Háþróuð vinna snillings: Sörli, Perla,Sleipnir o.fl.

Síðuhafi á því láni að fagna að hafa kynnst hugvitsmanni, sem af hógværð og lítillæti fæst við að smíða rafhjól og endurbæta rafbíla, ef sá er gállinn á honum. Fjalla-jeppahjólið Sleipnir er það nýjasta hjá honum og myndin er tekin í reynsluferð um Svínaskarð. Sleipnir í Svínaskarði

Náttfari við Engimýri

Kynnin hófust sumarið 2015. Þá kviknaði hugmynd um að fara á rafhjóli frá Akureyri til Reykjavíkur fyrir rafafli hjólsins sjálfs eingöngu, setja nokkur met í leiðinni og sýna fram á hvað rafmagn er ódýr og sjálfsagður orkugjafi á Íslandi. 

Eigið hjól af gerðinni Dyun, kínverskt en framleitt á Ítalíu fyrir Ameríkumarkað, varð fyrir valinu.

Það er með handaflgjöf og því hægt að nota rafaflið eitt ef svo ber undir. 

Tilraunir hér syðra sýndu, að aðeins var hægt að komast á 250 vatta afli, sem var skilyrði, upp Bakkaselsbrekkuna og tvær aðrar brekkur á leiðinni, sem varð að liggja um Hvalfjörð með því að aka hjólinu zik-sak í svigbeygjum til að minnka hallann. Aðeins var hægt að fara upp hina löngu Bakkaselsbrekku á þennan hátt um miðja nótt í minnstu umferðinni, og því hlaut hjólið heitið Náttfari.

Til þess að útfæra þetta nánar var mér bent á rafeindasnillinginn Gísla Sigurgeirsson, sem gæti hannað stærri rafhlöður á hjólið. Hann gerði það og fimmfaldaði orkugeymdina úr 0,35 kwst upp í 1,75.  

Tilraunaferð frá Akureyri misheppnaðist hins vegar efst í Bakkaselsbrekkunni vegna hita í mótornum sem bræddi lóðningu. Sörli,Bakkasel

En Gísli fann ráð við þessu. Hann átti gamalt og frekar létt og lítið reiðhjól, fimm kílóum léttara en Náttfara, og setti á það 250 vatta miðjumótor, sem ekki hitnaði eins mikið og mótor í teinafelgunni sjálfri og var þar að auki með sex gíra í stað aðeins eins, eins og er á flestum rafhreyflum. 

Hjólið hlaut heitið Sörli og var með sjöfaldaða orkurýmd, alls ca 2,5 kílóvattsstundir. 

Til að öruggt væri að farið yrði á rafaflinu einu festi Gísli pedalana þannig að þeir voru samsíða í stighringnum í stað þess að vera andsætt hvor öðrum.Náttfari í smáherbergi. 

Skemmst er þess að geta að ferðin, sem bar heitið "Orkuskipti - koma svo!" heppnaðist fullkomlega þótt tæpt stæði tvívegis, efst í Bakkaselsbrekkunni og í illviðri í Hvalfirði. 

Sett voru þrjú met sem standa enn:

1. 189 km á einni hleðslu.

2. 207 km á sólarhring. 

3. Akureyri-Reykjavík á 38 klst brúttó (með stoppum og hvíld) en 25 klst nettó.

Á myndinni sést Náttfari inni í litlu skrifherbergi mínu. 

Bílar hafa þann kost fram yfir strætó að komast úr Bónusi með varninginn nánægt útidyrum. 

Rafhjól eins og Náttfari, með alls um 110 lítra farangursrými, kemst hins vegar með varninginn úr Bónusi alla leið að ískápssdyrum. 

Gísli hefur smíðað þrjú önnur hjól, Perlu, sem er svipað og Sörli, tveggja manna hjól og langflottasta hjólið, Sleipni, sem er magnað fjallahjól með aldrifi. 

Hann hefur farið á því um jeppaslóðir á höfuðborgarsvæðinu, um Svínaskarð upp í Kjós og um Kaldadal. 

Hjólið er fyllilega sambærilegt við það besta í bransanum, svo sem rafhjólið Rad-Mini, með öflug rafhreyflaafl og fjöðrun bæðí að framan og aftan og hæfilega stór dekk fyrir fjallaferðir og ferðir á venjulegum vegum.

Þetta er torfæruhjól, jafn öflugt á vegum sem jeppaslóðum. 

Gísli geymir gamlan norskan rafbíl, sem var fluttur til Íslands á sínum tíma og hann á tvo Mitsubishi I-MiEV rafbíla, sem hann hefur útbúið með stórbættu rafgeymakerfi sem gefur ca 50 prósent lengingu á drægni. 


mbl.is Hanna og framleiða sín eigin hjól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Og gleðileg Jól.

Áhugaverð grein.

Gaman að heyra af tilraunum með rafhjól og rafknúinn farartæki, var búinn að heyra af þessari ferð þinni áður.

Rafknúinn fararatæki hef ég skoðað siðan á seinustu öld.

Rafbíllinn sem þú nefnir að Gísli varveiti, er sá bíll frá El-bil Norge ?

Ég var næstum búinn að kaupa bíl þaðan á sínum tíma, löngu áður en rafbílar urðu vinsælir hér.

Tvennt stoppaði mig, engin afsláttur á innflutngsgjöldum og fleiri gjöldum, vantrú allra verkstæða og umboða sem höfu flutt inn rafbíla, t.d. Renlaut rafbíla, sem hingað komu. Ég fékk prufuferð í einum slíkum.

Varðandi rafhjólin, Ómar.

Gæti verið, að vindmótstaða skipti máli, þegar að drægni rafhjóls kemur ?

Til er útfærsla á reiðhjóli sem á erlendu máli er kallað recumbent, við hjólreiafólk höfum reynt að íslenska það heiti sem liggihjól eða leghjól. Hingað hafa komið slík reiðhjol, bæði tvíhjóla og þríhjóla.

Með því að tengja reiðhjólavagn við slík hjól, t.t. BOB-tengivagn, þá mætti mögulega fá farartæki sem væri með litla vindmóstöðu en nokkar burðagetu, t.d. fyrir rafgeyma og farangur.

Jafnvel mætti hafa minni rafgeymi á reiðhjólinu, en fleiri rafgeyma, með meiri orkurýmd í tengivagninum, ef slíkt þarf, t.d. vegna langferða.

Kostir recumbent reiðhjóla er, mun þægilegri staða reiðhjólamanns, minni vindmótstaða, mun betra útsýni, og betri nýting orku reiðhjolamanns, ef hjólað er. Hjólreiðamaðurinn er að nýta aðra, sterkari og samhæfðari vöðahópa, (motor units á fagmáli sjúkraþjálfara) en á hefðbundnu reiðhjóli.

Ókostir recumbent reðhjóla eru, að þau eru oftast sérsmíði, það kostar smá færni að ná tökum á tvíhjóla en þríhjóla er ekkert vandamál. Slík hjól eru fyrirferðameiri í umferð og ekki eins svifasnögg í að víkja sér undan þeim sem vilja aka mann niður í bæjarumferð.  Slikt er þó vani og þjálfun. 

Notkun rafknúinna farartækja hérlendis væri snilld, með tilliti til möguleika okkar á endunnýjanlegri raforkuframleiðslu.  

Akkilesarhæll allra nútíma rafknúinna farartækja er orkurýmd rafgeyma, hvort einhver stór þróun hafi orðið í þeim málum, það skaltu spyrja sérfræðinga um.

Ég er löngu hættur að nota rafhlöður á mínu reiðhjóli, ég bý til orkuna sjálfur, med nafdýnamo frá Schmidt og nota ljós frá Busch og Muller.

Rafhlöður sem ég notaði til lýsingar á reiðhjólinu á seinustu öld, voru til tómra vandræða.

Ég var eitt sinn næstum búinn að tjalda ofan á skilti við ónefnt tjaldstæði á Sprengisandsleið, í myrkri í ágúst, skilti sem bannaði tjaldsvæði. 

Kveðja,

Heimir H. Karlsson. 

Heimir H. Karlsson (IP-tala skráð) 25.12.2018 kl. 18:56

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mannslíkaminn er einhver óheppilegasti hlutur til þess að vera þeytt áfram gegn loftmótstöðu uppréttum, sitjandi eða standandi. 

Þetta sést greinilega á eyðslutölum hjá mér á Honda PCX 125 cc hjólinu mínu. 

Það eyðir að meðaltali 2,2 lítrum á hundraðið innanbæjar en 2,5 lítrum úti á þjóðvegum, alveg þveröfugt við það sem er hjá bílum, sem eyða miklu minna í utanbæjaakstri en innanbæjar. 

Bíllinn, sem við Gísli björguðum á síðustu stundu frá glötun kom fyrst fram undir heitinu Kewet í Danmörku 1991 og var út af fyrir sig ekki svo slæm hugmynd. 

Hann var, eins og rafbíllinn minn, Tazzari, framleiddur í samræmi við kröfur um "heavy quatracycle, ekki þyngri en 450 kíló án rafhlaðna, ekki hraðskreiðari en 90 km/klst og ekki aflmeiri en 15 kw.  

Framleiðslan á Kewet var síðan flutt til Noregs undir heitinu Buddy og framleiddir alls um 15 þúsund bílar. Blýrafhlöðurnar eru lang stærsti gallinn, raunar frágangssök fyrir sakir þyngdar og lítillar endingar. 

Okkur Gísla dreymir um að breyta þessum bíl í lithiumknúinn rafbíl, því að hann er af dýrlegri stærð, aðeins 2,44 m á lengd og kemst því þversum í bílastæði eins og hinn nýi Microlino. Tveir geta setið hlið við hlið í bílnum. 

Ómar Ragnarsson, 25.12.2018 kl. 21:27

3 identicon

Sæll aftur Ómar.

Takk fyrir svarið.

Áhugaverðar tölur, þessar með orkunotkun á Honda hjólinu þínu.

Ég fæ að vitna í þær í umræðu.

Honda hjólið þitt er bæði fallegur og hagkvæmur gripur. Að sjá hjólið hjá þér og þig á ferð, er hvati til að fá sér slíkt farartæki.

Jú, það var einmitt fyrsta og önnur útfærsla af Buddy sem ég var að skoða á sínum tíma.

Þeir hafa þróast nokkuð síðan.

Hingað komu nokkrir af tegund forvera þeirra.

Ég man enn eftir því, þegar danskur forveri slíkra bíla ók fram úr mér á bílaplani verslunar, Kaupangi við Mýrarveg á Akureyri, þegar ég var unglingur.

Ég var á reiðhjól, og allt í einu er bara bíll, eða svoa bíl-líki, svona örsmá lús...(!!)   komin við hliðina á mér, algerlega hljóðlaust.

Sami bíll er í dag geymdur á Ystafelli.

Það var arkitekastofa á Akureyri sem átti slikan bíl, gott ef þeir voru ekki tveir, á sínum tíma.

Ég hef skoðað aðra rafbíla, þennan indverska sem kom hingað.

Hann vildi ég ekki eiga, þó ég fengi hann gefins.

Opel Ampera skoðaði ég.  Sá síðar, að einn af þeim sem var seldur hérlendis féll nokkuð hressilega í verði við endursölu.

Renault rafbíla skoðað ég einnig.

Persónulega tel ég, að rafbíla, sem geyma orkuna í rafgeymum, væri viturlegast að hafa sem minnsta og léttasta.

Stærri og þyngri farartæki, sem knúin eru raforku, jafnvel þungaflutingatæki eða þungavinnuvélar, slík tæki þurfa að vera tengd orkuneti sem sér þeim fyrir orku.

Þannig komumst við hjá vanköntum rafkúna tækja, sem er orkurýmd rafgeyma.

Ég ræddi við eldri mann, frá Hvammstanga, sem átti á sínum tíma bláleitan Kewet rafbíl, sá sama bíl á Akureyri, síðar.

Er bíllinn sem þið Gísli eruð að grúska í, sá bíll ? 

Kveðja,

Heimir H. Karlsson.

Heimir H. Karlsson (IP-tala skráð) 27.12.2018 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband