Jón Gnarr Úkraníu?

Sagan greinir frá mörgu merkilegu fólki, sem þeysti óvænt inn í einskonar tómarúm í þjóðlífi, stjórnmálum og listum, kom, sá og sigraði.

Stundum hefur verið hægt að rökræða um það hvort hinir áður lítt þekktu sigursælu einstaklingar hefðu verið slíkt afburðafólk, að þeir hefðu hvort eð er brotist til forystu. 

Hugsanlega má oft segja að þarna hafi verið réttur maður á réttum stað og réttum tíma, og að allt þetta eigi við. 

Staðbundið ástand sem líkja má við tómarúm sem bíði eftir því að vera fyllt af heppilegum einstaklingi. 

Í Úkraínu hafa þjóðlíf og stjórnmál verið gegnsýrð af örgustu spillingu, sem stjórnarbyltingar síðustu ára virðast ekki hafa haft minnstu áhrif á. 

Það minnir á ástandið í borgarstjórn Reykjavíkur á árunum 2003 til 2010. Á þeim árum sátu sjö borgarstjórar að völdum á sjö árum og áður óþekkt öngþveiti og ringulreið ríktu. 

Í lok þessa tímabils þegar borgarfulltrúar tóku sig saman um að kveða drauginn niður, datt allt niður í slíkt dúnalogn, að kjósendur gátu fyllst þeirri tilfinningu að alger deyfð og dáðleysi hefðu komið í stað hinna einstæðu sviptinga. 

Kjósendur hylltust því til að hugsa sem svo, að þáverandi borgarstjórnarflokkar hefðu gert svo mikið í buxurnar, að hvað, sem væri, væri skárra. 

Inn í þetta ástand og eins konar tómarúm steig grínistinn Jón Gnarr, vann frækinn sigur,f sat allt kjörtímabilið í sæti borgarstjóra og kom ágætlega út úr því.

Björk Guðmundsdóttir var rétt kona á réttum stað og tíma þegar hún skaust upp í himinhæðir á sviði popptónlistar í heiminum eftir að Madonna og Michael Jackson höfðu ráðið lögum og lofum á því sviði í krafti sífellt stórbrotnari umgjarðar tónlistar sinnar og ævintýralegrar sviðsatriða. 

En hin alþjóðlega saga poppsins er vörðuð af tímabilum eins og rokktímabilinu, sixtís, Bítlatímabilinu, þungarokkstímabilinu, pönktímabilinu og diskótímabilinu þar sem hver bylgjan af annarri reis og hneig og skapaði tómarúm fyrir nýja bylgju. 

Þegar Madonna og Jackson höfðu ríkt nógu lengi, skapaðist þðrf fyrir algera andstæðu, gerólíka tónlist og framsetningu, einfaldleika og einlægni hinnar barnalegu snilldarkonu Bjarkar Guðmundsdóttur með sína einstæðu rödd og raddbeitingu og nýja nálgun í sköpun og flutnigni tónlistar. 

Nú er að sjá hvort Volodimir Selenskij geti einhvað haggað við hið gerspillta pólitíska ástandi, sem hefur plagað Úkraníumenn.  

 


mbl.is Grínistinn sigraði í Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Óskandi væri að Úkraínu menn þurfi ekki að burðast með svona hallæri og skömm sem kjósendur Jóns Gnarr sköpuðu okkur.

Hrólfur Þ Hraundal, 21.4.2019 kl. 21:46

2 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Já, það vona ég líka, Úkraínumanna vegna að þessi gaur sé bara ekkert líkur Jóni Gnarr.

Það er alveg rými fyrir eitthvað annað hjá okkur.  Píratar lofuðu góðu, en voru svo of líkir öllu hinu til að verða eitthvað.

Svona er þetta...

Ásgrímur Hartmannsson, 21.4.2019 kl. 21:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband