Norðmenn gera vel við stríðsminjar, ólíkt Íslendingum.

Á ferðum um Noreg er áberandi, hve vel Norðmenn gera skil hernaðarlegum mannvirkjum og viðburðum, sem snerta sögu þjóðarinnar. 

Einkum er þessu gerð góð skil í Narvik, þar sem frægasta orrustan í Síðari heimsstyrjöldinni á norskri grund var háð, enda var um það að tefla fyrir Þjóðverja að viðhalda stöðugu flæði sænsks járns til Þýskalands allt árið, ef þeir áttu að geta haldið í við Bandamenn í vopnaframleiðslu, án þess að skortur yrði á hráefni til hennar. 

Svo mikilvægt var þetta, að Bretar gerðu áætlanir um að hertaka flutningaleiðina frá Kiruna og Gellivare yfir til Narvikur undir því yfirskini, að verið væri að útbúa flutningaleið fyrir herlið til hjálpar Finnum í Vetrarstríðinu við Rússa. 

Þegar saminn var friður í því stríði, datt botninn úr þessari áætlun og í staðinn lögðu bresk herskip tundurdufl í norskri lögsögu 8. apríl, um það leyti sem þýskur her með notkun þúsund flugvéla var að hefja innrás sína í Danmörku og Noreg. 

Taka Noregs og ófarir Breta og Frakka þar yfirskyggði þann tímabundna árangur sem Norðmenn náðu í Narvik, áður en enn hrikalegri ófarir í stríðinu í Frakklandi urðu til þess að draga varð allt herlið Bandamanna þangað. 

Á allri leiðinni norður eftir hinu ógnarlanga nágrannalandi okkar er hvarvetna vel fyrir því séð að minjar um stríðið séu myndarlegar og aðgengilegar. 

Etirminnilegt er til dæmis að koma á stað, þar sem er lítið safn og greinargóðar minjar frá stað, þar sem Þjóðverjar fóru hraklega með stríðsfanga í nauðungarvinnu við vegagerð. 

Íslendingar misstu hlutfallslega næstum eins marga menn og Bandaríkjamenn í stríðinu, og þrátt fyrir hlutleysi landsins tæknilega séð, var Bandamönnum veitt lið með siglingum með fisk til Bretlands. 

Lítt er samt sinnt um minjar um þetta, svo sem alhliða stríðsminjasafn sem tengjast hinni mikilvægu og stóru sjóherstöð í Hvalfirði, Reykjavíkurflugvelli og Kaldaðarnesflugvelli, svo að eitthvað sé nefnt. 

Hvalfjarðarstöðin tengist órjúfanlega skipalestunum og sjóhernaðinum, svo sem hinni miklu sjóorrustu vestur af Íslandi á milli flaggskipanna Bismarck og Hood og fylgarflota þeirra. 

Reykjavíkurflugvöllur var, einkum í upphafi stríðsins, mikilvæg bækistöð og stjórnstöð fyrir orrustuna um Norður-Atlantshafið, sem fær jafn áberandi rými í bókum um stríðið og orrusturnar um Bretland, Moskvu, Stalingrad og El Alamein. 

Kaldaðarnesflugvöllur var tekinn í notkun á undan Reykjavíkurflugvelli og síðar Keflavíkurflugvelli og frá Kaldaðarnesi flaug flugvélin, sem tók fyrsta þýska kafbátinn, sem færður var til hafnar í gervöllu stríðinu. 

Þar er skipulega búið að útrýma öllum minjum um stríðið.

Á hinn bóginn eiga Reyðfirðingar og Austfirðingar lof skilið fyrir sitt minjasafn á Reyðarfirði. 

Þar áttu Norðmenn og Kanadamenn stóran þátt í að verja þann hluta Íslands, sem vegna slæmra landsamgangna mátti líkja við eyju. 

Hernaðarlega var Ísland á stríðsárunum þrjár eyjar, suðvesturhornið sú stærsta og mikilvægasta, en Eyjafjörður og Miðnorðurland önnur eyja og Austfirðir sú þriðja. 

Á Akureyri er ýmislegt að finna í Norðurslóðaafninu og Flugsafninu, sem minnir á stríðið og á Hnjóti í Patreksfirði eru minjar, sem hefðu átt að vera á stóru safni í Reykjavík. 


mbl.is Norsk orrusta mynduð í Póllandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband