Hvað um 125cc hjólin?

Að meðaltali er 1,1 maður um borð í hverjum bíl í borgarumferðinni. Það þýðir, gróflega áætlað, að 90 prósent bílanna séu með aðeins einn mann um borð. Vespuhjól 125cc

Hér á síðunni hefur áður verið bent á, að vélhjól í svokölluðum 125 cc flokki, oftast með vespulagi, sem eru með allt að 15 hestafla eins strokks bensínvél, ná auðveldlega 90 km/klst þjóðvegahraða með aðeins rétt rúmlega tvo lítra í eyðslu á hundraðið. 

Eftir rúmlega tveggja ára reynslu af notkun slíks hjóls er niðurstaðan sú, að með því að negla dekkin á veturna er hægt að nota slík hjól vegna veðurs vel yfir 80 prósent,og engin vika hefur liðið þannig, að hjólið hafi ekki verið notað eða verið nothæft. 

Slíkt hjól er 10 til 15 sinnum léttara en rafbíll og sjö til tíu sinnum ódýrara. 

Kolefnisfótspor af því að vinna fyrir hjólinu, viðahalda því, kostnaður af afskriftum, smíði og förgun, er því augljóslega miklu minni, og vegna hinnar hlægilega litlu eyðslu er fótsporið vegna orkueyðslunnar ekki mikið stærra og fótsporið samanlagt jafnvel minna. 

Ótalið er hve lítið rými hjólin taka í gatnakerfinu, en í því liggja gríðarlegar fjárhæðir í margs kyns sparnaði.Niu N-GTX rafhjól

Nú eru að koma á markaðinn rafknúin hjól af þessari stærð með byltingarkenndum endurbótum, meðal annars útskiptanlegum rafhlöðum, sem skipa þeim framar rafbílum á þessu sviði og gera mögulegar skiptistöðvar fyrir rafhlöður í stað hraðhleðslustöðva. 

Þar eru kínversk hjól af gerðinni Niu-N GTX fremst í augnablikinu. 

Af því að fyrir mistök birtist myndin af tveimur 125 cc íslenskum hjólum tvisvar á síðunni, má geta þess að Honda er að vinna að bæði hreinu rafhjóli á grunni Honda PCX, hjólinu til hægri og einnig tvinnhjóli af þeirri gerð.

Gogoro. Skiptistöð 

Á slíku hjóli þarf ekki endilega að hafa samskonar hleðslutengi og á tengiltvinnbíl, því að líklega verða rafhlöðurnar færanlegar og hægt að taka þær úr hjólinu og hlaða heima eða á vinnustað, eða að skipta á þeim og hlöðnum rafhlöðum í skiptistöðvakerfi á borð við Gogoro kerið á Taían. .  Vespuhjól 125cc


mbl.is Kolefnisfótspor rafbíla 5 sinnum minna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Áhygavert að sjá umfjöllun um létt bifhjól.

Þú gleymir einum mjög svo hindrandi þætti vegna notkunar almennings á léttum bifhjólum í daglegri umferð...  tryggingum og skilmálum tryggingafélaga. 

Ég hef alltaf haft áhuga á bifhjólum, bæði nýjum og fornhjólum.

Ég og frúin leigðum okkur bensínknúin létthjól hérlendis til prufu, fyrir tíma túristabólunnar, það var skemmtileg reynsla.

Við höfum hvorugt réttindi til aksturs bifhjola, svo afl þeirra bifhjóla sem við reyndum, var takmarkað, en nægilegt til prufuaksturs.

Eitt stórt atriði sem takmarkar áhuga okkar til að eiga bifhjól til almennar notkunar í viðbót við ökutæki, eru tryggingar bifhjóla.

Ég er þegar í deilum við VÍS tryggingafélag, sem heimtar að ég greiði tryggingar af fornbíl sem er ekki í notkun, jafnvel þó ég leggi inn númerin af bílnum !

Kunningi minn, sem hefur gert upp ótal fornhjól, hefur valið þá leið, að hafa sín hjól ekki á skráningu, geymir þau sem stofustáss og sýningargripi. Full ökufær hjól, sem hann gangsetur reglugelag, en treystir sér ekki til að hafa í notkun eða á ökutækjaskrá, vegna gríðarlegra hárra trygginga.

Á mínu heimil yrði keypt lítið létt bifhjól, fanvel tvö,  strax eftir helgi, og við myndum bæði verða okkur úti um réttindi til aksturs létt bifhjóls,  ef ekki væri vegna iðgjald tryggingafélaga af bifhjólum.

Tryggingafélögin eru einkarekin og lúta einungis eigin reglum.

Kveðja,

Heimir H. Karlsson. 

Heimir H. Karlsson (IP-tala skráð) 30.9.2018 kl. 02:52

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta getur verið spurningin um að leggja á borðið áætlun um notkun þína á ökutækjum, því að notkun vélhjóls er hagfelldust ef þú átt líka bíl, sem þú notar líka eftir þörfum, til dæmis ef vinhviður eru meiri en 20 m/sek, en það er það takmark sem ég set sjálfum mér við notkun hjólsins og rafreiðhjólsins, sem ég á líka. 

Nú, þegar minnsti rafbíll landsins er líka til umráða hjá mér, hef ég á tveimur árum og þremur mánuðum farið tæpa 12 kílómetra á Hondunni, og sé fram á í mesta lagi 5 þús km á á ári, sem er rúmlega þriðjungur meðaltalsnotkunar. 

Prófaðu að tala við fleiri tryggingarfélög, til dæmi Tryggingamiðstöðina, ef VÍS er þversum í málinu. 

Þú lætur fylgja með í umsókn þinni, að þú munir nota hjólið í samræmi við eftirtalin fimm atriði, sem gera hjól ekkert hættulegri en bíla. 

1. Þú ert alltaf edrú á hjólinu. 

2. Þú ert með tilskilin réttindi og færni. Á kvöldin er til dæmis hægt að fara inn á Korputorg eða annað hliðstætt autt svæði og æfa sig varfærnislega í að höndla hjólið. 

3. Þú hagar akstrinum eins og að enginn annar í umferðinni sjái þig, þannig að þú reynir að vera viðbúinn hvaða uppátæki að misgáningi hvers sem er. 

4. Þú ert alltaf með lokaðan hlífðarhjálm. 

4. Þú stefnir að því að vera alltaf í vélhjólaklossum/stígvélum. 

(5. Ekki sakar að bera sérstaka vélhjólahanska).  

Ómar Ragnarsson, 30.9.2018 kl. 11:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband