25 falt óréttlæti hið minnsta.

Ísland átti aungvan min meðal vestrænna þjóða nema Færeyinga þegar óheyrilegum þrýstingi var beitt á okkur í upphafi Icesave-samninganna. 

Það verður að meta aðgerðir íslenskra embættismanna og Alþingismanna með hliðsjón af ástandinu á hverjum tíma, því að tíminn vann með okkur. 

Eina leiðin til að berjast gegn þessu var að nýta sér alla möguleika, sem gáfust til að tefja málið og draga það á langinn, og nota þann tíma vel til að benda á hið mikla óréttlæti, sem fólst í því að pína hvern íslenskan skattgreiðanda til að borga 25 sinnum hærri upphæð vegna Icesave heldur en hvern hollenskan eða breskan skattgreiðanda. 

Það var heldur betur "Versala-samninga"svipur á þeirri kröfu. 

Tvöföld töf vegna beitingar málskotsréttar forseta Íslands kom sér vel og gaf dómendum í EFTA-dómsstólnum tíma til að finna tæknilega röksemd, sem okkur sjálfum hafði sést yfir, til þess að eyða kröfunni á okkar að fullu og öllu. 

Tíminn, sem gafst, gerði það líka mögulegt að komast út úr eins konar brunaútsöluástandi á erlendum eignum Landsbankans og fá meira fyrir eignirnar en leit út fyrir í upphafi. 


mbl.is Icesave var á máli Versala-samninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þú ert ótrúlegur, Ómar Ragnarsson! Léttilega stóð til að samflokksmenn þínir, þingmenn Samfylkingar, slyppu hér hjá skömminni! En ekki meðan ég má mæla!

Orð þín: "Það verður að meta aðgerðir íslenskra embættismanna og alþingismanna með hliðsjón af ástandinu á hverjum tíma, því að tíminn vann með okkur. Eina leiðin til að berjast gegn þessu var að nýta sér alla möguleika, sem gáfust til að tefja málið og draga það á langinn ..." eru ekki trúverðug, hvað Samfylkingu snertir, og ná sízt utan um sviksamlega og kaldrifjaða uppgjöf Jóhönnuflokksins og Steingríms-bandingjanna í Icesave-málinu.

Svo þarftu að gera hér nánari grein fyrir þeirri "tæknilegu röksemd", sem þú telur, að okkar eigin varnarmönnum í málinu hafi "sést yfir".

Að lokum ber að minna á, að eignir Landsbankans voru ekki okkar eignir, heldur einkafyrirtækis, ekki frekar en skuldir hans væru okkar skuldir.

Hér er mitt ýtarlega og rökstudda viðbragð á vef Þjóðarheiðurs við þessu stórkostlega Morgunblaðs-viðtali við fyrrv. forseta EFTA-réttarins:  

Ices­a­ve-samn­ing­ar Svavars, Steingríms J. og Jóhönnu voru skrifaðir "á óviðeigandi máli Versala-samn­ing­anna, tungutaki einræðis". Afhjúpandi viðtal við lykilmann!

Gangi þér svo allt til heilla, vinur. Passaðu þig á flokksþægninni. Það gerði ég 2009, þegar ég gekk úr Sjálfstæðisflokknum vegna svika Bjarna Ben. formanns og taglhnýtinga hans á þingi í Icesave-málinu.

Jón Valur Jensson, 28.2.2019 kl. 16:35

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ómar góð grein gott og rétt hjá þér en ég hef oft hugsað hvernig þjóðir missa vini sína. Hvað gerðum við rangt. Vorum við eins og litlit hvolpar alltaf gjammandi þegar stóru valdablokkirnar voru að semja. Storkuðum við stórþjóðum eins og bandaríkjamenn ekki bara vegna sendiherra og riddara kross málið en hvað getur verið meir móðgandi. Málefnið vegna NATO í kef þar sem við heimtuðum og hótuðum þar til menn hreinlegast gáfust upp. viðskiptasamning okkar vegna fiskafurða en seljum ívilnanir okkar til Kanadamanna sem höfðu engar í USA á þeim tíma.    

Valdimar Samúelsson, 28.2.2019 kl. 16:45

3 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður nafni, þetta er ofsalega aum eftiráskýring hjá þér.

Í stað þess að viðurkenna að þú taldir að þessir samningur væru það illskásta í stöðunni, og reyndar ef ég man það rétt, og á ákaflega auðvelt með að sanna, að þú taldir það vera rétt að pabbi minn og tengdapabbi borguðu þessa meinta skuld auðmanna. 

Ég á meir að segja vísu eftir þig þar sem þú þó fannst þann flöt að slíkt væri ekki réttlátt.

En þú veist hinsvegar að enginn sá fyrir þá atburðarrás sem endaði með að Ólafur Ragnar virkjaði lítt notað ákvæði stjórnarskráarinnar um málsskotrétt forseta, ekki einu sinn Ólafur Ragnar.

Á þessum tíma fylgdist ég vel með umræðunni, líka netsíðum borgunarsinna, og ég tel að ég hafi átt einn af fyrstu pistlunum þann fyrsta janúar 2010, þar sem ég þakkaði fyrir áramótaskaupið, og taldi að Ólafur ætti engan annan leik í stöðunni en að virða óskir okkar ICEsave andstæðinga um að láta þjóðina kjósa um samninginn.

Því eftir skaupið hefði hann algjörlega verið skoffín í augum þjóðarinnar.

Þetta mál reddaðist að lokum, en það var ekki vegna djúphugsaðs plotts þeirra sem skrifuðu undir Versalasamningana hina nýju, eða börðust fyrir samþykkt þeirra.

Sumir þeirra telja ennþá að þessir samningar hafi verið hið eina rétta í stöðunni, og það er afstaða út af fyrir sig.

En að ljúga aftur á bak, er ekki afstaða.

Kannski í besta falli kattarþvottur.

Og þú veist það nafni minn.

Á einhverjum tímapunktum er alltí lagi að segja "fyrirgefið, ég hafði rangt fyrir mér".

Og slíkt stækkar menn.

Í alvöru.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 28.2.2019 kl. 17:15

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góður Ómar yngri hér!

Jón Valur Jensson, 28.2.2019 kl. 18:16

5 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ómar hef ekki alveg áttað mig á hvað þú varst að fara en sé að skoðun þín er ekki alveg á par við mig. Greinin er vel skrifuð en ekki til að hæla sér á.

Valdimar Samúelsson, 28.2.2019 kl. 19:14

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Verður ekki aðeins að spinna við þetta?

Þó engan heilaspuna, ólíkt sumum!

.

Góður Ómar yngri hér!

Icesave-málið þekkir gerr

en nafni sinn úr Samfó-röð,

er svoddan landsins gleypti kvöð 

með Grímsa Joð og Jóku´ (á tíma?)

sem jánka kusu -- feimin híma

afsíðis, og axarsköft

akademju-prófessora,

með opinn kjaft (en engu þora),

geymast mér í minni enn,

má þann jafnvel nefna senn

sem ekki kaus "að einangrast

eins og Myanmar!" -- þar brast

spádómsgáfu Guðna Jóh,

sem gott þó tryggði Rúvið show

og talrás fyrir Th.-gogginn,

að tróna´ á Bessastöðum rogginn.

* Sjá http://www.visir.is/g/2016160629424

eða hér:  

Icesave og Guðni Th. Jóhannesson

Jón Valur Jensson, 28.2.2019 kl. 20:21

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég fór í það oftar en einu sinni á meðan á Icesave málum stóð að endurbirta ummæli mín hér á síðunni á þeim tíma, sem þau mál voru til umræðu og ég sagði nákvæmlega það sem ég segi nú og hefur verið lýst sem Versalalegum ofríkiskostum. 

Hvað ég ég að þurfa að gera þetta oft? 

Þess má geta ég tók sjálfur úr flugvél minni kvikmyndarskeiðið með bálför að Bessastöðum, sem hefur síðar fest í sessi sem táknrænasta myndskeiðið.  

Ómar Ragnarsson, 28.2.2019 kl. 22:58

8 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður nafni.

Það sem er kannski rangt við að kalla þig Landvætt, er að þú ert svo margt annað, til dæmis Skemmtikraftur, ég held að ég hlæi ennþá í minningunni þegar ég sá þig skemmta okkur krökkunum á sviðinu í Egilsbúð einn dag fyrir löngu, hef aldrei fyrr eða síðar hlegið jafn mikið í því ágæta húsi.  Og þú varst Fréttamaðurinn, sá sem kom landinu inní fréttirnar. Síðan Þáttagerðarmaðurinn, það er ekki svo langt síðan ég renndi einum Stikludisk í gegnum DV spilarann.

Og ég held að þú hafir verið Fréttamaðurinn þegar þú tókst myndskeiðið af blysförinni, og það sem slíkt segir fátt um hvað þú hugsaðir.  Pistlar þín gera þeim hins vegar ágætis skil.

Frá fyrsta degi var ég andstæðingur fjárkúgunar breta, og það var skýring þess að ég hóf að blogga.  Það að vera andstæðingur þýddi líka að ég var andstæðingur þeirrar ríkisstjórna sem vildu neyða þessum ólöglegu fjárkröfu uppá þjóðina, og ganga þannig frá efnahagslegu sjálfstæði hennar um aldur og ævi.  Fyrir mig var þetta erfitt skref, því í áratugi var ég stuðningsmaður þeirra stjórnmálamanna sem voru hvað ákafastir í að greiða, svo sem Jóhönnu Sigurðardóttir og Steingríms J., og allar mínar pólitískar rætur voru vinstra megin við miðju.  Að mínum dómi er það mótsögn að segjast vera á móti grundvallarmáli, og styðja síðan þá sem berjast fyrir því. 

Ég man hins vegar ekki eftir því að þú hafir stigið sama skref og ég gerði og það sem meira er, ég man ekki eftir því að þú hafir skrifað í þeim tón um ICEsave samninga Svavars að þeir væru eitthvað í ætt við Versalasamninga.  Svo ég spurði Gúggla frænda og þetta sagði hann að ég hefði skrifað þann 29. ágúst 2009, að kvöldi þess sorgardags þegar Alþingi samþykkti samhljóða að leggja varanlega skuldahlekki á þjóð sína.

"Er eitthvað val í ICEsave deilunni???

Nei það er ekkert val.

Íslenska ríkið hefur aldrei gengist undir þær skuldbindingar sem það er krafið um.  Allar kröfur á hendur íslenska ríkinu eru því ólöglegar.

"Okkur finnst að þið eigið að borga" eru ekki lagaleg rök.  Og allir samningar sem gerðir eru undir þvingunum eru ólöglegir.

En þetta eru skuldbindingar þjóðarinnar fullyrða flestir ráðamenn þjóðarinnar, margir lögfræðingar, prófessor í hagfræði, ýmsir hópar sem láta sig málið varða eins og Indefence hópurinn, forystumenn aðila vinnumarkaðarins og fleiri og fleiri.

En skuldbinding verður ekki skuldbinding þó margir málsmetandi menn fullyrði slíkt.  Skuldbinding myndast aðeins við undirskrifaða samninga þar til lögbærra aðila.  Og hvað þjóðríki varðar, þá þarf bæði að koma til samþykki þjóðþinga viðkomandi landa og það samþykki þarf að standast stjórnarskrá viðkomandi lands. ...Málið er nefnilega ákaflega einfalt.  Það er ekkert val í ICEsave deilunni.  Alþingismenn eins og aðrir þegnar þessa lands þurfa að fara eftir ákvæðum stjórnarskráar Íslands.  Hún leyfði aldrei þessa ótakmörkuðu ríkisábyrgð sem Ísland er krafið um.  Og stjórnarskrá Íslands leyfir ekki ábyrgðarsamning sem stefnir efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar í voða.  ".

Svona skrifuðu andstæðingar ICEsave þessa örlagadaga, og ég veit nákvæmlega hverjir þeir voru, og hverjir ekki.  Auðveldastir við að eiga voru þeir sem lugu lagaábyrgð uppá þjóðina en verra var að eiga við málsmetandi menn sem lögðu minna uppúr henni, og meir uppúr hinni svokölluðu siðferðislegu ábyrgð.

Dæmi um svoleiðis skrif má lesa úr pistli þínum deginum áður, þann 28. sama ár;

"Hjá okkur Íslendingum er framundan er tímabil þar sem allar ákvarðanir verða erfiðar, umdeilanlegar og sársaukafullar. Það krefst rausæisins sem felst í orðum eins og blóði, svita og tárum en það krefst líka baráttuandans sem er skilyrði þess að okkur takist að komast í gegnum þá brimskafla sem framundan eru á siglingu okkar".

Orð sem lögð voru út af frægum orðum Churchils.  Og vissulega skynsamleg orð, en lýsa ekki mikilli andstöðu við þrælasamningana, eru meira svona hvatning um að taka þeim með æðruleysi. 

Hvenær meint andstaða þín við ICEsave kom uppá yfirborðið veit ég ekki, en nokkrum dögum fyrir þína góðu myndatöku af blysförinni að Bessastöðum, má lesa þessa athugasemd þína við bloggpistil sem þú skrifaðir 31 des. 2009.

"Í þessu máli gilda orð Vilmundar um það hvað sé löglegt og hvað sé siðlaust.

Þeir sem tala um að við eigum ekki að borga neitt af því að hugsanlega sé hægt að sækja það mál á lagalegum grundvelli eru í afneitun á því að Íslendingar hafi borið siðferðilega sinn hluta ábyrgðar af hruninu.

Fjármálaeftirlit Breta vildi snemma árs 2008 fá Landsbankann til að setja í Icesave í útibú en íslensk stjórnvöld og Fjármálaeftirlitið létu Landsbankann komast upp með að draga lappirnar.

Á þessum tíma létu meira að segja margir sér það vel líka að með því að hafa Icesave í útibúi kæmu peningarnari fljótar heim til Íslands.

Milljónir Þjóðverja sögðu réttilega að þeir hefðu alla tíð verið á móti nasistum og því ekki átt sök á því hvað gert var í nafni þjóðarinnar.

Samt varð þetta saklausa fólk að taka afleiðingunum af því sem stjórnvöld gerðu í þeirra nafni, svo óréttlátt sem það nú var hvað snerti hvern og einn einstakling.

Það er auðvitað ósanngjarnt að Icesave-skuldunum sé velt yfir á íslenskan almenning en það er líka ósanngjarnt að velta þeim yfir á breskan og hollenskan almenning.

En hjá því verður ekki komist að þessar þrjár þjóðir bæti að sanngjörnu marki það tjón sem innistæðueigendur urðu fyrir.

Vegna gríðarlegs stærðarmunar þjóðanna er hlutfallslega of stórum byrðum velt yfir á Íslendinga og það verður hið stóra verkefni næstu ára að skipta þessu réttlátar".

Og þér að segja nafni, þá var fátt erfiðara að glíma við en svona orð, og svona rökstuðningur.  En það hafðist samt að lokum, og allir vita hvernig fór.

En þetta er ekki aðalatriði málsins, og ég er glaður að þú hafir á einhverjum tímapunkti endurskoðað afstöðu þína.

Aðalatriðið er að það er rangt að réttlæta svikasamninginn, og þá sem sömdu um hann, með þeirri réttlætingu að þetta hafi verið svona skipulagt undanhald og allt hafi endað vel að lokum.  Ég viðurkenni fúslega að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var ekki í góðum málum, og fátt eða ekkert í stöðunni annað en að semja, og það veit enginn hvort betri samningur hafi verið í boði.  En þetta fólk laug frá fyrsta degi til að fá samninginn samþykktan, og hvergi í málsmeðferðinni verður séð annað en einbeittur vilji til að fá þessa samþykkta.  Andstaðan kom annars staðar frá, og það var henni að þakka að við glötuðum ekki öllu sem við áttum. 

Það er kjarninn, og við eigum ekki að halda öðru fram.

Og síðan er það staðreynd að Steingrímur og VinstriGrænir ætluðu að virkja 22 virkjanir til að tryggja þann hagvöxt sem þurfti til að geta staðið í skilum við breta og AGS, því AGS lánið hékk lika yfir okkur og það átti að nota til að greiða út fastar krónueignir útlendinga.

Þetta eru óþægilegar staðreyndir fyrir stuðningsfólk ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttir, en þær batna ekkert við að afneita þeim.  Þetta er allt skjalfest.

Hins vegar eru skýringar á af hverju fólk tók þá ákvörðun að styðja ICEsave og styðja þessar 22 virkjanir, og þær sem slíkar má virða.  Þó maður hafi ekki verið sammála þeim.

Við eigum að virða söguna, og læra af henni. 

Ekki afneita henni.

Kveðja að austan.

 

 

 

Ómar Geirsson, 1.3.2019 kl. 23:06

9 identicon

Broslegt að sjá helsta hvatamann að því að þræalsamningurinn yrði samþykktur vera nú að sverja af sér skömmina því ekki er skömmin lítil.  Þeir voru ekki fáir pistlarnir sem hann ritaði um að það væri siðferðisleg skylda íslendinga að borga skuldir óreiðumanna svo erlendir spilafíklar töpuðu nú ekki á glæpastarfseminni.  Hélstu virkilega að lesendur þínir væru með gullfiskaminni?

Ekki var hann í slæmum félagsskap með þeim Silfri-Egil Helgasyni og Hagfræði-Þórólfi Matthiassyni og öðrum sem fannst það ekki bara sjálfsagt en líka heiðarlegt og réttlátt að skuldsetja æsku landsins til að borga skuldir sem var þeim óviðkomandi.  Auðvitað skammast síðuhöfundur sig fyrir heimskuna sem hann var heltekinn á sínum tíma  og vill nú breiða yfir.  Það eina sem honum gekk til var að hann vildi þóknast erlendu yfirvaldi og því skipti hann engu þótt það bitnaði erfingjum landsins.  Hann gat alltaf breitt yfir það með eins og einum pistli um hvað rafreiðhjól menguðu lítið miðað við rallýbílinn sem hann ók á sínum yngri árum, eða flugvélin sem hann lenti á afviknum sveitavegum.

Alltaf gegnheill og trúr sjálfum sér hann Ómar.

bjarni (IP-tala skráð) 2.3.2019 kl. 01:40

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ómar Geirsson, ekki aðeins var fengur að allri samstöðu þinni, skrifum og slagkrafti gegnum tíðina, síðan blóðið rann þér svo til skyldunnar, að þú varðst að gerast Moggabloggari, heldur sé ég það einnig hér, hve langminnugur þú ert og haldgott þitt minni. Ma'ður eins og þú gæti gert upp Icesave-söguna í nýrri bók með Sigurði Má Jónssyni viðskiptablaðamanni, til viðbótar við hans fyrri bók um málefnið og deilusöguna alla; það vantar a.m.k. vissa hluta í þá bók hans. 

Jón Valur Jensson, 2.3.2019 kl. 03:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband