"Land, þjóð og tunga; þrenning sönn og ein... " - "..þú veist.." - "..skilurðu?.."

75 ára afmæli íslenska lýðveldisins fylgir á þessu ári í kjölfar aldar afmælis fullveldisins 2018.

Það þýðir áframhald nauðsynlegs mats á stöðu þjóðmála, sem verður að vera grundvöllur framtíðar okkar inn í nýja öld.

Þrjár sterkar meginstoðir, land, þjóð og tunga, verða að vera fyrir hendi.

Landið og einstæð náttúra þess er eðlilega nefnt fyrst í ljóði Snorra Hjartarsonar því að án Íslands er engin íslensk þjóð, og án þjóðar engin íslensk tunga.

"Þrenning sönn og einistans Rasks" bætir skáldið við.

Þörfin á vernd og viðgangi hvers og eins blasir við. Stöðugt er sótt að náttúruverðmætum landsins og íslenskum menningar- og þjóðlífsverðmætum.  

Íslensk tunga hefur síðustu tvær aldir þurft að standa af sér nokkrar atlögur. 

Fyrst var það dönsk tunga sem ógnaði, en undir forystu Rasmusar Christan Rasks, Jóns Sigurðssonar og Fjölnismanna tókst að snúa nauðvörn í glæsilega gagnsókn. 

Um miðja síðustu öld hófst síðan alvarlegri atlaga enskrar tungu að þjóðtungum veraldar, sem sífellt verður skæðari. 

Munurinn dönskunni og enskunni er augljós: Danskan og norrænu frændtungurnar voru og eru jaðartungumál í Evrópu, en enska er að verða alheimstungumál sem sækir að öllum öðrum tungumálum.

Unga fólkið ræður miklu, alveg eins og á tímum Jónasar Hallgrímssonar.

Það gefur menningunni nauðsynlegan sköpunarkraft og þor til að láta því tungutaki og menningu, sem fyrir er, í té áskoranir til að takast á við.

Fyrir 40 árum stóð ógn af innreið textagerðar á ensku í rokk- popp- og pönkbylgjunum, sem riðu yfir. Í kringum 1980 virtist textagerð vera að færast að mestu yfir í ensku.

Þá var gott að fá að vera meðreiðarsveinn í þeirri varnarbaráttu sem Megas, Bubbi, Þorsteinn Eggertsson, Ólafur Gaukur og fleiri ljóðasmiðir háðu til varnar íslenskri tungu.

Núna standa kornungir rapparar vaktina fyrir íslenska tungu, og ekki vantar kraftinn,  ákefðina og framlegðina auk batnandi tónlistar. 

Síðuhafa þykir vænt um þá, fyrsta afurð hans, 12 ára gamals 1953, var rappbragur. 

En önnur hætta og lúmskari steðjar að: Meðferð tungumálsins, framsögn, almennt orðaval og innihald texta.

Stundum er raunar orðið erfitt að skilja textann, sem dregur of oft dám af því sem heyrist í almennu tali, til dæmis í viðtölum. 

Daglegt mál er nefnilega mikilvægur grunnur ljóðagerðar og það er ekki gæfulegt þegar stór hluti hins talaða máls eru merkingarlaust fjas og málalengingar eins og síbyljurnar "...þú veist..." og "...skilurðu?.." sem alltof mörg dæmi eru um að heyra í málfari unga fólksins, jafnvel vinsælum ungstirnum.

   


mbl.is Liður í að bjarga íslenskunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Góður pistill og þarfur boðskapur. Þú átt þakkir skildar Ómar fyrir meðferð þín íslensku máli í gegnum áratugina

Halldór Jónsson, 13.1.2019 kl. 17:23

2 identicon

Tek undir allt sem segir í þessum góða pistli.

Land, þjóð og tunga

Þrenning sönn og ein.

Símon Pétur frá Hákoti (IP-tala skráð) 13.1.2019 kl. 18:01

3 identicon

Bandaríkjamenn tala ensku, Kanadamenn ensku og frönsku og Belgar frönsku. Flestar s- amerísku þjóðirnar tala annaðhort portúgölsku eða spænsku . Þetta eru bara nokkur dæmi um að túngan skiptir engu máli hort um þjóð er að ræða eða ekki. Þetta er ekki einu sinni íslenskan sem við töluðum þegar við komum fyrst við landnám. Íslenskan á eftir að líða undir lok rétt eins og aðrar mállýskur sem tilheyra litlum þjóðum. Til lítils að berjast móti straumnum.

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 13.1.2019 kl. 18:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband