Umhverfis- og náttúruverndarmál í sókn í fjölmiðlum.

Í aðdraganda hrunsins voru umhverfis- og náttúruverndarmál í skugganum af yfirþyrmandi áherslum á fréttum úr viðskiptalífinu. 

Fyrirtækin, sem voru helstu þátttakendur i hrunadansinum í kringum gullkálfinn buðu besta fjölmiððlafólkinu gull og græna skóga, og í hruninu sjálfu urðu fjölmiðlarnir fyrir miklum búsifjum, sem bitnuðu á getu þeirra til að stunda rannsóknarblaðamennsku. 

Síðustu árin hefur rofað til í þessum efnum eins og sést vel á tilnefningunum til fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. 

Öll hin tilnefndu hefðu verið vel að verðlaununum komin og er það fagnaðarefni, hvernig kastljós fjölmiðlunar beinist í vaxandi mæli að þeim málaflokki, sem verður mesta stórmál þessarar aldar. 

Ástæða er til sérstakra hamingjuóska til Tómasar Guðbjartssonar og Ólafs Más Björnssonar fyrir glæsilegt framlag þeirra til upplýstrar umræðu um íslensk náttúruverðmæti, því að fyrirbæri, sem ég hef kallað "áunna fáfræði", hefur orðið afdrifarík í þessum málaflokki undanfarna áratugi, og því veitir ekki af að í þeim efnum spyrni hugrakkir eldhugar við fótum. 

Síðan er það ekki síðra gleðiefni að sá mikli baráttumaður á sviði náttúruverndar og landbóta, Sveinn Runólfsson, skuli hafa hlotið náttúruverndarverðlaun Sigríðar í Brattholti. 

Ég er einn af fjölda fólks, sem hefur notið leiðsagnar og forystu þessa stórkostlega manns, allt frá því er ég hóf að gera heimildaþætti um jarðvegs- og gróðureyðingu landsins. 

Það hikaði Sveinn ekki við að greina undanbragðalaust frá því sem hann vissi sannast eftir að hafa alist upp frá frumbernsku við baráttu Sandgræðslu Íslands og siðar Landgræðslu Íslands við eyðingaröflin.  

Og það mun aldrei gleymast mér hvernig hann var sá eini af þeim íslensku vísindamönnum, sem ég leitaði til vegna gerðar myndarinnar um Kárahnjúkavirkjun 2002-2003, sem þorði að koma fram og segja skoðun sína undanbragðalaust um það sem spurt var: Að hægt yrði að ráða við óhjákvæmilegt leirfok og sandstorma úr þurrum lónbotninum snemmsumars, meðal annars með þvi að dreifa rykbindiefni úr flugvélum!  

Aðrir þorðu ekki sjást á mynd og meira að segja ekki að láta hafa neitt persónulega eftir sér, heldur tóku það jafnvel fram, að það sem ég upplýsti mætti ekki rekja til þeirra. 


mbl.is Tómas og Ólafur Már hljóta fjölmiðlaverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju Ómar Ragnarsson, þó sómamaður og fyrirmynd.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 17.9.2018 kl. 17:39

2 identicon

edit. þú sómamaður....

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 17.9.2018 kl. 20:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband