Of hljótt er um heilsuspillandi áhrif hljóðs.

Þegar síðuhafi var með reglulega umfjöllun um bíla í Vísi á áttunda áratugnum, tók hann upp þá nýjung að verða sér úti um hávaðamæli og mæla hljóð inni í ýmsum bílum á þjóðvegahraða á 70 km hraða, sem þá var hámarkshraði. 

Hávaðinn var mældur á grófum malarvegum. 

Ástæðan var sú, að á langferðum hafði langvarandi hávaði haft þau áhrif, að lók ferðar voru komin áberandi líkamleg áhrif af hávaðanum í bíl hans, sem þá var af gerðinni Simca 1308. 

Hávaðinn í þeim bíl mældist tæp 90 desibel sem var ansi mikið yfir heilsverndarmörkum. 

Líkamlegu áhrifin af þessum mikla hávaða fólust í þreytu og vanlíðan og því, að þrátt fyrir löngun til að ljúka ferðinni sem fyrst af, hægðist sífellt á bílnum. 

Eina haldbæra skýringin var að í undirmeðvitundinni kæmi fram hættuleg syfja og viðleitni til þess að minnka þennan þreytandi hávaða með því að draga úr hraðanum og helst að stöðva bílinn.

Nú hefur verið upplýst að í stórum hluta íbúðabyggðar í Reykjavík sé hávaði yfir heilsuverndarmörkum. 

Sé svo beinist athyglin kannski að þeirri hávaðaminnkun, sem fjölgun rafbíla mun færa með sér, en þeir hljóðlátu bílar halda þó áfram að vera á hjólbörðum, sem gefa frá sér meiri hávaða en vélar bílanna, og þvi meiri hávaða sem hraðinn er meiri. 

Grófur vetrarhjólbarðar og stórir jeppahjólbarðar gefa frá sér lúmskan og ótrelega mikinn hávaða. 

Góð heyrnartól, sem útiloka hávaða, geta gert mikið gagn, en stundum geta þau valdið hættu, til dæmis varðandi það að gangandi eða hjólandi vegfarendur heyra ekki í aðvörunarbjöllum hjá hjólreiðamönnum eða nauðsynlegar aðvaranir sem gefnar eru með bílflauti.

Aðvörunarbjöllur á reiðhjólum eru ekki hugsaðar sem frekjuleg átroðsla, heldur einungis að skapa það öryggi, sem fest í því að allir fylgist vel með umferðinni. 

Þær eru því miður of lítið notaðar, því að of oft kemur í ljós, að sá, sem átti að aðvara kurteislega er með dúndrandi tónlist í gegnum heyrnartól í eyrunum. 

1954 upplifði síðuhafi þau áhrif sólmyrkva í Langadalnum, að fuglarnir í votlendinu þögnuðu um miðjan dag á meðan á myrkvanum stóð. 

Næstum hálfri öld síðar var farið á sama stað til að ná þessu fyrirbæri á myndband í öðrum sólmyrkva. 

Tvennt gerði þetta að engu. 

Það var búið að ræsa allt land fram og engir fuglar lengur nema nokkrar gæsir við ána. 

En jafnvel þótt þær hefðu verið að garga og síðan þagnað, hefði hávaðinn í umferðinni á þjóðveginum yfirgnæft þær. Hin stóru, breiðu og grófu jeppadekk á tæplega 100 km hraða í þéttri umferðinni gáfu frá sér yfirþyrmandi hávaða. 

Hálfri öld fyrr lötruðu margfalt færri bílar eftir mjóum malarveginum á mest 60 km hraða á mjóum og fínmynstruðum sumardekkjum.  

 


mbl.is Skiptir „noise cancelling“ máli?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Það er rétt athugað hjá þér.

Víða er óþarfa hávaði framkvæmdur algerlega að nauðsynjalausu

t.d. tengt íþrótta-kappleikjum: 

https://thjodarskutan.blog.is/blog/thjodarskutan/entry/2213869/

Jón Þórhallsson, 12.12.2018 kl. 13:21

2 Smámynd: Jón Þórhallsson

Allur óþarfa hávaði leiðir til ills og getur  skapað kvilla hjá fólki

sem að leiðir síðan til aukinnaar vanlíðunnar

sem að gæti síðan endað sem aukinn kostnaður hjá heilsugæslu og skattborgurum:

Jón Þórhallsson, 12.12.2018 kl. 14:08

3 Smámynd: Már Elíson

Ómar...Þú hlýtur að meina "hljóðmæli" en ekki hávaðamæli. - Sá mælir myndi bara mæla hávaða en ekki almennt hljóð. - Legg ég til að þú skoðið alla þá staði aftur þar sem þú notar orðið "hávaði" og notir t.d. orðið "hljóðstyrkur". - Sem getur bæði verið lágur eða "hár styrkur" eftir atvikum. - Hávaði er ein birtingamynd hljóðs en ekki eingöngu.

Már Elíson, 13.12.2018 kl. 19:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband