Vestfirðir áfram lengra og lengra á eftir í fluginu?

Vestfirðir hafa lengi skorið sig úr öðrum landshlutum varðandi flugsamgöngur. Um þetta hefur ítrekað verið fjallað á þessari bloggsíðu. 

Segja má að fjórðungurinn dragist alltaf lengra og lengra aftur úr, því að í grundvallaratriðum hefur ástandið ekkert skánað í meira en 50 ár, eða síðan Ísafjarðarflugvöllur var tekinn í notkun. 

Allir aðrir landshlutar voru þá búnir að fá flugvelli, sem hægt var að lenda á allan sólarhringinn og þar með orðið fullgildir flugvellir allan ársins hrings og fyrir flug bæði innanlands sem utan. 

Á kosningafundi á Vestfjörðum 2007 vakti það hlátur fundarmanna sem alger fjarstæða þegar bent var á, að með heilsárs landsamgöngum milli norðanverðra og sunnanverðra Vestfjarða gætu opnast möguleikar fyrir stórum flugvelli á Barðaströnd, sem væri fær allan sólarhringinn allt árið um kring og að þaðan yrði aðeins rúmlega klukkustundar akstur til Ísafjarðar. 

Þó er vitað, að í slæmum hríðarverðum í norðanátt er Bíldudalsflugvöllur oft eini flugvöllurinn á norðanverðu landinu sem er opinn. 

Sömuleiðis benti Egill heitinn Ólafsson á það, að Patreksfjarðarflugvöllur væri ekki einasta eini flugvöllurinn á Vestfjörðum, sem gæti haft almennilegt blindaðflugskerfi, heldur gæti þverbraut í Sauðlauksdal haft sömu eiginleika og Bíldudalsflugvöllur í norðlægum vindáttum. 

Bæði við Brjánslæk og Haga á Barðaströnd er rými fyrir almennilega flugvelli, sem hefðu þennan kost, en auk þess væri mun styttra þaðan til Ísafjarðar en frá Patreksfirði. 

Ofangreind hugmynd 2007 var byggð á 40 ára reynslu af flugi allan ársins hring fyrir vestan, en var hlegin út af borðinu í beinni útsendingu í sjónvarpi. 

Að minnsta kosti hefur málið haldið áfram að vera steindautt. 

Í gegnum tíðina hafa komið fram hugmyndir um heilsdagsflugvelli við Sveinseyri í Dýrafirði og við Hnífsdal. 

Slíkar flugbrautir hefðu þann kost að vera svo stutt frá Ísafirði, að þær væru í raun hluti af brautarkerfi Ísafjarðarflugvallar. 

Nú, þegar Guðjón S. Brjánsson vill velta þessum málum upp, hefur íbúum Vestfjarða fækkað úr því að vera 7 prósent landsmanna fyrir hálfri öld niður í 2 prósent og þar með aukast erfiðleikar við að benda á þá skammarlegu staðreynd, að flugsamgöngur við Vestfirði eru því miður nokkurs konar fornaldarfyrirbrigði í aðstöðu til nútíma flugs hér á landi. 

P. S. Það getur ekki kostað mikla peninga að lengja norðausturenda brautarinnar á Ísafirði um 150 metra. Hér á síðunni hefur áður verið rakið hvernig þessi litla lenging gæti skipt sköpum við aðflug og fráflug á vellinum við ákveðnar aðstæður, við flugtak inn fjörðinn og í lendingarbruni og flugtaki út fjörðinn. 

 

 


mbl.is Sparaði sér 226.000 kílómetra akstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ágæti Magnús Reynir.

Efni: http://www.bb.is/2018/01/omar-ragnarsson/

Ekki er hægt annað en að meta orð þín (í aðsendri grein sem birtist í Bæjarins besta?!) öðruvísi en siðlaus og ganglaus. Orð þín gefa þeim sem þau lesa haldbærar hugmyndir um að þú sért líklegur til að tala niður til þeirra sem eru þér ekki þóknanlegir. (Kannski þessvegna sem allir eru vinir þínir í athugasemdum greinarinnar?!)

Talandi um samfélagsins besta.

Þannig er það þegar "farið er í manninn", að hugsuðurinn speglar sig ómeðvitað í eigin orðum; sekur um það sama og meint sekt þess sem gagnrýndur er. Heimskulegt sjálfsmark.

Kveðja að sunnan,
Guðjón Heiðar  

E.s. Þetta er í fyrsta sinn sem ég les hugsanir þínar sem er eitthvað annað en hugsanir Ómars í gegnum tíðina sem maður hefur haft mörg tækifæri til að sjá og heyra.

Guðjóm Heiðar (IP-tala skráð) 4.10.2018 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband