"Svona gengur það. Svona er það..."

Í gegnum tíðina hef ég stundum fengið samkomugesti til að taka undir viðlag frumsamins lags með texta, nokkurs konar öfugmælavísu, sem Brynjólfur heitinn Jóhannesson fór stundum með, svo hljóðandi: 

Svona gengur það.

Svona er það.

Allir vita það

en enginn sér það. 

 

Svei mér ef það er ekki kominn tími til að skjótast í upptöku í hljóðver með Hauki Heiðari og bæta við nýju erindi í tilefni af umfjöllun þáttarins Kveiks í gærkvöldi um meðferðina á mörgum útlendingum á Íslandi. 

Fyrsta erindið yrði eins og það hefur verið í áratugi: 

 

Skattasvindlið er svakalegt, 

menn sveia því lon og don

en segja´að þetta sé þjóðaríþrótt 

og það sé ei nema von. 

 

Svona gengur það. 

Svona er það. 

Allir vita það

en enginn sér það. 

 

Og inn á milli gömlu erindanna í þessum söng, gæti komið eitt nýtt: 

 

Útlent vinnuafl okkur bjargar 

svo innfæddir græði vel

en láti þrælana líða oft við

að lepja dauðann úr skel. 

 

Svona gengur það. 

Svona er það. 

Allir vita það

en enginn sér það.

 

Brynjólfur fór einu sinni með upprunalega textann í útvarpsþætti Svavars Gests, en ekki var þess getið þá, hver hefði gert þann texta. 

Ef einhver veit eitthvað meira um það væri fróðlegt að vita um það. 


mbl.is „Í sömu gildru og hundruð annarra“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi framkoma einkennir ekki síst þetta hjá mörlandanum: Hroki, vanþekking, chauvinism, ethnocentrism, yfirburði Íslendinga, stórastir í heimi. Útlendingar eiga bara að vera þakklátir fyrir það að fá að starfi hér á skítalaunum, við skíta aðbúnað. Síðan spyrja fjölmiðlafíflin þegar þetta fólk yfirgefur landið: how do you like Iceland?  

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 3.10.2018 kl. 13:33

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Textinn er hugsanlega eftir Guðmund Guðmundarson enda gerði hann marga texta sem Brynjólfur flutti.

Sigurður I B Guðmundsson, 3.10.2018 kl. 15:47

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Tek undir þetta, Sigurður. Datt það sama í hug, því að þessi gamli vinur minn gerði marga skemmtilega texta, svo sem Dómínó og textana fyrir Alfreð og Konna.

En þorði ekki að giska og núna, þegar ég ætla að skjótast til að taka þetta upp verður niðurstaðan sennilega sú að segja, að höfundur viðlagsins sé ókunnur. 

Ómar Ragnarsson, 3.10.2018 kl. 16:47

4 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Og meðal annars "Bellu símamær" og "Hulda spann".

Sigurður I B Guðmundsson, 3.10.2018 kl. 17:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband