Stór spurning í ferð Íslendinga yfir Grænlandsjökul 1999.

Í ferð á þremur jöklajeppum yfir Grænlandsjökul í maí 1999 undir forystu Arngríms Hermannssonar komu upp tvö mál, sem vörðuðu það hvort hinir erlendu gestir á "Grænlandsgrund" ættu að grípa inn í dýralíf og aðstæður. 

Þessi atvik koma aftur upp í hugann þegar framundan verður 20 ára afmæli þessa leiðangurs, hins eina af sínu tagi í sögunni, sem verður væntanlega ekki endurtekinn. 

Hann var farinn á sömu forsendum og þær jöklajeppa um Suðurskautslandið sem farnar voru og hafa verið farnar síðar. 

Fyrra atvikið var, að 80 kílómetra inni á jöklinum ókum við fram á deyjandi og örmagna sleðahund. 

Augljóst var að forsvarsmenn sleðaeykis, sem við höfðum mætt nokkrum klukkustundum fyrr og var á leið yfir jökulinn á móti okkur, höfðu annað hvort skilið hundinn eftir eða hann orðið viðskila við eykið. 

Það var útaf fyrir sig erfið ákvörðun, sem þurfti að taka. Annað hvort að taka hundinn með okkur með þeim erfiðleikum og vafaatriðum sem slíku fylgdi, eða að grípa, sem erlendir gestir, ekki inn í það sem væri að gerast í þessu hrikalega stóra landi. 

Við gátum ekki vitað hvort hundurinn var með einhverja pest, sem hefði gert hann örmagna, og ákváðum því að grípa ekki inn í. 

Síðara atvikið gerðist við jökulröndina í enda leiðarinnar eftir ferðina yfir. 

Þá fór ég í gönguferð með kvikmyndavélina frá náttstað okkar og gekk fram á deyjandi nýfæddan hreindýrskálf, sem hafði orðið viðskila við móður sína. 

Enn og aftur var það erfið stund að taka ákvörðun um örlög kálfsins. Þetta var nokkrum tugum kílómetra innan við alþjóðaflugvöllinn í Kangerlussuaq (Syðri-Straumfirði) en á þessu svæði var engin byggð og engir hreindýrabændur. 

Illmögulegt ef ekki ómögulegt var að taka þetta stórt dýr með okkur. Ekki man ég lengur hvort byssa var með í þessari för. 

Niðurstaðan varð því að skipta sér ekki af því sem væri að gerast í hinu framandi landi.

Þegar ég kom til baka úr gönguferðinni brá mér í brún. Ætlunin hafði verið að grilla kjöt og slá upp smá grillveislu í lok alveg einstaklega erfiðri baráttuferð niður langstærsta skriðjökul sem við höfðum kynnst. 

En þegar ég kom til baka, lágu leiðangursmenn eða sátu sofandi þar sem þeir voru staddir. 

Grillkjötið lá brunnið til ösku og Ingimundur skrásetjari ferðarinnar sat sofandi á stuðara eins jeppans með ferðabókina á hnjánum, líkt og úðað hefði verið yfir hann einhverju efni, sem hefði fryst hann. 

Allir voru örmagna eftir tuga klukkustunda baráttu við hinn hrikalega sprungna jökul og það hefði aldrei verið hægt að fara að sækja hinn deyjandi kálf.  

Fróðlegt væri að vita hvað lesendum þessa pistils finnst um mál af þessu tagi. 


mbl.is Attenborough hefði bjargað mörgæsunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valdimar Samúelsson

 Svona mál verður að láta geranda einan um.Sumir menn geta ekki drepið vegna viðkvæmi. Sumir menn Menn drepa kindur og önnur dýr sem hefta för í göngum aðrir geta það ekki vegna viðkvæmni heldur horfa í hina áttina og láta þau fjara út stundum kveljast en það bara gangur málsins.

Svo eru dæmi um að menn drepa samkvæmt skipun hins opinbera eins og í Tálknafirði fyrir nokkrum árum. Það gat ég ekki skilið. Heimamenn á Grænlandi hefðu drepið bæði þessi dýr og jafnvel notað í fóður fyrir hunda en það er algengt að drepa slasaðan eða veikan hund í Eskimóalandinu.  

Valdimar Samúelsson, 20.11.2018 kl. 12:49

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þegar menn leggja fram óþægilegar spurningar, ábendingar eða gagnrýni á pistla þína, Ómar, eins og við síðasta Trump-pistilinn hér á undan, þá lætur þér einkar vel að fara bara að tala um eitthvað annað, ef ekki um veðrið, þá um ferðamál, bíla, tónlistarmál, skemmtikrafta eða hvað sem er! Fjölhæfur skríbent, en ekki minn sérfræðingur um Trump!

Jón Valur Jensson, 20.11.2018 kl. 13:22

3 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Jón, Ómar hefir alltaf verið frjór og kvikur en það breytist ekkert.:-)  

Valdimar Samúelsson, 20.11.2018 kl. 14:50

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Frá upphafi, 2007, hefur það verið stefnan á þessari síðu að fjalla um sem fjölbreyttust málefni, og var því reyndar lýst yfir í upphafi. 

Það er langsótt að álykta sem svo að það að síðuhafi sé með þvi á stanslausum flótta undan hverju því máli, sem hann skrifar um. 

Ómar Ragnarsson, 20.11.2018 kl. 15:24

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég skrifa þennan pistil kl. 10:52 en þú athugssemdina við Trump-pistilinn kl. 10:59, sjö mínútum seinna. Húsarinn fylgir síðan í kjölfarið. 

Hvernig í ósköpunum átti ég að vita um þessar "óþægilegu athugasemdir þegar ég skrifaði þennan pistil?  

Ómar Ragnarsson, 20.11.2018 kl. 15:31

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Gott og vel, þú vinnur í þetta sinn!

Jón Valur Jensson, 20.11.2018 kl. 15:55

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég hefði lógað dýrunum. Vildi að mér væri sjálfum lógað við sömu aðstæður.

"They shoot horses, dont they?"

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.11.2018 kl. 17:38

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk fyrir, Jón Valur. En um mig og alla gildir enska orðtakið: "You win some and you lose some."

Ómar Ragnarsson, 20.11.2018 kl. 20:17

9 identicon

Sæll Ómar.

'Frammistöðuvandi' þinn er tilfinnanlegur
en ævinlega og alltaf fyrirsjáanlegur
þegar pistlarnir gerast höfundi sínum óþægilegir.

Húsari. (IP-tala skráð) 20.11.2018 kl. 20:20

10 identicon

Sæll Ómar.

Það er svo trúlegt eða hitt þó heldur
að menn leggi á Grænlandsjökul án þess
að hafa byssu í farteski sínu.

Það er hreinasta viðurstyggð að skilja helsærð dýr eftir
en tæpast hefur þú verið yfirkominn af því fyrst
þú manst ekki einusinni hvort byssan var til staðar eða ekki.

Húsari. (IP-tala skráð) 20.11.2018 kl. 20:45

11 identicon

Var einhver útblástursmengun frá ykkur félögunum í þessari ferð?cool

Sigurður Bjarklind (IP-tala skráð) 21.11.2018 kl. 09:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband