Ekki sama hvernig aðstæður eru varðandi veggjöld

Veggjöld eru notuð víða um lönd til þess að laða fjárfesta að framkvæmdum sem þykja nokkuð örugg fjárfesting. 

Hér á landi eru Keflvíkurvegurinn á sjötta áratugnum, Hvalfjarðargöngin og nú síðast Vaðlaheiðargöngin dæmi. 

Í öllum tilfellum var hægt að haga framkvæmdum þannig, að ökumenn gætu farið gömlu leiðina án veggjalda en eyða í staðinn meiri tíma og með meiri aksturskostnaði. 

Um slíkt fyrirkomulag á ekki að þurfa að deila, ökumaðurinn á val. 

Ef engin veggjöld eru leyfð og framkvæmdin því ekki möguleg, er það slæmt val, því að þá á ökumaðjurinn engan annan kost, guð má vita hve mörg ár, en að fara gömlu löngu leiðina. 

Manni sýnist að Sundabraut gæti orðið dæmi um þetta og sömuleiðis gætu menn farið Þrengslaveg um Óseyrarbrú fram hjá hringveginum.

Ef aðstæður bjóða ekki upp á neitt þokkalegt leiðarval, verður hins vegar að líta á hverja framkvæmd fyrir sig. 

Þess vegna er svo erfitt að segja algert nei við veggjöldum eða algert já. 


mbl.is Veggjöldin eiga nokkuð í land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Sæll Ómar

Ég er á móti veggjöldum og stafar það fyrst og fremst af þeirri ástæðu að ég hef lifað við slíkan óskapnað síðustu tuttugu ár. Hef þurft að greiða slíkan aukaskatt í hvert sinn sem ég hef þurft að fara til höfuðborgarinnar, hvort heldur er til lækninga eða annað. Gamli veginn um Hvalfjörð er vart hægt að telja annan kost og alls ekki á veturna, enda var vetrarþjónusta þar nánast lögð af og önnur þjónusta skert verulega með tilkomu gangnanna. Deila má um hvort göngin væru komin ef ekki hefði komið til einkaframkvæmd, greidd af þeim sem um þau fóru, en hitt þarf ekki að deila um að ef þau ekki hefðu komið væri búið að nota mikið fjármagn til uppbyggingar og viðhalds á veginum fyrir Hvalfjörð.

Vel getur verið að einhverjar aðrar framkvæmdir séu betur fallnar til einkaframkvæmdar og vegskatta. Þó munum við báðir hvernig umræðan var meðan skattur var innheimtur á Keflavíkurvegi og strax er farið að gagnrýna skattlagningu Vaðlaheiðagangna, sérstaklega af þeim sem mest aka þá leið.

Hitt er ljóst öllum sem vilja hugsa, að Sundabraut er með öllu óþörf næstu áratugi. Þarna er verið að tala um framkvæmd sem sögð er kosta hátt í 100 milljarða króna, reyndar eru engar rannsóknir enn hafnar, einungis búið að setja strik á kort, svo þessi kostnaður gæti allt eins orðið mun hærri.

Fyrir 10% af þessari upphæð má taka af öll ellefu hringtorgin í gegnum Mosfellsbæ og gera þar mislæg gatnamót, auk þess að tvöfalda veginn frá gatnamótum Þingvallavegar upp að Móum. Tvöföldun frá Móum inn að göngum mun alltaf kosta það sama, hvort heldur Sundabraut verði lögð eða núverandi vegur gegnum Mosfellsbæ endurbættur. Hin 90% af kostnaði við Sundabraut má síðan nýta til annarra endurbóta, t.d. afnema einbreiðar brýr, færa vegi af fjöllum niður á láglendi þar sem því verður viðkomið og klára að leggja varanlegt slitlag á alla stofnvegi.

Það er ekki fjöldi vega sem skiptir máli, heldur hversu greiðfærir þeir eru, þegar kemur að flæði umferðar og mengun. Það er verið að menga núna margfalt meira en þarf, með öllum þeim töfum sem verða vegna ellefu hringtorga gegnum Mosfellsbæ og tefja þar umferð meira en þarf. Nýjast hringtorgið, sem reyndar er í landi Reykjavíkurborgar, við Esjumela, er þó mesta slysið og ekki annað séð en þar eigi eftir að verða þvílíkar umferðatafir þegar sumarumferðin byrjar. Þarna er sett einfalt hringtorg, mjög krappt og erfitt fyrir flutningabíla, sér í lagi alla þá bíla sem þurfa að komast á Álfsnes. Þegar hefur eitt umferðaslys orðið við þetta hringtorg, innan við mánuði eftir að það var tekið í notkun.

Varðandi flæði umferðar má benda á að við norðurenda Hvalfjarðargangna hefur alla tíð myndast umferðartappi, sér í lagi seinni part sunnudags þegar fólk var á leið í bæinn eftir helgarfrí. Hin síðari ári varð þetta enn meira áberandi og mikil umræða var um þörf á nýjum göngum samhliða þessum. Á einum degi síðastliðið sumar hvarf þessi umferðarteppa með öllu, daginn sem gjaldtöku var hætt. Síðan þá hefur aldrei myndast umferðateppa við göngin.

Sundabraut má bíða.

Gunnar Heiðarsson, 30.1.2019 kl. 02:53

2 Smámynd: FORNLEIFUR

Um allt annað. Ég sá að þú skrifaðir um Guðríði Árnadóttur (Stella) í lok síðasta árs og skrifaðir þar að hún hefði reynt að fara til náms í Þýskalandi árið 1939. Hún hefur ekki sagt þér frá því að hún fór til náms í Baltimore árið 1941?

bestu kveðjur

Vilhjálmur hjá Fornleifi

FORNLEIFUR, 30.1.2019 kl. 13:10

3 Smámynd: FORNLEIFUR

 Biðst afsökunar. Ég var að rugla við Guðríði Árnadóttur Jónssonar, systur Jóns Múla og Jónasar.

FORNLEIFUR, 30.1.2019 kl. 13:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband