þjóða" vegna innrásarinnar í Írak, sem margir telja að hafi skapað jarðveginn fyrir hörmungum í Írak og Sýrlandi, meðal annars vegna hernaðar ISIS. 

Halldór Ásgrímsson var utanríkisráðherra og fór í ferð til Mósambík til að kynna sér þróunarhjálparstarf Íslendinga þar. 

Mottökur heimamanna voru einstaklega hlýjar og innilegar og Íslendingum sýnt mikið þakklæti, bæði í fiskvinnslu í Mósabík, hjálparstarfi í fátækrahverfi í Maputo og við byggingu og rekstur heilsugæslustöðvar í Hindane, handan við flóann. 

Í fátækrahverfinu var heldin heilmikil þakkarhátíð, þar sem hinn sérstæði afríski röddunarsöngur og dansar frumbyggja voru eftirminnileg atriði. 

Þetta var aðeins tveimur árum eftir árás Osama Bin-Laden á New York og Washington og því vakti það athygli mína og undrun að sjá, að meðal dansara sem sýndu herdansa af mikilli list beint fyrir framan íslenska utanríkisráðherrann, var einn dansarinn með stóra mynd af Osama Bin-Laden á brjóstinu!  

Undrun mín stafaði fyrst of fremst af greinilegri fávisku dansarans, sem virtist ekki gera sér neina grein fyrir þeirri móðgun við gestina, sem í þessu gæti talist vera falin. 

Að vísu kom það mér ekki á óvart að daður við múslimst hryðjuverkafólk ætti sér ákveðinn hljómgrunn í löndum þriðja heimsins, sem höfðu þurft að búa við kúgun nýlenduherra. 

Á ferð um Eþíópíu fyrr á árinu 2003 höfðu íslenskir trúboðar sagt mér frá því, að áhangendur múslimskra öfgamanna væru furðu lagnir við að dreifa áróðri sínum, meðal annars með treyjum og merkjum, sem væru ekkert ósvipuð því sem sjá mátti á myndum af Che Guevera á hippatímanum. 

Sumum þætti töff að hafa slíkt um hönd, eins og sást á unga manninum, sem dansaði afrískan frumbyggjastríðsdans fyrir hinn langt að komna velgjörðamann, Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra Íslands. 

Það eimir enn víða eftir af andúð frá nýlendutímanum á vestrænu fólki í þróunarlöndunum. 

Þannig fékk George Foreman heimsmeistari í þungavigt í hnefaleikum alla Kongóbúa upp á móti sér fyrir bardagann við Ali, af því að hann hafði með sér gæludýr, sem hatað var þar í landi; hund af því kyni sem belgískir nýlendukúgarar siguðu á innfædda. 

Ali, sem var mun ljósari á hörund en Foreman, fékk alla áhorfendurna að einvígi þeirra til þess að hrópa einum rómi: "Ali! Boma-je!" sem útleggst: "Ali, dreptu hann!" 

Það var ekki furða að svona væri málum háttað þarna, því að nú hefur verið upplýst, að hvergi í nokkurri nýlendu sýndu nýlenduherrarnir meiri grimmd en Belgar gerðu í Kongó. 

Voru hinir drepnu taldir í milljónum þar í landi.

Hefndarhugur er einhver versti eiginleiki mannsins. Í stríðunum á Balkanskaga á síðasta áratug síðustu aldar kom í ljós, að enn var verið að hefna fyrir orrustur og illvirki frá því 5-600 árum fyrr.   


mbl.is Börn í skrúðgöngu klædd sem vígamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Ómar.

Það var múr Sovétríkjanna sem skildi að þau ríki sem þú minnist á. Það var sovéski múrinn frá Balkanskaga til Indlands sem hélt þessum ríkum í aðskildum einingum. Og þegar hann féll rann ríkjaskipan þeirra inn í upplausnarferli sem ekki sér enn fyrir endann á.

Við fall sovétmúrsins hófust Íslamistar handa við að reyna að mynda jihadistaríki og kveiktu í Bandaríkjunum til að reyna að efla samstöðuna við málstað sinn innan hins íslamíska heims. Bandaríkin brugðist við með því að reyna að koma á einhverskonar lýðræði, en mistókst. Staðan í Mið-austurlöndum er því enn óbreytt.

Þessi tugga um að Bandaríkin hafi sáð þessum fræjum er byggð á vanþekkingu.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 21.8.2018 kl. 11:39

2 identicon

Höfum í huga að Islam og Islamism er ekki það sama. Islamism er ekki hluti af trúarbrögðunum Islam, sem nær 1.4 milljarðar manna aðhyllast. Held að þessi Gunnar Rögnvaldsson átti sig ekki á þessu.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 21.8.2018 kl. 12:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband