Það þarf greinileg og óyggjandi fingraför.

Fréttaröðin um bílinn sem var ekið inn í Adam og Evu leiðir hugann að því, að Fingraför eru eitthvert persónulegasta einkenni manna, næst á eftir DNA. Þess vegna er lagt mikið upp úr þeim við rannsókn sakamála. 

Fyrir um sex árum var stolið frá mér Toyota 4runner 92 árgerð af bílasölu, sem var með nýjum 38 tommu dekk og breytingar í samæmi við það. 

Ég ákvað, eftir að lögreglan vildi ekkert gera í málinu, að reyna að rannsaka málið sjálfur eftir að bíllinn fannst á ræfladekkjum og felgum og búið að saga af honum alla brettakanta, gangbretti og aðrar breytingar og bora gat á bensíntankinn til þess að ná bensíninu af honum. 

Á skrifstofu lögreglunnar var mér bent á gríðarstóran skýrslubunka um bílaþjófnaði sem dæmi um óupplýst þjófnaðarmál. 

En smám saman sýndist mér málið vera að upplýsast hjá mér þegar ég gat fært líkur að því að þjófurinn væri mjög lágvaxinn og gengdi meira að segja viðurnefni af þeim sökum. 

Hann hafði nefnilega gleymt að færa ökumannssætið aftur eftir akstur eða drátt bílsins og var líkast til ekki meira en 1,65 á hæð. 

Við áframhaldandi skoðun var ég ekki aðeins kominn með nafn hans heldur líka hvar geymslustaður þýfisins væri. 

Þegar ég greindi lögreglunni frá þessu og einnig því, að enginn hefði ekið þessum bíl marga undanfarna mánuði á nema ég, ákvað lögreglan að fá bílinn til sín og láta leita fingrafara. 

Þeir sögðust annars ekki getað fengið leyfi fógeta til að rannsaka meintan geymslustað, jafnvel þótt mikill fengur gæti verið í því að finna þar þýfi úr mörgum þjófnaðarmálum. 

Fingraförin fundust, en sérfræðingur sagði, að þau þyrftu að vera örlítið skýrari til þess að þau gögnuðust sem fullnaðar sönnunargögn. 

Við leit að 38 tommu dekkjunum fínu var einn þeirra viðmælenda minna, sem vissu ansi margt um undrheima bíla- og vélhjólaþjófa, furðu fljótur að finna bráðabirgðalausn fyrir mig. 

Hann útvegaði mér slitin en þó nothæf 38 tommu dekk á brúklegum felgum fyrir gjafverð! 

Ekki vildi hann gefa upp nafn hinna örlátu seljenda, og mig grunar, að þessi hjálpsami maður hafi komist að þvi hverjir þjófarnir voru og getað fengið þá til að iðrast lítillega og gauka að mér þessari sárabót!   


mbl.is Rannsókn á bílnum lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband