Ólíkar samkomur 1. des og 17.júní í N.Y. á þessum árum.

Fjórum sinnum fór síðuhafi til að skemmta Íslendingum í New York 1. des og 17. júní á árunum 1963 til 1969. 

1. des samkoman 1963 var gerólík því samkvæmi sem sjá má á mynd af tíu ára afmælishátíð íslenska lýðveldisins 1954. 

1963 var fullveldishátíðin haldin á hóteli í Queens hverfi og var það býsna eftirminnileg samkoma fyrir þær sakir, að fylleríið varð ansi íslenskt þegar leið á kvöldið og snerist upp í öskur, grát og átök í lokin. 

Sparað var við skemmtiatriðin, og enginn undirleikari með, heldur var því lofað að góður píanóleikari af íslenskum ættum yrði fenginn til að leika undir. 

Í ljós kom, að ætlast hafði verið til þess að Guðrún Á. Simonar gerði það, en hún harðneitaði. 

Voru góð ráð dýr, en með í för var segulbandstæki af Philips gerð og var reynt að glamra brot af undirleiknum inn á band með lélegum árangri. 

Á þessum árum voru fluttar kveðjur Íslendinga erlendis um jólin, að mig minnir á annan í jólum, og tók ég þær upp. 

En ölvun var mikil og sumir viðmælendanna voru ekki viðmælandi þegar að þeim kom.

Út yfir allan þjófabálk tók þó þegar ein konan brast í grát í kveðjunni og ákallaði foreldra sína til að hjálpa sér undan ofbeldi manns síns og barsmíðum hans. 

Heima á Íslandi átti að stytta þessa upptöku hjá ríkisútvarpinu við Skúlagötu, en þar klúðruðum menn því vegna tímaskorts og fór þessi dæmalausa upptaka óklippt út á ljósvakann!

Af því hneyksli hlutust umræður, sem urðu til þess að þessar kveðjur um jólin voru lagðar niður.

1965 var samkoman stórglæsileg og ekkert til sparað. Sigurður Helgason forstjóra Loftleiða  var þá formaður og ekkert minna dugði en sjálft Hótel Valdorf Astoria, undirleikari var með og öll aðstaða í hæsta gæðaflokki. 

17. júní 1969 var hins vegar allt annar bragur. Samkoman fór fram utan dyra í eins konar "picnic" fyrir utan borgina og öll aðstaða til flutnings skemmtiefnis bágborin, enda var veðrið óhagstætt. 

Á miðjum níunda áratugnum var farið með undirleika og eiginkonur okkar Hauks til hátíðahalda bæði fyrir Íslendinga í Washington og New York, og heppnaðist það vel. 

Á síðari árum hafa gerbreyttar þjóðfélagsaðtæður, tilkoma netsins og breyttar samgöngur bitnað á Íslendingafélögunum, og hófst sú þróun í byrjun þessarar aldar.  


mbl.is Fagnaði 10 ára afmæli lýðveldis Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband