Kílóin, sem skipta svo miklu máli fyrir okkur, hvert og eitt.

Kílóið, þessi mikilsverða þyngdareining, leikur stórt hlutverk í lífi okkar allra.

Hér er smá hugleiðing um gildi hvers kílós í grunnfarartæki hverrar manneskju í anda viðleitni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til að glíma við aukakílóin:  

Eitt mikilvægasta atriðið í lífi hverrar manneskju er getan til þess að geta fært líkamann, bústað hverrar sálar, úr stað til þess að gefa færi á eftirsóknarverðri eða nauðsynlegri upplifun eða staðsetningu í gegnum skynfærin. 

Síðuhafi hefur allt frá átta ára aldri skráð niður tölur varðandi möguleikann á hraða líkamans fyrir eigin afli, síðustu 30 árin af nördalegri nákvæmni.  

Fyrsta talan var tekin á skeiðklukku skammt frá bernskuheimilinu, 17 sekúndur að hlaupa 60 metra. 

Síðar komu betri tímar á næstu árum í sveitinni, 17 sekúndur 100 metrarnir og 1 mínúta og 44 sek 400 metrarnir. 

Notuð var þríhyrnd stika sem frændinn í sveitinni hafði smíðað og var með einn metra á milli tveggja arma, hugvitsamleg smíð hjá Runólfi Aðalbjörnssyni í Hvammi í Langadal. 

9,5 sek á 80 metrum komu á drengjanámskeiði á Melavellinum 1954 og 11,6 á 100 metrum á drengjameistaramóti 1958. Fór niður í 11,2 1964. 

Ári síðar tók það tæpar sekúndur að hlaupa frá 1.hæð upp á 12. hæð í Austurbrún 2, jafnhratt og hraðari lyftan. Þetta eru 1l hæðir nettó. Líkamsþyngdin var innan við 70 kíló á þessum árum og þetta var leikandi létt.

Um 1990 var þráðurinn varðandi samfelldar mælingar tekinn upp og hefur verið fylgst með stigahlaupsgetunni síðan og haldið bókhald til þessa dags um tímann og líkamsþyngdina. 

Þá tók það 55 sek að hlaupa frá 1. hæð upp á 14. hæð í blokkinni á Sólheimum 23. 13 hæðir nettó. 

Aldurinn hafði sín áhrif, kominn á sextugsaldur, en líkamskílóin, nú orðin tæplega 80, ekki síður. 

Senn liggur fyrir bókhald í 30 ár varðandi þverrandi getu í viðureigninni við Elli kerlingu, skráð tvisvar í viku.  

Síðasta hundrað metra hlaupin með tímatöku á skeiðklukku var nálægt 65 ára afmælinu, 15 til 16 sekúndur. 

Þá voru hnén orðin uppslitin, aðgerð á hné í þriðja sinng, og í gildi fór bann við hlaupum að læknisráði. 

En hann bannaði ekki að læðast hratt, og hlaup upp stiga slítur ekki hnjánum, heldur styrkir þau. 

Síðan 2013 hefur talan í stigahlaupinu verið innan við 30 sekúndur frá kjallara upp á fjórðu hæð í blokk við Spöngina. 4 hæðir nettó.

Þetta er sami tíminn og 11 hæðir nettó 1960.  

Þegar litið er á bókhaldið er áberandi, að þverrandi geta fer ekki alltaf línulega niður í beinni línu, heldur koma skeið með svipuðum tímum, eins konar láréttar tröppur, en síðan lítilsháttar hnignunartímabil í þrepum. 

Nú er hafið áhugavert tímabil, að skoða betur áhrif þyngdar á tímana. Nú er það hvert kíló, sem telur. 

Það sem skekkir oft heildarmyndina yfir löng tímabil er, hve mörg sekúndubrot eða sekúndur "aukakílóin" kosta. 

Nú er kominn einn mánuður af skipulagðri grenningu, þar sem í stað óreglulegrar vigtunar, er vigtað tvisvar á hverjum sólarhring, á morgnana og á kvöldin. 

Reynslan er nefnilega sú, að í svona langhlaupi er helst hætta á bakslögum og truflunum, ef þyngdarmælingarnar eru of strjálar. 

Þegar maður horfir á vigtina tvisvar á dag verður engin leið að plata sjálfan sig á forsendum ónákvæmrar vigtunar. 

Lyftingamenn persónugera stöngina með lóðunum. Í þessari nýju tilraun reynist það síðuhafa vel að persónugera vigtina og hafa hana þannig staðsetta, að hún sjáist úr sætinu við matarborðið eins og eftirlitsmaður, sem fylgist með innbyrtum hitaeiningum. 

Hún fyrirskipar hóf og nákvæmi í mataræðinu með ströngu augnaráði, lengingu á þeim tíma sem notaður er í ferðalögum á rafreiðhjólinu Náttfara til að nota fótaaflið og að svíkjast ekki um í tíðni stigahlaupa inni í 50 mínútna hraðgönguu. 

Hún áminnir um mælingar í stigahlaupinu tvisvar í viku og að viðhalda getu uppslitinna hnjáa. 

Hún samþykkir skipulagningu og sjálfseftirlit með því að ofgera ekki samföllnu baki og að það sé ekki vænlegt að fara of geyst í grenningunni, heldur að sjá svo um að líkaminn fái ekki tækifæri til að bregðast við léttingu og "sulti" með því að auka hæfnina til efnaskipta. 

Kíló á hverjum tveimur vikum, tvö kíló í hverjum mánuði, er feykinóg. Það þýðir tólf kíló á hálfu ári og 24 á einu ári.

Nú eru kílóin orðin þrjú á einum mánuði og fjögurra hæða hlauptíminn er í fyrsta sinn í fjögur ár alltaf undir 30 sekúndum. 

Of hröð létting er bæði óeðlileg og varasöm. Síðuhafi hefur slæma reynslu af því.

Hann léttist um 16 kíló á þremur mánuðum 2008 af völdum lifrarbrests. 

Þegar því ömurlega tímabili lauk var óskaplega gaman fyrstu dagana á eftir að geta notið þess að éta það sem mann lysti hömlulaust, en lúmsk hætta lá í leyni.

Ef stanslaus vigtun hefði verið viðhöfð hefði verið hægt að grípa í taumana því að það kom í ljós, að líkaminn virtist hafa breytt efnaskiptunum til þess að lifa sultinn af og að 16 kílóin komu til baka á undraskömmum tíma.

Að gera léttingu að samfelldu langhlaupi er skemmtilegt viðfangsefni og gefandi, litar hversdaginn. Að gleðjast þeim mun meira yfir hverjum smábita sem þeir verða færri og smærri. 

Maður hefur sætt sig við að rogast um með 16 aukakíló síðustu tíu árin. Það samsvarar tveimur Bónuspokum með alls átta 2ja lítra flöskum. Þetta gengur ekki. 

Of mikil fórn fyrir breyskleikann og ístöðuleysið.  

Líkami hverrar manneskju okkar eru einu farartækin, sem telja má grunnfarartæki í þessu jarðlífi frá fæðingu til dauða. Heftist geta þessa farartækis þýðir það frelsisskerðingu fyrir andann og sálina, sem eru svo háð stað og stund bústaðarins, sem okkur var gefinn til notkunar í jarðlífinu. 

 

 

 


mbl.is Að vera eða vera ekki kíló
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Bráðskemmtilegt eins og þér er einum lagið af fáum

Halldór Jónsson, 25.11.2018 kl. 10:59

2 Smámynd: Halldór Jónsson

"Líkami hverrar manneskju okkar eru einu farartækin, sem telja má grunnfarartæki í þessu jarðlífi frá fæðingu til dauða. Heftist geta þessa farartækis þýðir það frelsisskerðingu fyrir andann og sálina, sem eru svo háð stað og stund bústaðarins, sem okkur var gefinn til notkunar í jarðlífinu. "

Þetta er snilldarathugun og sannleikurinn

 

Halldór Jónsson, 25.11.2018 kl. 11:00

3 identicon

Sæll Ómar.

Ég er ósammála ykkur vinunum: Ekkert það er til
sem heftir andann og sálina og fátt er jafn
gjörsamlega laust við stað og stund en
einmitt andinn og sálin.

Hitt mætti kalla útafbreytilega fjötra sem ekkert hafa
með anda og sál að gera svo sem fyrr er greint.

Húsari. (IP-tala skráð) 25.11.2018 kl. 14:20

4 Smámynd: Hörður Þormar

Stundum staulast ég upp tröppurnar í Sólheimum 23. Það verður örvandi tilhugsun að maður gangi þá í sporin hans Ómars Ragnarssonarsmile.

Hörður Þormar, 25.11.2018 kl. 18:29

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þú gerir mér upp skoðun varðandi hugann og sálina, sem ég tel búa yfir eiginleikum og krafti, sem jafnist á við fjórðu víddina, en okkur er misjafnlega gefið að nota, bæði við hugskeyti og móttöku þeirra. 

Ég hef áður lýst þessari hugsun minni hér á síðunni, og lýst því að maður er það sem maður hugsar. 

Það breytir samt ekki gildi efnislegrar staðsetningar og hreyfanleika líkamans fyrir huga og sál. 

Annars væri hreinn óþarfi að æðstu menn þjóða hittust undir fjögur augu, og leikhúsið væri sömuleiðis óþarft.  

Ómar Ragnarsson, 25.11.2018 kl. 18:59

6 identicon

Sæll Ómar.

Grundvallarmisskilningur þinn
liggur í því að þú lítur
á anda og sál sem fasta sem
vitanlega er fjarri öllu lagi.

Og til að lífga aðeins uppá samkvæmið
þá á trúlega 1/3 hluti þjóðarinnar
í mestu vandræðum með að fara með rétt
nöfn þá hæst stendur í stönginni(!)
Þarfnast þetta einhverrar skýringar.
(til hliðar við meginefni pistils)

Allt eins mætti segja að maðurinn er það sem
aðrir vilja að hann hugsi.

Hvað segir ekki í texta þess texta- og lagasmiðs
sem hvað mest áhrif hefur haft á ofanverðri 20. öld
í ljóði sínu Blindsker:

"Og öll þessi ár sem gáfu okkur það
sem aðrir óskuðu sér."

Húsari. (IP-tala skráð) 28.11.2018 kl. 05:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband