Lygilegar framfarir í smíði rafbíla. Koma "rafkerrur"?

Aðeins nokkur misseri eru síðan Nissan Leaf var með 24 kwst rafhlöður. Þótt uppgefin drægni væri ríflega 160 kílómetrar var sú tala miðuð við hámarks "sparaksturs"kúnstir, 20 stiga hita, logn og láréttan veg. 

Ég þekkti sumarbústaðaeiganda sem upplifði hins vegar allt niður í 100 kílómetra drægni og enn minna í frosti með miðstöðina á, og fylltist stundum fyrirbæri, sem kalla mátti drægniskvíða. 

Bandaríska mælingin EPA var nær lagi, 135 kílómetrar, en samt of bjartsýn, því í 10 stiga frosti fellur drægnin um 30%, við bætist miklu meiri orkueyðsla á miðstöð en á bensínbíl, og hraðhleðsla dregur 20 prósent af drægninni, svo að þetta gat farið niður í 80 kílómetra, og sumarbústaðurinn við Hellu orðinn of langt í burtu. 

En síðasta kynslóð rafhlaðna er núna að færa okkur næstum því þrisvar sinnum meiri drægni í samræmi við allt að 64 kwst í stað 24. 

Þetta er svo mikill munur í praxis í þjóðvegaakstri, að það jaðrar við byltingu. Tölur um 4-500 kílómetra drægni eru að vísu langt umfram raunveruleikann, en samt ættu nýju rafbílarnir með þessum rafhlöðum að geta bankað í um 300 kílómetra drægni á góðum degi. 

Það þýðir að geta ekið milli Reykjavíkur og Akureyrar á svipuðum tíma og með svipuðu öryggi og eldsneytisdrifnir bílar og eiga samt raforkuafgang á endastöð. 

Í stað skammdrægra bíla, sem er oft eru eins og hundar í bandi, er til dæmis að koma fram Kia e-Niro, sem er 204 hestöfl og með upptak 0-100 km/klst á aðeins 7,8 sekúndum. 

Þessi Kia er skyldur Hyondai Kona, en með meira innanrými. 

Nýju rafbílarnir eru með rafhlöðum sem eru talsvert fyrirferðarminni miðað við afl en hinar eldri,en eru þó heldur þyngri, og bílarnir með þeim heldur dýrari. 

En það mun líklega breytast eftir því sem þessum bílum fjölgar.  

Á toppnum núna hvað drægnina varðar, verða Nissan Leaf, Hyonda e-Kona, Kia e-Niro og Tesla 3, en vaxandi samkeppni og öflugri rafbílar geta valdið því að fram komi nýir keppinautar um mestu drægnina. 

Það atriði er lang mikilvægast varðandi rafbíla, því að rafmagnslaus rafbíll er í svipaðri stöðu og bilaður eða bensínlaus benínbíll.  

Ég sé fyrir mér möguleikann á að auka drægnina allt að því tvöfalt með því að hanna nokkurs konar "rafkerru", sérsmíðaða kerru sem er eingöngu með viðbótarrafmagni, sem nota má á langferðum. Kerra með 64 kwst þyrfti ekki að vera þyngri en 5-600 kíló og létt í drætti. 

Slíkt gæti komið sér vel á hinum eldri rafbílum. 


mbl.is Tveggja ára bið eftir e-Niro
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ljómaði upp þegar ég sá þessa hugmynd. Ég er kominn nálægt áttræðu og er frekar þreklítill. Hef síðustu 10 ár notað létta kerru mér til hægðarauka við garðverk, slátt, jarðvegsskipti o.fl. Hún er með nefhjóli eins og á hjólhýsi. Frábært væri að hafa einfalt rafdrif á henni þannig að ég þyrfti ekki annað en að stýra henni um garðinn.

Sverrir Hjaltason (IP-tala skráð) 5.11.2018 kl. 08:41

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rafkerra aftanan í rafbíl er byggð á því hvernig það tókst með birgðakerrum aftan í jöklajeppum að komast á slíkum jeppum yfir Grænlandsjökul vorið 1999. 

Rafkerra aftan í rafbíl hefur líka þann kost, að það er afar einfalt mál að setja á hana rafmótor og drif vegna þess hvað slíkur búnaður er sára einfaldur.  

Ómar Ragnarsson, 5.11.2018 kl. 14:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband