Afi sýndi fermingardrengnum raunveruleikann á gamlárskvöld.

Fram yfir miðja síðustu öld var gamlárskvöld gerólíkt því sem nú er. Yngra fólkið fór á áramótadansleiki þetta kvöld, sem stóðu langt fram á nótt. 

Afi og amma höfðu barnabörnin hjá sér yfir nýársnóttina og síðan komu mamma og pabbi til að sækja þau eftir hádegi á nýársdag. 

Stór hluti unglinga og einhleypra ungra manna stóðu fyrir hálfgerðu óeirðaástandi, einkum í miðbænum. 

Síðuhafi var hjá ömmu Ólöfu og afa Finni á gamlárskvöld, og um fermingaraldur leyfði afi mér að fara með sér niður í bæ til að upplifa þetta furðulega ástand og fá nasasjón af raunveruleikanum. 

Þegar litið er til baka var þetta fáránlegt ástand, hrein villimennska, en lögregla og yfirvöld stóðu ráðþrota þrátt fyrir að allt tiltækt lið væri kallað út. 

Fermingardrengnum þótti magnað að sjá ráðist á lögreglustöðina í Pósthússtræti og rúðurnar brotnar í henni með grjótkasti. 

Sem betur fór fundu menn ráð. 

Á sjötta áratugnum duttu menn niður á það snjallræði að leyfa stórar áramótabrennur, sem fjölgaði hratt með árunum, og þá var eins og botninn færi að detta úr óeirðastemningunni. 

Þetta gerðist undra hratt og óeirðaástandið hvarf að mestu á nokkrum árum. 

Smiðshöggið rak íslenska sjónvarpið með tilkomu sinni 1966 og gerð sérstaks Áramótaskaups strax fyrsta gamlárskvöld sjónkans. 

Með tilkomu þess hurfu áramótadansleikirnir jafn hratt og óeirðirnar rúmum áratug fyrr og í staðinn fór margt fólk að fara út á nýárskvöld í vandaðar áramótaveislur. 

Þetta var alveg mögnuð breyting í heild sinni og sýndi, að það var alveg eins hægt að svala þörf fjöldans á fleiri ein einn veg fyrir því að gera sér dagamun á áramótum.  

 


mbl.is Ein verstu áramótin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

 Góður!

 Eigðu góð áramót og takk fyrir að vera þú.

 Góðar stundir, með áramótakveðjum að sunnan.

Halldór Egill Guðnason, 31.12.2018 kl. 02:28

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk, sömuleiðis, með bestu áramótakveðjum. 

Ómar Ragnarsson, 31.12.2018 kl. 05:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband