"Aukning í magni fjölda ferðamanna."

Ofangreind orð féllu af vörum manns í útvarpsviðtali. Öðruvísi gat hann ekki lýst því að "ferðamönnumm hefði fjölgað."

Orðið "aukning" er komið langt með að útrýma sagnorðunum "að vaxa" eða "að fjölga." 

Þegar annar maður í útvarpsviðtali vildi lýsa gangi mála í ferðaþjónustunni, gat hann ekki lýst helstu staðreyndum öðruvísi en að bæta við fyrir framar þessar staðreyndir tískuorðunum "við eum að sjá."  Við erum að sjá þetta og við erum að sjá hitt. 

Einn okkar ágætu veðurmanna í sjónvarpsfréttum bætir æ ofan í æ við orðunum "kemur til með að" fyrir framan staðreyndirnar "sem við sjáum" á skjánum. 

Það kemur til með að myndast lægð sem kemur til með að vaxa og kemur til með að fara yfir landið, svo að það kemur til með að kólna og hvessa. 

"Kemur til með að..." er algerlega óþörf viðbót, sem lengir málið, en það var eitt af einkennum svonnefnds kannsellístíls, sem tröllreið íslensku ritmáli á 19. öldinni og var kennt við stjórnkerfið danska. 

Veðurmaðurinn hefur komist upp í það að segja "...kemur til með að..." sjö sinnum i einu stuttu veðurspjalli. 20 sekúndur samtals í vaskinn á dýrasta útsentingartímanum. 

Nú sækir á eins konar enskuskotinn ný-kannsellístíll, engu skárri en hinn danskættaði var og bæði þessi fyrirbæri virðast eiga að gefa til kynna háar stöður og mikla menntun og upphefð þeirra sem rita eða tala í þessum stíl. 

Nýlega söfnuðust til feðra sinna fjölmiðlamennirnir Eiður Guðnason og Jónas Kristjánsson, sem notuðu afburða skýrt, rökvíst og fagurt íslenskskt mál í umfjöllun sinni um menn og málefni. 

Er þar skarð fyrir skildi.  

Þess má geta, að "aukning í fjölda nýskráðra bíla" er orðið nær alrátt orðalag um vöxt eða fjölgun, en síðan sá ég síðar í morgun, að komin var önnur mun betur skrifuð frétt um svipað efni á mbl.is.  

Ber að þakka það sem vel er gert. 

 


mbl.is 34% aukning í nýskráningu rafbíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband