Sádi-Arabía er hin heilaga mannýga kýr í alþjóðasamfélaginu.

Öll heimsbyggðin hefur horft að mestu aðgerðarlaus á spillta harðstjórn og einhvert versta ástand í mannréttindamálum á byggðu bóli, sem viðgengist hefur í Sádi-Arabíu. 

Ástæðan blasir við: Peningar, olíuauður mældur í stjarnfræðilegum upphæðum.

Í skjóli yfirburða aðstöðu meðal olíuframleiðsluríkja hafa Sádarnir komist upp með allt sem þeir gera.

Þeir hafa átt stuðning Bandaríkjanna vísan og þegar mesta herveldið og mest auðræðið leggja saman, er hægt að komast upp með allt, glæpi gegn mannkyni í Jemen og mannréttindabrot heima fyrir.

Sádarnir hafa reynst Bandaríkjamönnum hjálplegir til þess að hafa þá góða og njóta hernaðarstuðnings í formi mikilla vopnakaupa.

Trump hefur reyndar sagt að ekki verði hrófað við hernaðarsamvinnunni, enda miklir hagsmunir vopnaiðnaðarins í Bandaríkjunum að ræða.

Og þegar Sovétríkin féllu á níunda áratug liðinnar aldar, áttu Sádar drjúgan þátt í því með því að beita sér fyrir auknu framboði á olíu, sem olli tímabundinni lækkun heimsmarkaðsverðs á henni, en það var afar þungbært fyrir Sovétríkin sem olíuframleiðanda.

Samband Sáda og Kananna kristallaðist í heimsókn síðuhafa til skíðabæjarins Avon í Colorado hér um árið.

Bæjarbúar voru í skýjunum yfir þeirri viðurkenningu sem bærinn fékk, með því að krónprins Sádi-Arabíu valdi Avon fram yfir Aspen og þá skíðastaði í Evrópu sem hann hafði heimsótt fram að því.

En jafnframt hneyksluðust sömu bæjarbúar stórum á því yfirgengilega bruðli sem krónprinsinn stóð fyrir.

Hann tók heilt 100 herbergja hótel á leigu fyrir sig og sitt fólk í víggirtu hverfi auðmanna og var með flota af einkaþyrlum og limósínum.

Bæjarbúar, sem rætt var við, áttu varla orð af hneykslun. Þegar þeim var bent á eigin bruðl í villum og hundraða hestafla margra tonna bíldrekum og að Sádarnir væru lykillinn af vellystingum heimamanna, varð fátt um svör.

Á þeim ráðstefnum sem síðuhafi hefur sótt um orkumál heimsins og við skoðun annarra gagna hefur komið í ljós að Sádarnir spila afar vel úr sinni firnasterku stöðu. 

Þegar þeir gefa að vísu upp olíumagn í jörðu undir landi þeirra og gera það upp á tunnu, er þeim trúað varlega, en jafnframt sagt að enginn frýi þeim vits, - en meira séu þeir grunaðir um græsku. 

Þeir viti á laun betur en allir aðrir hvernig staðan sé varðandi hina takmörkuðu auðlind, sem þeir byggi allt sitt á, og eyði miklum fjármunum í rannsóknir og vísindi, sem geti viðhaldið sterkri stöðu þeirra við lok olíualdar. 

Ólíklegt er að Donald Trump sé að gera málum gagn með því að reyna að koma í veg fyrir að Íranir geti notað sinn olíuauð. 

Það hefur aðeins þau megináhrif að olíuframboð muni minnka og verð hækka, eins og þegar er byrjað að koma. 

Til lengri tíma litið hagnast Íranir á því að geta treint olíuauð sinn lengur en ella. 

En allir svona útreikningar eru vitanlega háðir mörgum hugsanlegum breytum. 

 


mbl.is Íhuga sniðgöngu vegna Khashoggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Óli Ragnars, fv. forseti til 20 ára, var mikill aðdáandi Sáda. Þrýsti mjög á nánara samband þjóðanna, Íslands og Sádi-Arabíu og hrósaði þeim mikið. Eitt af mörgum afglöpum Óla.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 14.10.2018 kl. 14:59

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hann spyrnti þó við fótum þegar sendiherra Sáda sagði honum frá hundraða milljóna fjárveitingu Sáda í íslenska hofinu.  

Ómar Ragnarsson, 14.10.2018 kl. 16:16

3 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Sæll Ómar, þú segir satt hér að ofan. Það var nú gott Herra Ólafur Ragnar skildi spyrna við fótum, reynsla annarra þjóða sýna það að bygging svona hofa er bara byrjunin!

kær kveðja frá Eyjum.

Helgi Þór Gunnarsson, 14.10.2018 kl. 20:49

4 identicon

Helgi Þór Gunnarsson (20:49). Byrjunin á hverju?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 14.10.2018 kl. 21:16

5 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Fyrirgefðu Haukur, aðeins og fljótur á mér, en það sem ég meina er byrjunin á uppbyggingu hryðjuverkastarfsemi!

Helgi Þór Gunnarsson, 14.10.2018 kl. 21:28

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Byrjunin? Maður klípur sig í höndina við að sjá það sem haldið er fram á netmiðlum í því efni; - hvorki meira né minna en vopnað valdarán múslima. 

Á blogginu hefur því ítrekað verið haldið fram, að múslimskir hryðjuverkamenn hafi staðið að brunanum í Garðabæ í fyrra, bílabrunanum við Öskju og brunanum við Laugalækjarskóla og ýjað er í ofanálag sterklega að því að lögregla og fjölmiðlar séu í samsæri við að hylma yfir með múslimsku glæpahyski. 

Þess meira að segja krafist að þegar verði handteknir vinstri sinnaðir foreldrar þeirra sem fremji þessi hryðjuverk. 

Og sá sem telur sig vita einna mest um þessi mál fullyrðir, að í öllum ríkjum, þar sem múslimatrú hefur fest rætur fylgi því hryðjuverk. 

Ómar Ragnarsson, 14.10.2018 kl. 21:33

7 Smámynd: Helgi Þór Gunnarsson

Sæll Ómar, ég hef bara mína fræðslu úr fjölmiðlum hér á landi um þá reynslu sem aðrar vestrænar þjóðir hafa um innflutning og umhyggju gagnvart þessum múslimum!

góðar stundir.

Helgi Þór Gunnarsson, 14.10.2018 kl. 21:41

8 identicon

Sæll Ómar - sem og aðrir gestir, þínir !

Ómar síðuhafi / fornvinir mínir: Haukur og Helgi Þór, líka sem aðrir !

Saúdí- Arabísku ómennin: eru svona ámóta plága Mið- Austurlanda, eins og Engeyingarnir (lesizt: Sjálfstæðismenn svokallaðir) og attaníossar þeirra, s.s. Framsóknar- og Miðflokksmenn, Vinstri grænir og Samfylkingar packið, ásamt Viðreisn o.fl., hérlendis.

Nema - guð Saúdí- Araba gerpanna ku heita Allih / Engeyinganna og fylgjara þeirra aftur á móti Mammon.

Að öðru leyti: er lítill munur, á ofantöldu hyski, piltar !

Með beztu kveðjum - sem oftar, af Suðurlandi.

e.s Arabar (hinir Múhameðsku): áttu drýgstan hlut, að falli Kristinnar menningar Norður- Afríku á 7. og 8. öldunum, (utan merkilegrar varðstöðu Kopta, í Egyptalandi og Eþíópíu, gegn þeim) auk stórrar eyðileggingar á Andatrúar samfélögum Berbnesku frumbyggjanna, þar um slóðir, þá eyðilögðu Arabar Sassanídaríki Persa og Tvíeðlishyggju Zaraþústra þar með, að ógleymdum tjónunum á Indlandsskaga og víðar, svo fátt eitt sé talið, úr fortíðinni.

Múhameðska liðið - er svona álíka skussa- og heimsku gáttar lýður, eins og títtnefndir Sjálfstæðismenn og vinir þeirra, eru / og hafa verið hérlendis = ruzlara lýður algjör, að öllu upplagi !

Því miður, piltar. 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 14.10.2018 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband