Skipbrot stefnubreytingar um síðustu aldamót og græðgi elítunnar.

Frá því um 1930 og út öldina voru brýnustu húsnæðisvandamál láglaunastétta og lægri millistéttar leyst með nokkrum átaksverkefnum. Má þar nefna verkamannabústaðina, sem enn standa í vesturbænum og á Rauðárárholti. 

Á fyrri hluta sjötta áratugarins reis Smáíbúðahverfið milli Bústaðavegar og Hringbrautar, og í tvennum kjarasamningum 1964 og 1965 var gert félagslegt stórátak þegar Breiðholtshverfið var byggt. 

Um og upp úr síðustu aldamótum barst hins vegar einn angi Reagan-Thathcer-ismans hingað til lands í formi þeirrar trúar, að félagsleg stórátök væru úrelt og að markaðurinn myndi sjá um eðlilega og nauðsynlega uppbyggingu íbúða, sem láglaunafólk og fólk í lægri millistétt gæti eignast. 

Í Bandaríkjunum voru það öfgar í markaðs- og lánamálum á húsnæðissviðinu, sem skópu jarðveginn fyrir efnahagskreppuna 2008.

Afleiðingar hennar hér á landi voru meðal annars hrun bankakerfisins og þess, að um tíu þúsund heimili urðu gjaldþrota.  

Þessi húsnæðisstefna hefur brugðist illa hér á landi hin síðustu ár, og framundan eru kjarasamningar með afar dökku útliti, því að á sama tíma sem markaðurinn virðist einkum anna þörfum hinna hærra launuðu í húsnæðismálum, hefur efsti hluti tekju- og aðstöðustigans, stundum nefnd elíta, skammtað sjálfri sér launahækkanir og ívilnanir, meðal annars afturvirkt, (forseti Íslands eina undantekningin) í þeim mæli, að mikil undiralda reiði grefur undan stöðugleika og friði í þjóðfélaginu. 

Valdaskipti í stóru láglaunafélögunum eru bein afleiðing ábyrgðarlausrar hegðunar efstu stéttanna. 

Þetta síðastnefnda uppreisnarfyrirbæri má sjá víðar í Evrópu og Ameríku í formi uppgangs róttækra stjórnmálaafla, sem nærast á hvers kyns óánægju og óróa. 

Hér á landi verður það fyrst og fremst á ábyrgð blindrar elítu ef það ástand skapast, að menn þiggja ekki frið ef ófriður er í boði.  


mbl.is Voru byggð á ódýru landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað rugl er þetta!

Dagur er að byggja "ódýrar íbúðir fyrir ungt fólk" í Vatnsmýrinni í samvinnu við Valsmenn

Borgari (IP-tala skráð) 28.12.2018 kl. 11:16

2 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Úthlutun lóða er á forræði sveitarfélaga. Þótt markaðurinn kalli eftir íbúðum, og nógir séu tilbúnir að byggja þær, dugar það ekki til ef ekki er úthlutað lóðum.

Það er því mikill misskilningur að óþarflega miklar sveiflur í framboði húsnæðis séu frjálslyndri efnahagsstefnu að kenna. Þetta er þvert á móti því að kenna að við völd eru pólitíkusar sem neita að byggja upp ný hverfi á ódýru landi líkt og áður var gert, en bjóða aðeins rándýrar lóðir í nafni þéttingar byggðar. Þetta held ég að þú vitir alveg Ómar.

Og sama má segja um hrunið á bandarískum húsnæðislánamarkaði 2008. Það voru ríkisreknir sjóðir, skikkaðir af stjórnmálamönnum til að lána fólki sem aldrei myndi geta endurgreitt, sem áttu meginþátt í því.

Þorsteinn Siglaugsson, 28.12.2018 kl. 13:23

3 identicon

2013 höfðu bankarnir og Íbúðalánasjóður samanlagt leyst til sín 4.645 íbúðir frá ársbyrjun 2009. Þar af voru 666 íbúðir í eigu félaga. 10.000 heimili eru því svolitlar ýkjur og fæstir urðu gjaldþrota.

1994 bjuggu 2,75 einstaklingar í hverri íbúð og 2010 voru þeir 2,43. En frá árinu 2010 hefur þróunin snúist nokkuð við. Á árinu 2014 bjuggu 2,46 í hverri íbúð sem er álíka mikið og var á árinu 2008. Á stór-höfuðborgarsvæðinu bjuggu langfæstir pr. íbúð í Reykjanesbæ á árinu 2014 og næstfæstir í Reykjavík. Þróunin í Reykjavík hefur verið stöðugri en í hinum sveitarfélögunum og nær óbreytt frá 2006. Flestir búa pr. íbúð í Garðabæ og Hafnarfirð. Húsnæðisvandamálið virðist því ekki vera eins mikið vandamál og fjölmiðlar með sínar stríðsfyrirsagnir vilja vera láta. Og sú nýja krafa að fyrsta íbúð sé ódýr, ný og miðsvæðis hefur verið viðurkennd af fólki án gagnrýni.

Valdaskipti í stóru láglaunafélögunum eru bein afleiðing mikillar undiröldu reiði sem grefur undan stöðugleika og friði í þjóðfélaginu. Reiði sem sköpuð er með rangfærslum og blekkingum. Reiði sem sköpuð er til að koma að hlutum eins og Brexit, Trump og nýju herskáu verkalýðsleiðtogunum. Þannig vita þessir nýju verkalýðsleiðtogar vel að framfærsluviðmiðinu er ómögulegt fyrir lægstu launin að ná. Því það er miðgildi eyðslu allra en ekki mælikvarði á lágmarks framfærsluþörf. Samt setja þeir fram þá kröfu að lágmarkslaun nái þessum framfærsluviðmiðum og séu skattlaus. Að útborguð lágmarkslaun verði þau sömu og laun háskólafólks eru nú eftir skatt. Og verði ekki gengið að kröfunum þá sé "elítunni" um að kenna.

"Elítan" sem hefur skammtað sjálfri sér launahækkanir og ívilnanir, meðal annars afturvirkt, stendur nú í málaferlum vegna þess að kjararáð guggnaði á því að veita þeim hækkanir til samræmis við aðra. "Elítan" hefur dregist afturúr í kjörum og, eins og ljósmæður, heimtar sína leiðréttingu. Fleiri munu fylgja í kjölfarið eftir hækkanir lágmarkslauna. Ævitekjur og lífeyrissparnaður verkamanna eru í dag það há að ekki borgar sig að menntast ef starfa á á Íslandi. Handlangarinn er á svipuðum launum og meistarinn. Og í dag sjá háskólastúdentar fram á að við 70 ára aldurinn verði þeir ver settir en sá sem hætti í skóla eftir grunnskóla.

Hábeinn (IP-tala skráð) 28.12.2018 kl. 14:11

4 Smámynd: Örn Einar Hansen

Hvað varðar "hrunið í bandaríkjunum", þá tel ég bæði Sigurð og Ómar hafa ekki alveg rétt fyrir sér. Eða, taka ekki allar breitur með í dæmið.

Árið 1991, fór "Crazy" George II í stríð Í Írak. Þar var fleigt fleiri "pöllum" með miljörðum dollara, sem áttu að fara meðal annars í endurbyggingu landsins og áttu að afla Bandarísku þjóðinni aukinnar vergrar þjóðarframleiðslu og útfluttnings.

Spilling hefur verið í Bandaríkjunum í áratugi. Þessi spilling olli meðal annars að "fölskum upplýsingum" voru settar fram fyrir SÞ um Írak og eigu þeirra á WMDs. Meðal annars, þá hafa menn bent á að 911, fórust skjöl sem sýndu upp á hvarf á meira en 3 biljónum bandaríkjadollara sem voru í ransókn. Hin "óopinbera" skýring er að sjölin fundust á tveimur stöðum, Pentagon og New York. Báðar þessar skrifstofur urðu fyrir árás í 911, og þar með öll skjöl horfin.

Allir þekkja jú gömlu góðu söguna um falsaðar bókfærslu skýrslur bandarískra hersins, þar miljónir hverfa í penna og klósettpappír.

Það er bandaríska ríkið sem í raun, varð gjaldþrota ... vegna þess að Crazy George og hans góði kumpáni Tony Blair vildu verða eins og Rosevelt og Churchill (báðir meira en lítið ding-dong). Þegar slíkt hendir, er það alltaf veikasti hlekkurinn sem fer, þar á meðal bankarnir sem ríkið notaði til að gera verkamönnum kleift að eignast eigið húsnæði (hver man ekki eftir Janes Stewart í What a wonderful life. Þetta hafa bandaríkin gert í áratugi ... en 2008, lauk því og þar með byrjaði "niður" stefna hins almenna bandaríska verkamanns.

Írak, varð aldrei endurbyggt ... nema ISIS, sem byggðist með hjálp af bandarískum vopnum, sem þeir skildu eftir á glámbekk.

Örn Einar Hansen, 28.12.2018 kl. 17:35

5 Smámynd: Halldór Jónsson

"Um og upp úr síðustu aldamótum barst hins vegar einn angi Reagan-Thathcer-ismans hingað til lands í formi þeirrar trúar, að félagsleg stórátök væru úrelt og að markaðurinn myndi sjá um eðlilega og nauðsynlega uppbyggingu íbúða, sem láglaunafólk og fólk í lægri millistétt gæti eignast. "

Þetta heldf ég að sé ekki rétt hjá þér Ómar. Það er verkalýðshreyfingunni að kenna að Verkamannabústaðakerfið lagðist af. Sá snillingur Ríkharður Steinbergsson, algerlega ósjálfhverfur maður, hannaði og byggði ódýrari íbúðir í kerfinu og ég veit ekki af hverju þetta hætti nema vegna afskiptaleysis verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar.

Þetta allt er hægt að endurtaka með því að finna nýjan Ríkharð sem er hugsanlega hægt.

Halldór Jónsson, 28.12.2018 kl. 18:28

6 Smámynd: Halldór Jónsson

Það glötuðu allir sýninni á að einkaframtakið verður að hafa samanburð í opinberum framklvæmdum. Annars er hætta á að menn missi viðmiðið eins og gerðist með kostnaðarvitundina eftir að Verkó hætti

Halldór Jónsson, 28.12.2018 kl. 18:31

7 Smámynd: Halldór Jónsson

Ríkharður var einn alklárasti verkfræðingur sem ég kynntist á minni starfsævi.

Halldór Jónsson, 28.12.2018 kl. 18:33

8 identicon

Blindasta elítan í dag er félagshyggjustjórnin þín í Reykjavík með Dag B. í fararbroddi. 

Hábeinn 14:11 segir annars allt sem segja þarf - takk.

Sigrún Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 28.12.2018 kl. 20:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband