"Viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér."

Þegar móðir mín heitin vann sem ung stúlka hjá tímaritinu Eimreiðinni, nýútskrifuð úr Verslunarskólanum, var helsta þjónustuboðorðið, sem hún lærði: "Viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér."  

Sem þýddi, að leita ætti eftir þeim þörfum og löngunum sem viðskiptavinurinn hefði og gera hann þannig sem ánægðastan, í stað þess að þrasa við hann eða þvinga hann til einhvers annars. 

Ferð sem ég fór á vegum Stöðvar 2 til Írlands 1993, eða fyrir 25 árum, opnaði alveg nýja sýn. 

Írarnir lögðu sig fram um að laða til sín ferðamenn frá Miðjarðarhafslöndunum til þess að uppfylla upplifunarþörf þeirra á einhverju nýju. 

Á vesturströnd Írlands var það hryssingslegt og hvass skúraveðrið, sem stóð af Atlantshafinu, svo að trén á ströndininni voru blaðlaus á þeirri hlið sem sneri að saltrokinu. 

Þessi ferðamenn voru ekki komnir til að upplifa steikjandi sólarhita, logn og heiðskírt veður. 

Þurftu ekki að ferðast til þess. 

Eftir þetta gerðí ég margar fréttir um þetta fyrirbæri, "upplifunarferðamennskuna" og hef sagt frá ýmsu hér á bloggsíðunni. 

2005 opnaði ferð til Lapplands augu mín enn betur. Þar var helsti markhópurinn lokkaður þangað norður í rassgat til að upplifa fernt:  Kulda, myrkur, þögn og ósnortna náttúru.. 

Þetta fernt er nánast allt það sem við höfum talið okkur trú um að sé það mest fráhrindandi sem hugsast gæti. 

2005 komu fleiri ferðamenn til Lapplands að vetrarlagi en komu til Íslands allt árið. 

Eftirtalar vonleysis mótbárur okkar voru léttvægar fundnar í vetrarferðalaginu um Lappland: 

1. Ísland er of langt í burtu.  Svar:   Það er styttra til Íslands frá flestum löndum í vestanverðri Evrópu en til Lapplands. 

2. Það er alltof mikið myrkur:    Svar: Lappland liggur norðar en Ísland og þar er enn meira myrkur.  

3. Það er alltof kalt, já skítakuldi á Íslandi.  Svar: Það er miklu kaldara, fimbulfrost í Lapplandi. 

4. Það er ekki hægt að sýna útlendingum neitt.  Svar: Jú, upp úr stríðinu skrifuðu evrópsk börn bréf til jólasveinsins á Íslandi. Þetta þótti hvimleitt hjá okkur og tómt vesen og urðum við fegin þegar þessu linnti.  En Finnarnir í Rovaniemi sáu hvað var á seyði og lokka hundruð þúsunda til Lapplands ár hvert til að upplifa jólasveininn, af því að hann býr í Lapplandi, ekki á Íslandi. 

5. Ókey, Finnarnir hirtu jólasveininn af okkur og þar með eigum við ekkert.  Svar: Jæja, það er bara einn jólasveinn í Lapplandi en 13 hjá okkur auk Grýlu, Leppaljóða, álfanna og tröllanna.  Finnarnir eiga hreindýr og hreindýrasleða til að bruna á um frosin vötn á heiðum, en við eigum líka hreindyr sem gætu dregið hreindýrasleða til að bruna á um frosin vötn og heiðar, - en þar að auki eigum við stórkostleg eldfjöll og eldfjallanáttúru. 


mbl.is Ferðaþjónustan öflug heilsársgrein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband