Hrífan hennar Jóhönnu.

Nafna Jóhönnu Sigurðardóttur, sem flutti ávarp á kvennafrídeginum í dag, Jóhanna Lúðvíksdóttir á Guðmundarstöðum í Vopnafirði, hlaut örlög, sem eru lýsandi fyrir það hve lengi eimdi eftir af ömurlegri stöðu kvenna langt fram eftir síðustu öld.Jóhanna Lúðvíksdóttir.

Þetta varð ljóst í heimsókn sjónvarpsmanna á bæinn síðsumars 1975 og að áliðnum vetri 1976 og er varðveitt í þætti, sem tekinn var upp þá, auk stuttrar frásagnar í bókinni "Fólk og firnindi" af íbúunum á bænum, henni og bræðrunum Stefáni og Sighvati Ásbjörnssyni. 

Jóhanna var af fátækum komin og amma Stefáns tók hana í fóstur. 

Hún var falleg, góð og vel gefin stúlka og hefði á okkar tímum átt möguleika á að hljóta ekki þau örlög sem fátækt, skortur og basl skópu oft fólki fyrir einni öld.  Guðmundarstaðir,íbúar 75

Framhaldsmenntun var óhugsandi fyrir hana, allir af hennar stigum urðu að erfiða og sætta sig við strit og langan vinnudag.

Á banabeði fósturmóður hennar lofaði hún velgjörðarkonu sinni að verða við hennar hinstu ósk, að hún annaðist heimilishaldið fyrir bræðurna Stefán og Sighvat Ásbjörnssyni, sem voru einhleypir alla sína tíð.

Stefáni sagðist svo frá:

"Jóhanna tók síðar að sér ellefu börn og kom þeim á legg auk þess sem hún tók til sín börn úr héraðinu og kenndi þeim. Hjá okkur hefur hún verið til að launa ömmu minni fóstrið." 

Vopnafjarðarhreppur styrkti á þessum árum efnilega fátæka unglinga árlega til framhaldsnáms og hafði Stefán orðið fyrir valinu eitt árið. 

En hann bilaðist í M.A. meðal annars í ástarsorg, klúðraði náminu og skammaðist sín svo mikið, að hann lokaði sig, bróður sinn og Jóhönnu í raun inni á Guðmundarstöðum, stöðvaði klukkuna við árið 1910, tók meia að segja upp gamla íslenska ljáinn og hreyfði ekki við neinu á bænum, sem var að hluta til úr torfi. 

Þarna lifðu þau þrjú í rafmagnsleysi án þess að hreyft væri við þúfu í ósléttu og bröttu túninu og heyjuðu upp á gamla mátinn, með því að slá með ljá og orfi, raka með hrífum, binda í bagga og reiða heyið á 23ja ára gamalli og lúinni meri upp í hlöðuna. 

Eina rafmagnið á bænum voru rafhlöður í útvarpstæki og litlu sjónvarpstæki. Í eldhúsinu var ekki einu sinni svo mikið sem uppþvottagrind. 

Merin var svo afkastalítil að þeir settu stóran hluta af heyinu í stæður úti á túni og roguðust með það heim á bakinu smátt og smátt fram á næsta vor. 

Kýrin var við aldur og mjólkaði sáralítið. Það var lifað frá hendinni til munnsins og þeir skulduðu aldrei krónu alla ævi, hvernig sem áraði. 

Jóhanna þurfti að vinna öll húsverkin í hrörlegum bænum án minnstu nútímaþæginda, við sömu kjör og höfðu verið löngu fyrr. Kveikja eld á daufum lömpunum og kveikja upp í kolaeldavélinni og elda og síðan að "fela eldinn", leggja á borð og vaska upp, þrífa og skúra og nota bala til að þvo allan fatnað og rúmfatnað.  

Hún var orðin mjög lúin, bogin og þreytt, hreyfingarnar orðnar hægar og máttlitlar, en sagðist aðspurð enn geta klárað verkin "svona smátot og smátt." 

Sjónin var orðin döpur, svo að hún gat ekki lesið neitt að gagni og átti erfitt með að sauma. Þegar rignir er breitt plast yfir rúmið hennar því að húsið lekur mest þar sem hún sefur. 

Með því að bera saman tvær ljósmyndir af henni á mismunandi aldri sést vel hvernig lífið hafði leikið hana. 

Spurð að því hvort hún færi aldrei neitt af bænum sagðist hún aldrei fara neitt. 

Hún var spurð hvað henni hefði fundist leiðinlegast um ævina. 

"Mér hefur alltaf fundist eldhúsverk heldur leiðinleg" svaraði hún með hægð. 

Jahá, einmitt það sem hafði samt hlutskipti hennar sem ævistarf.

En hvað fannst henni skemmtilegast, úr því að hún fór aldrei neitt af bæ? 

"Mér finnst skemmtilegast að fara út á tún í heyskap í góðu veðri á góðri stundu" svaraði hún.

Þegar við komum á bæinn veturinn eftir og spurðum hana hvort hún hefði ekki tekið sér frí á kvennafrídaginn nokkrum mánuðum fyrr, svaraði hún neitandi. Það var óhugsandi. 

Hún gat ekki komist yfir skyldustörf sín nema "smátt og smátt", þrotin að kröftum. 

Í þessari heimsókn tók ég eftir þvi að upp við horn á torfvegg skammt frá útidyrunum stóð hrífa, sem hafði líka staðið þar sumarið áður. 

Ég spurði Stefán hver ætti þessa hrífu. 

"Jóhanna á þessa hrífu." 

"Af hverju stendur hún þarna, alveg eins og hún stóð í fyrrasumar." 

"Það er af því að Jóhanna á hana og við snertum aldrei neitt, sem Jóhanna á." 

"En af hverju fer Jóhanna þá ekki með hana inn?"

"Af því að hún fer aldrei út úr bænum og hefur ekki notað hrífuna í mörg ár." 

Hringnum lokað. Þannig var komið fyrir henni, að hún komst ekki yfir öll skylduverk sín nema vinna við þau "smátt og smátt" frá morgni til kvölds eftir því sem þrekið leyfði.

Hún hafði ekki í mörg ár haft tök á að gera það sem henni fannst skemmtilegast, "að fara"út á tún í góðu veðri í heyskap á góðri stundu." 

Svona var ævi Jóhönnu Lúðvíksdóttur þar til skammt lifði af liðinni öld.

Nafn hennar, persónan sjálf og örlög hennar, eru eitt af því ógleymanlegasta sem á fjörur mínar hefur rekið. 

Eitthvað, sem hitti svo sterkt í hjartastað og gerir það enn.  

Það er ekki lengra síðan.  


mbl.is Samstöðufundur á Arnarhóli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Falleg frásögn Prýðilega vel skrifað.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 24.10.2018 kl. 21:36

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk. Er búinn að lagfæra hana síðan þú skrifaðir þessa athugasemd og setja tvær myndir inn. 

Ómar Ragnarsson, 24.10.2018 kl. 22:11

3 identicon

Takk fyrir þessa frásögn, Ómar, sem hrærir við mörgu hjarta.   Var einmitt að lesa frásögn annars manns af ótrúlegu harðræði, sem fátæk fjölskylda á Ströndum norður var beitt um miðja síðustu öld. Frásögnin er skráð af Jóni Hjartarsyni, fv. skólastjóra og heitir Kambsmálið.

G. Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 24.10.2018 kl. 22:28

4 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Hafðu þökk fyrir fagra og hrífandi frásögn, Ómar. Þær voru margar Jóhönnurnar, á síðustu öld og öldum þar á undan, sem sökum skyldurækni og ótrúlegrar elju komu mörgum manni og konu á legg. Tíðarandinn bauð ekki upp á annað, því miður.

 Hlutur kvenna í sögu Íslands hefur allt of lítinn gaumur verið gefinn. Vonandi rætist úr því og okkur öllum einn daginn ljóst hvurslags afbragðskonur þessi þjóð hefur átt, sem í örbyrgð sinni, en umfram allt skilyrðislausri umhyggju og trúfestu, komu kynslóðum á legg, með elju sinni, ást og endalausri fórnfýsi, í sveita síns andlits, án þess að krefjast nokkurs í staðinn, nokkurn tímann. 

 Saga Jóhönnu Lúðvíkssóttur er gott dæmi, en þær voru svo margar Jóhönnurnar, sem enginn man og gleymast, ef ekki er rifjuð upp harðræðisævi þeirra. 

 Ævisaga Tryggva Emilssonar er t.a.m. stórkostleg lýsing á afrekum, en einnig dauða kvenna, sem enginn man lengur. Synd að sjá hve nútíminn metur lítils, það sem á undan er gengið.

 Góðar stundir, með kveðju að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 25.10.2018 kl. 01:30

5 identicon

Tek undir orð þín Ómar,alltof margar hvunndagshetjur eins og Jóhanna hafa tapast í gegnum aldirnar,en svona voru kjör meiri hluta kvenna, sorglegt að svona hlutskipti skyldi vera enn til staðar á Íslandi fyrir um 40-50 árum. Takk fyrir að skrifa þessa áhugaverða pistil og vekja okkur til umhugsunar.Guðmundarstaðir og fólkið þar var í minni sveit, ekki minnist ég að hafa sé Jóhönnu nema á mynd, bræðurna hafði ég séð þegar þeir komu einstaka sinnum í kaupstað og í Búðina þar sem ég vann,frekarst var það Stefán sem oftast kom.Þeir voru frændur mínir í móðurætt(þeir og mamma voru systrabörn).En lítill eða nánast enginn samskipti við þá,því ekki voru þeir daglegir gestir í Þorpinu.Þegar svo Þátturinn þinn kom í sjónvarpinu má segja að ég hafi fengið nýja sýn á þessa frændur mína.seinna fluttu þeir í Heimili aldraða Sundabúð og áttu farsælt ævikvöld.Takk enn og aftur að heiðra minningu Jóhönnu Lúðvíksdóttir og allra hennar kynsystrum.

Birgitta Guðjóns (IP-tala skráð) 28.10.2018 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband