Svikalogn eða upphaf "sögulegrar samvinnu"?

Í gegnum tíðina hefur oft verið erfitt að sjá í upphafi stjórnarsamstarfs, hve langlíf og farsæl hver ríkisstjórn gæti orðið. 

Í sumum, eins og Nýsköpunarstjórninni 1944, og stjórninni núna hafa flokkar yst frá hægri og vinstri hafið stjórnarsamstarf og í bæði skiptin virst ganga merkilega vel að fá alla til að ganga í takt af heilindum við að leysa mikilsverð mál þannig að það, sem helst náist samstaða um, sé látið hafa forgang, en deilumál sett í "samtal" eða siglt framhjá þeim. 

Í samanburði við fyrri hamagang í átökum flokkanna virtist allt detta í dúnalogn síðla árs 1944 og 2017. 

Hjá núverandi stjórn virðast loftslagsmálin ætla að verða í fyrri flokknum, en í öðrum málum, eins og varðandi NATO, er ekki blásið til neinna breytinga, en þó liðið málfrelsi og athafnafrelsi hópa óánægðra yst til hægri og vinstri. 

Síðan eru stór mál, sem liggja að mestu í láginni, en gætu verið eins og falinn neisti undir eldfimu efni. 

Samvinna flokkanna í Nýsköpunarstjórninni gekk vel fram eftir árinu 1946 og það hjálpaði til að Sovétmenn og Bandaríkjamenn höfðu verið bandamenn í heimsstyrjöld. 

En þegar leið á árið dró tvær blikur á loft, og kom önnur þeirra mörgum á óvart, af því að hún virtist ekki fyrirsjáanleg á þeim tíma. 

Fyrirsjáanlegt var að vísu, að gjaldeyrisforði Íslands myndi ganga til þurrðar vegna mikillar eýðslu í uppbyggingu "innviða" og framleiðslutækja, svo sem skipaflotans og frystihúsanna og í ofanálag skall yfir mikill samdráttur og lækkun útflutningsafurða, sem hafði mikil áhrif hér á landi. 

En það kom aldrei til þess að ríkisstjórnin lenti í vanda út af þessu. 

Nei, að miklu leyti á óvart, kom fram annað, sem felldi ríkisstjórnina; - Kalda stríðið, og ólíkar skoðanir á því að verða við óskum Bandaríkjamanna um aðstöðu fyrir herflutninga um Keflavíkurflugvöll. 

Þetta tvennt er nefnt nú, vegna þess, að enda þótt litlar líkur séu á því að ágreiningur um utanríkismál verði að sprengiefni í stjórnarsamstarfinu, getur ágreiningur í umhverfismálum og og ekki síður tímasprengjan, sem liggur undir í komandi kjaradeilum, vanræksla stjórnmálaelítunnar og launahæsta fólksins við að hagga neitt við afleiðingunum af launahækkunum hinna hæst launuðu. 

 


mbl.is Unnur fulltrúi stjórnvalda í loftslagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eina útspilið sem getur bjargað þessari ríkisstjórn frá falli í kjölfar komandi kjarasamninga er að stöðva blóðmjólkun á almennningi þessa lands, t..d taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni. Verðtrygging fjármangseigenda er ekki náttúrulögmál heldur lögverndaður þjófnaður sem er svartur blettur á Íslandi, þe. lövarið OKUR er hér við lýði, og siðmenning getur ekki talist ríkja hér á meðan svo er ástatt. En - hækka þá ekki vextir? Jú, en þá vitum við samt að hverju við göngum, og getum gert þá fyrst gert raunhæfar áætlanir, í stað þessa að tilberar leiki hér lausum hala og mergsjúgi algmúgann í skjóli stjórnvalda. Þetta veit Katrín Jakobsdóttir mæta vel. Sjáum hvort hún er með bein í nefinu eða reynist bara gluggaskraut eins gantast  var með hér um árið, eða mun það reynast forspá? kiss

Öreigur í Hruna (IP-tala skráð) 16.10.2018 kl. 21:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband